18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í C-deild Alþingistíðinda. (1000)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðmundur Eggerz:

Eg get verið sammála háttv. framsögum. fjárlaganefndarinnar (P. J.) um, að æskilegt væri að sem minst væri hróflað við gerðum hennar. Finst mér lítil meining vera í því hjá háttv. þingmönnum sð vera altaf að tala um sparsemi, en hrúga samt upp breytingartilögum, sem allar fara fram á að hækka útgjöldin. Eftir því sem eg kemst næst, mundu breytingartillögurnar, ef þær allar næðu fram að ganga, hækka útgjöldin um 300 þús. kr. Eg er sjálfur flutningsmaður nokkurra breytingatillagna, en þær miða í öfuga átt, miða til að minka útgjöldin. Það er þó ekki þannig ástatt, að eg hafi ekki ástæðu til að bera fram fjárbeiðnir fyrir mitt kjördæm. Eg hefi t. d. fengið áskoranir um að útvega styrk úr landssjóði til brúar yfir Grímsá, sem brýna nauðsyn ber til að gera og tvísvar hefir verið gerð teikning til. Enn fremur er sýslunni mikið áhugamál, að akvegurinn, sem liggur yfir Fagradal, nái alla leið að Eiðaskólanum. Eg bar þessi erindi upp við fjárlaganefndina, en hún vildi ekki sinna þeim og enda þótt mér félli þetta illa, vildi eg þó ekki koma fram með breytingartillögur, gegn vilja nefndarinnar, sem hefðu aukið útgjöldin um liðug 20 þús. kr. og er eg þó sannfærður um, að þær hefðu haft meiri rétt á sér en margar af þeim, sem fram hafa komið í deildinni. Mér er ekki ljúft að bæta við tekjuhalla landssjóða, hann mun verða nægur samt.

Skal eg svo víkja nokkrum orðum að breyt.till. mínum á þgskj. 445. Þar hefi eg farið fram á að 2500 kr. styrkur til Hannesar Þorsteinssonar fyrir að semja sögur lærðra manna á Íslandi á síðustu öld, falli burt.

Fyrir þá sök hefi eg komið með þessa breytingartillögu, að eg álít þetta verk ekki svo mikils virði, að við höfum efni á að leggja í það 2500 kr. árlega. Hina vegar játa eg, að mér er ekki ljúft að bera breyt.till. fram því Hannes Þorsteinsson er kunnur að því, að vera elju- og dugnaðarmaður og líklegast flestum núlifandi mönnum fróðari í því efni, sem hér er um að ræða. Það er þannig ekki af meinbægni við hann að eg vil afnema styrkinn, heldur af því að við höfum ekki efni á að veita hann, svo er eg líka hræddur um að ekki verði margir, sem lesa þá bók.

Þá kem eg að annari breytingartill. minni. og hana ber eg fram með glöðu geði; hún er um að tillag landssjóðs til Good-Templarafélagsins falli burt. Það er eigi svo að skilja, að eg ekki viðurkenni að þetta félag hefir unnið þjóðinni mikið gagn, en það hefir að minni hyggju líka unnið henni mikið ógagn; á eg þar við aðflutningsbannslögin. Með þeim hefir landið verið svift stórri tekjugrein. Ef aðflutningsbannið væri ekki, mundu tekjur landssjóðs vera hálfri milíón til 700 þús. kr. meiri á fjárhagstímabilinu. En breytingartillaga mín stafar aðallega af því, að Goodtemplarafélagið er nú orðið að miklu leyti pólitískt félag. Á síðustu árum hefir það haft æðimikil áhrif á kosningar til Alþingis. Félagið var gott meðan það hélt sér við stefnuskrá sína, en það fór alt í mola, er það fór að verða pólitískt félag. Eins og nú er ástatt, mætti alveg eins sækja um styrk handa Heimastjórnarflokknum eða Sjálfstæðisflokknum. (Benedikt Sveinsson: Gert um daginn). Jæja, eg hefi þá ekki tekið eftir því.

Úr því þetta aðflutningsbann er líka komið á, er félagið gersamlega þýðingarlaust.

Þá ætla eg að snúa mér að skólanum á Núpi, sem mikið hefir verið rætt um í dag. Eg er á móti styrkveitingunni til hans þegar af þeirri ástæðu, að ef honum verður veittur styrkur, munu aðrir skólar koma á eftir og heimta sama konar styrk. Eg get ekki verið sammála háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um að sjálfsagt sé að veita öllum unglingaskólum styrk. Annars talaði hann í prédikunartón um þennan skóla. Get eg ekki tekið allar ástæður hans gildar. Hann talaði um, að í sínu kjördæmi væru menn svo skynsamir, langtum skynsamari en annarstaðar. Þá ætti einmitt ekki að vera svo mikil þörf á skóla þar. En enginu vafi er á því, að hvað skynsamir sem þeir kunna að vera í kjördæmi háttv. þingmanns, mun þó mega segja, að engin regla er án undantekningar.

Eg get gjarna játað, að maður, sá er veitir skólanum feratöðu, er mesti sæmdarmaður, svo að því leyti er skólinn vel maklegur styrks. En aftur á móti er ýmislegt í skólaskýrslunni, sem ekki er til að auka virðingu manna fyrir honum. Einna helzt þar á meðal er ræða eftir Matthías Ólafsson. Slíkri ræðu held eg að skólinn ætti að sleppa þegar hann sækir um styrk næst.

Um skáldin skal eg ekki vera langorður. Eg er háttv. framsögumanni fjárlaganefndarinnar samþykkur um, að óviðkunnanlegt sé að virða menn og meta hér í þingsalnum. Skal eg því ekki fara út í þá sálma, en atkvæði mun eg greiða gegn skáldastyrknum.

Það vil eg taka fram, að það nær engri átt, eins og haldið hefir verið fram í deildinni, að styrkir þessir séu í raun og voru veittir skáldunum á meðan þau lifa.