18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í C-deild Alþingistíðinda. (1004)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

háttv. þm. S.- Múl., sýslumaður með meiru , hélt snjalla ræðu um breyt.- till. á þgskj. 44b, sem er frá þeim virðulega herra sjálfum og er þess efnis að fella burtu styrk til Hannesar Þorsteinssonar til að semja ævisögur lærðra manna á síðari öldum. Það mun nú ekki mega geta sér þess til, að háttv. þm. hafi lagt á móti þessari fjárveiting af því að hann hafi búist við að hann yrði ekki tekinn upp í slíkt ritverk. Eg býst nú raunar við því, að hefði hann hugsað svo, þá hefði hann einu sinni á ævinni orðið getspakur. Eg hygg nú samt að ritið geti orðið læsilegt, jafnvel þótt nafna háttv. þm. yrði þar að engu getið.

Háttv. þm. hefir eflaust lengi hugsað um þessa ræðu eina og lagt mikið að sér til þess að vanda hana sem best. Honum hefir líka tekist snildarlega að leggja inn í ræðu sína, ekki einungis gáfnafar sitt, heldur líka mannkosti. Gáfnafarinu lýsir það bezt, að hann sagði að af einni brú fyrir austan hefðu verið gerðar 2 teikningar og jafnmargar kostnaðaráætlanir og samt væri hún ekki betri en svo, að stúlka fyrir austan hefði druknað í henni. Það má Vera undarlegt gáfnafar, sem kemst að þeirri niðurstöðu, að stúlka hafi druknað í brú, sem aldrei hefir verið til, þó aldrei nema 2 teikningar hafi verið gerðar af henni.

Mannkostina aftur á móti sýnir hann með því, að ráðast á mig alsaklausan, sem hafði þó gert honum greiða áður, þar sem eg losaði hann við þá óþægilegu kvöð, sem hann hafði á sig lagt sjálfur og hefir hann þannig launað mér gott með illu. Og eg get sagt hv. þm., að það var stór kvöð, því að það er verra að smala andarnefjum í hafinu hér við land, heldur en að elta alla landsins ketti til að drepa þá.

Hann kvaðst mundi greiða atkv., eða svo skildist mér, á móti br.till. minni á þgskj.366, og þó, helzt af þeirri ástæðu að í skólaskýrslunni frá Núpi væri einhver ræðuatúfur eftir mig. Það er leitt ef skólastofnun þessi geldur þessa. Eða að þessi orð, sem eg sagði þar við skólauppsögn, yrðu til þess að skólinn yrði sviftur styrk, en ekki get eg ásakað mig um þetta, því engan hlut á eg í að þau eru komin þarna inn.

Háttv. þm. sagði, að eg hefði flutt ræðu mína í prédikunartón. Er það nú líka orðin synd ? Um mentunina, sem hann var að tala, er það að segja, að eg hélt því fram og held því fram, að menn séu eins mentaðir fyrir vestan eins og annarstaðar á landinu. En hitt er annað mál að mentunin er ekki nóg og því er farið fram á styrk til að auka hana.

Viðvíkjandi breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) er það að segja, að eg álít að upphæðin, sem tiltekin er til skólanna sé of lítil, ef ekki á að taka neina skóla upp á fjárlögin með einstakri fjárveitingu.

Annars er það merkilegt að vera að telja styrk til Skóla eftir, því að það er auðsýnlegt að mentuð og mönnuð þjóð stendur betur að vígi í öllu tilliti, en hin sem er það ekki.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er það að segja, að hann ætti að leggja sér það spakmæli á hjarta: »Þú nytsemd, láttu fegurð í friði«.

Skáldin beina hugsunum þjóðanna í rétta átt, og það er ekki búhnykkur, sem fjárlaganefndin vill gera, að svifta þá styrknum, sem, þeir hafa haft, svo að þeir þurfi ef til vill að leita af landi burtu til þess að vinna fyrir sér.

Annars er eg alveg sömu skoðunar sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að það eigi illa við að veita þessar styrkveitingar upp á nafn. Álít eg, að veita beri stjórninni talsvert ríflega upphæð til styrktar í þessu skyni. Bæði tekur það sig betur út og losar þingið við úthlutunina. Vona eg, að þetta verði síðasta þingið, þar sem verið er að tönnlast á nöfnum skáldanna og listamannanna. Það væri ef til vill íhugunarvert, hvort ekki væri rétt að taka nokkura upphæð úr landssjóði og verja vöxtunum þar af til verðlauna skáldum og listamönnum.