18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í C-deild Alþingistíðinda. (1006)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Þeir, sem talað hafa hér í dag, hafa minst á margt það, sem eg hefði viljað minnast á, svo að eg get aparað mér að tala um það.

Það er að eins eitt atriði, sem eg vildi minnast á, en það er skáldastyrkurinn. Eg vildi nú óska þess, að eg væri orðinn skáld, þá kæmist eg á skáldastyrk, og þyrfti ekki að kvíða vinnuhörkunni eftir á. Eg get verið þakklátur háttv. fjárlaganefnd fyrir tillögur hennar í þá átt að breyta fyrirkomulaginu, sem verið hefir á þessum skáldlaunum. Eg er einn þeirra manna, sem álít, að heppilegast sé að veita vissa upphæð til umráða í þessu skyni fyrir stjórnarráðið, háskólaráðið eða einhverrar tiltekinnar nefndar, sem hefði úthlutun fjárins, líkt því sem hv. fjárlaganefnd víkur að í nefndarálitinu. Eg játa það, að það er leiðinlegt að vera með þrætur og dóma um þá menn, sem maður ann og virðir, en fátæktar vegna getur ekki styrkt eins vel og æskilegt er. Það er fátt, sem lætur verr í eyrum þjóðarinnar en þessir svo kölluðu bitlingar. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra, að þingmenn, sem leggja til að lækka þennan styrk, færu eftir þingmálafundaglamri. Hvað sem því líður, þá má þó benda á það, að umkvartanirnar koma frá gjaldendum landsins og það eru þeir, sem kaupa verk skáldanna. Með því að kvarta yfir skáldlaununum, eyna menn, að þeir vilja ekki vinna það til fyrir verkin skáldanna.

En þótt eg sé nú nefndinni þakklátur fyrir stefnuna, þá get eg samt ekki þakkað henni fyrir það, hve háar hún hefir tölurnar, og þess vegna hefi eg komið fram með brtill. á þgskj. 431. Eg álít það sanngjarnt að halda sér sem mest við styrkinn, sem hann var áður og hækka hann ekki, þótt að eina sé veittur fyrra árið. Það að leiðrétta þetta ekki, getur leitt til þess, að menn verði óánægðir síðar meir, ef þeir fá ekki sömu upphæðina. Eg er viss um, að þessir menn eru ekki svo tæpt staddir, að þeir geti ekki beðið eitt ár, ekki sízt ef þeir fá jafnt fyrir fyrra ár fjárhagatímabilsins, sem þeir mundu fá fyrir bæði. Eg er viss um það, að Reykvíkingar láta aldrei sín skáld deyja úr hungri, og eins er eg viss um, að Árnesingar halda tórunni í séra Valdemar Briem. (Bjarni Jónsson: Ætla þá Reykvíkingar að passa Þorstein Erlingsson og Guðmund Guðmundsson?). Eg þykist mega fullyrða það, að ef þeir koma austur, verða þeir ekki látnir drepast, og getið þið látið þá koma, ef þeir eru að sálast.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) var að tala um smásálarskap og kallaði það skammsýni, að vera að klípa af þessum fjárveitingum. Eg er ekki viss um, þó að hann vilji sýna víðsýni sitt og skörungsskap í að eyða peningum, að hinir, sem ekki vilja fara jafn-langt, verði taldir skammsýnni, þótt þeir vilji draga af á þessum til þess svo að bæta á öðrum. Safnast þegar saman kemur. Ef tillögur mínar yrðu samþyktar, sparaðist landssjóði 4 þús. kr., og er það nóg til að hlaða fjórar bryggjur í Dalasýslu.

Að öðru leyti nenni eg ekki að eltast við setningar úr ræðum manna, t. d. háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), sem sagði, að hagur landsina væri bundinn við skáldin, eða háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.), sem sagði, að skáldin hefðu kveðið í oss kjarkinn. Eg vil spyrja inn háttv. þingmann: hvenær hafa þau kveðið í oss matinn ?

Eg skal svo ekki orðlengja um þetta. Eg fyrir mitt leyti væri feginn, ef hægt væri að kaupa skáldin burt af fjárlögunum með þessu.