18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í C-deild Alþingistíðinda. (1013)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson:

Það eru eiginlega hrein svik af háttv. 1. þm. K.-G. (B. Kr.), að tala svona stutt. Eg hafði búist við hann flytti miklu lengri ræðu, og hefi því ekki til fulls áttað mig á því sem eg ætla að segja.

Eg verð þá að byrja þessa ræðu með áframhaldi af innganginum í dag. Það hafa nokkrir þingmenn tekið sér fyrir hendur, að gera samanburð á framleiðslunni á borðanlegum og seljanlegum hlutum og hinu, sem ekki verður látið í askana. Þessir menn hafa talað hóglega og að mörgu leyti réttilega um þessa hluti, svo að eg sé ekki ástæðu til að fara að mótmæla þeim sérstaklega. En það er að eins einn mikill misskilningur, sem eg vildi vekja athygli á og leiðrétta í inni fyrri ræðu minni, og það er þetta andatyggilega bitlinganafn á styrkveitingum til andlegrar framleiðslu. Með þeim orðum mínum vildi eg sýna, hve bitlinganafnið er fráleitt á þessum fjárveitingum í samanburði við þær sem veittar eru til annara framleiðslu og menn telja enga bitlinga. En þeim mönnum er talið það til skammar og svívirðingar sem fá styrki, sem kallaðir eru bitlingar! Þetta er in mesta háðung.

En hitt hefir mér aldrei komið til hugar, að styrkir til þessara manna, sem aðrir kalla bitlingamenn, eigi að verða til þess að sporna á móti fjárveitingum til framleiðslu á lands- og sjávarútveginum. Hefir mér það aldrei komið til hugar eina og sjávarútvegur vor er nauðsynlegur. Sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn er skilyrðið fyrir því að við getum lifað. En einstakra manna styrkur raskar ekki hlutfallinu á milli innar andlegu og líkamlegu framleiðslu í landinu. Landsafurðirnar eru þeirra laun, sem auka framleiðsluna í þá áttina, líkamlegu áttina, og því meir gefur hún af sér sem meir er unnið að henni. En þetta er öfugt við þá andlegu framleiðslu, því meir sem menn Stunda hana, því minna fá þeir til matar síns, þetta verður að meta þegar um styrki er að ræða. Það hefi eg gert, en aldrei lastað það, að styrkur yrði veittur til búnaðarfélaga eða þess, sem hjálpa mætti atvinnuvegunum á Íslandi. En því hefi eg talað á móti og það tel eg andstygð, að svívirða þá menn, sem styrk fá til andlegra starfa, og kalla þá bitilngamenn eða ölmusumenn.

Í sambandi við það sem háttv, framsögum. fjárlaganefndarinnar sagði, þegar hann var að lýsa menningarbrag á heimili, þá er eg honum þar ekki í öllu samdóma. Fyrsta skilyrði sagði hann að væri góður búskapur, 2. góð efni og 3. það, sem fegrar lífið. Reynslan mótmælir þessu. Efnuðu heimilin eru oft þau, sem ekkert hafa af því, sem er til að fegra lífið, þó að þau hafi lítið fyrir að lifa. En aftur á móti þau heimili, sem erfiðast eiga uppdráttar, hafa oft mest af því sem fegrar lífið. Og það verður háttv. þm. að játa, að ekki sé svo fátækt heimili að það hafi ekki ráð á að eiga nokkrar góðar bækur, til þess að stytta sér langar kvöldvökur á veturna. Eg vil ekki mótmæla því, að æskilegt sé fyrir hvert heimili að efna hagurinn sé góður, og að með góðum efnum sé hægra að veita sér það sem fegrar lífið. En eigi hygg eg, að venjan sé sú, að fyrst komi góður búskapur og svo fegurðin. Nei, fyrst verður fegurðin að koma og svo þá á eftir góður búskapur og góð efni. Eg tel það því fyrsta skilyrðið fyrir menningarbrag á heimili, það sem hv. framsögum. taldi ið 3. eða síðasta. Eg segi, að menningarbragurinn sé fyrst og fremst undir þvf kominn, hve mikið heimilið hefir af því, sem fegrar lífið. Mér dettur í hug í þessu sambandi maður, sem fór að biðja sér stúlku: Það var maður efnaður, sem vildi ná sér í prestsdóttur. kom hann á bæinn, sem prestdóttir átti heima, og barði þar að dyrum. Prestdóttir kom til dyra. Maðurinn hóf þá bónorð sitt á þessa leið: Viltu eiga mig? Eg vil eiga þig. Eg er sæmilega ríkur, sæmilega forstöndugur, en lítið gefinn fyrir bókarament. Þessi maður hefir haft líka skoðun á menningarbrag og háttv. framsögum. fjárlaganefndarinnar. (Sigurður Sigurðsson: En hvernig fór um bónorðið?). Jú, stúlkan tók honum. Enda kom þá fyrst menningarbragur á heimili hans.

Annars er eg ekkert hræddur um það, að Íslendingar með styrkveitingum sínum ginni menn út á vísindabrautir eina og hv. framsögum. sagði. Það er ekki svo ginnandi atvinnugrein. Eg hygg, að mönnum sé það ljóst, að embættismannalaunin eru ekki einu sinni neitt ginnandi, hvað þá heldur þessir sultarstyrkir til vísindamannanna.

Á meðan eg man, ætla eg að minnast á spjaldskrána. Virðist mér það harla undarlegt, að 7 menn skuli hafa skrifað nöfn sín undir það, að ekki nema einn maður geti eftir prentuðum reglum skrifað bækur upp á lista og skráð þær eftir fyrirmynd, sem annar maður hefir áður gert. En nú hefi eg heyrt, að fjárlaganefndin ætlaði að taka þetta til nánari athugunar, og er eg henni þakklátur fyrir það.

Nú vil eg minnast nokkrum orðum á einstök atriði.

Eg er ánægður með undirtektir manna um breyt.till. mína, að slengja saman í eina heild styrkveitingum til unglingaskóla, svo stjórnin geti veitt styrk til skólanna, án þess að þurfa að rígbinda sig við ákvæði, sem Alþingi setur um einhverja einstaka skóla.

Þessi br.till. mín er og í sama anda og tillögur fjárlaganefndarinnar, að Alþingi veiti fé í einni fúlgu, sem stjórninni sé svo falið að útbýta. Skil eg því ekki, hvers vegna háttv. framsögumaður nefndarinnar er á móti þessari till. minni og það af þeim ástæðum að hún þurfi meiri undirbúning. Hvað langan? Ætli hún þurfi lengri tíma til undirbúnings en er á milli 2. og 3. umr.

Stjórnin og fjárlaganefndin er að tala um eftirlit með Hvítárbakkaskólanum. En það vantar skýrslu um það, í hverju það eftirlit sé fólgið. Langaði mig til að sjá þá skýrslu, en sé til skýrsla um það, þá hygg eg að fáir viti um hana. Sumir hafa hér haldið því fram, að Hvítárbakkaskólinn væri eitthvað annað en ungmennaskóli. Þeir menn ættu að geta fallist á mína tillögu um unglingaskólana og ekki fella Hvítárbakkaskólastyrkinn frá 3. umr. Finnist þeim mín upphæð of há, þá verða þeir annað hvort að gera, að láta ekki of mikla upphæð, eða fella alveg styrkinn til Hvítárbakkaskólans.

Eg skil ekki, hvernig því hefir verið borið við, að eg hafi breytt upphæðinni til unglingaskólanna. Mér gleymdust þessar 800 kr. og var það ekki af ásettu ráði. En þann lið má líka hækka um 800 kr. við 3. umr. Mín regla er að eins sú, að veita ekki styrk upp á nafn heldur í sameiningu. Og gleður það mig að eg hefi fylgi margra manna til þessa.

Hér hefir verið talað um ýmsa sérstaka Skóla. Vil eg ekki bera brigður á lofsorð, það sem lokið hefir verið á kennarana við Núpsskólann í Dýrafirði. Eg þekki dálítið prestinn, séra Sigtrygg, og er það í öllu ágætismaður, sem stundar starf sitt við skólanr. með mestu alúð. En þetta gera aðrir líka, og því er ekki hægt að veita fé til Núpsskólans upp á nafn, af því að þá myndu allir hinir skólarnir koma á eftir og heimta það sama. En ef mín tillaga, verður feld, og Núpsskólanum veitt fé sérstaklega, þá kem eg undir eins við 3. umr. með beiðni um 1200 kr. fjárveitingu til unglingaskólans í Hjarðarholti í Dölum, og ið sama hygg eg að aðrir þingm. muni gera handa unglingaskólunum í þeirra kjördæmum. Úr því að fara ætti í veðhlaup í úthlutun fjárins til skólana, þá myndu þeir allir reyna að koma sínum skólum að sem fyrst.

Úr því að það hefir verið talað um, að eg hafi breytt upphæðinni, þá er eg fús á að breyta henni líka til 3. umr. — hækka hana. Eg er ekkert á móti því að hún yrði hækkuð. Og eg er sömu skoðunar og háttv. framsögumaður fjárlaganefndar, að rétt sé að Alþingi styrki þá skóla, sem landinu eru til gagns, sérstaklega alþýðu manna. En aftur á móti er eg á móti því að styrkja málamyndaskóla, þótt kallaðir séu lýðháskólar, þar sem alt er kent í miðlungi góðum fyrirlestrum af miðlungs kennurum, enda vafi á, hvort þeim skuli leyfa landvist. Það er gott að hafa fyrirlestra með, en þeir eru ekki nógir eingöngu. Það má deila um gagnið, sem þessir lýðháskólar gera, en það er engum efa bundið, að alþýðuskólarnir eru veruleg framför. Og er því rétt að hlynna að þeim, því að því meira gagn geta þeir gert. Og ekki hefi eg í neinu reynt að ráða Alþingi til þess að styrkja vísindamenn og listamenn á kostnað neins annars. Nei, það hefi eg ekki gert, heldur til þess að það megi verða landinu að gagni.

Eg læt vera að minnast á Bernarsambandið. Ástæðurnar eru óbreyttar frá því sem áður var. Það sem eg hefi nefnt áður um leikfélagið og þýðingar er jafn gott og gilt nú. Mér fyrir mitt leyti er þetta ekkert kappsmál, en vel get eg trúað því, að íslenzk bókagerð græði lítið á því að vér göngum í Bernarsambandið. Eg hefi nýlokið við þýðingu á Helheimum eftir Árna Garborg. Hefi eg unnið að henni í síðustu 6 árin í hjáverkum, en enginn hefir viljað gefa hana út og hefi eg þó reynt víða fyrir mér bæði í Noregi og hér á Íslandi. Loks nú hefi eg fengið tvo bókaútgefendur hér fyrir þrábeiðni mína til þess að gefa hana út. En það sem eg hefi fengið fyrir þýðinguna, er ekki meira en eg hefi hér í lófa mínum, ekki einn eyrir. Hvað þá að Árni hafi fengið nokkuð. Ef leita þarf framvegis leyfis til þýðinga og höfundar áskilja sér borgun fyrir, þá mun verða minna um það að menn þýði erlend ágætisverk á íslenzka tungu, því menn verða tregir til að gjalda fé við því að fá að vinna verk, sem ekkert gelst fyrir.

Leikfélagið hér í Reykjavík stendur nú höllum fæti og erfitt yrði því uppdráttar, ef það þyrfti að að borga fyrir að fá að leika. Eg væri með því að þessi tillaga fengi fram að ganga, ef að styrkurinn til leikfélagsins yrði hækkaður um 2–3000 kr. Eg játa það, að þegar skáld eiga völ á að verk þeirra séu þýdd, þá er það stórt fjárspursmál fyrir þá, en væru þeir sviftir þessu, þyrfti landið að styrkja þá. En þegar nú er svo komið að skáldin geta alt af búist við því að þeir verði sviftir þeim styrk, sem landið hefir veitt þeim, þá sýnist mér það eina ráðið, að útvega þeim þetta Bernarsamband — en þó því að eins að styrkurinn til leikfélagsins verði hækkaður.

Einn þingmaður hérna, nefnilega sá, sem Seyðfirðingar hafa sent hingað, var að tala um einhverja bættu, sem Íslendingum stafaði af lærðum öreigum. Þingmanninn var víst farið að dreyma eitthvert útlent Proletariat, sem hann hefir lesið um í Kaupmannahöfn. En hann er víst ekki alveg útsofinn, fyrst hann er að tala um það hér á Íslandi, því það nær ekki nokkurri átt. Hér eru þeir mentuðu ekki fremur öreigar en þeir ómentuðu, en það er ekki von að þm. Viti neitt um áatandið hér á landi, þar sem hann kemur aldrei hingað nema til þess að gegna þessu mikilvæga starfi fyrir hönd Seyðfirðinga. Ef þess konar öreigar eru til, þá veit eg ekki, hvar þeir eru, nema þá að háttv. þm. hafi fundið þá á Seyðisfirði. Þm. var að tala um, að þessir menn gætu komið á stað óheillavænlegum byltingum. (Valtýr Guðmundsson: Stakk það þingmanninn?) Nei, eg hygg ekki að þm. sé kominn svo hátt í flugnaröðina, að hann sé orðinn að býflugu, svo að hann geti stungið. En það er leitt að sjá gamlan öreiga vera að setja upp á sig þennan auðmannaavip og klappa sér á vömbina. Það stakk mig ekki að neinu leyti. Eg hefi engum byltingum valdið, en hefi heyrt um byltingar í öðrum löndum, sem ekki þarf þennan lærða þm. úr öðru landi til þess að romsa upp eins og páfagaukur. En þessi þm. er sá eini hér í deildinni, sem að eins hefir mælt fram með sinni tillögu og lagt á móti öllum öðrum. Hann hefir hér verið að segja sögur um Kjarval, til þess að spilla fyrir hana máli. Og eg held að við höfum eina mikið vit á málverkum og þeir menn, sem þm. er altaf að tönnlast á. Og þegar um styrk til einhvers er að ræða, þá á ekki að spyrja að, hve langt hann sé kominn í sinni ment, heldur hve efnilegur hann sé.

Eg segi þetta ekki af því, að eg sé að mæla á móti styrk til þessarar konu, sem þingmaðurinn ber fyrir brjósti. Eg skyldi síztur manna mæla á móti konum. Og komi fram mótmæli gegn styrknum til þessarar konu. þá koma þau frá sjálfum þingmanninum með því að mæla á móti styrk til Kjarvals. (Valtýr Guðmundsson: Eg hefi alls ekki mælt á móti styrk til Kjarvals). Nei, ekki það? Alt af er þingm. jafnfróður, eins og eðlilegt er, sem alið hefir aldur sinn í Kaupmannahöfn! Það hefir kannske ekki átt að vera mótmæli, en það getur orðið það. En haldi þingm. að hann sé að halda fyrirlestur til að fræða okkur aumingja smælingjana, þá má hann geyma sína vizku þangað til hann verður beðinn um hana. Og fer hann þá líklega að biða með hana þangað til hann kemur til Hafnar aftur.

Eg vildi segja örfá orð um orðabókina. Ef menn eru sannfærðir um það, að með þessum höfundi verði fengin trygning fyrir því, að orðabókin verði góð, þá er eg ekki á móti því að honum verði veittur þessi styrkur. En eg hygg það, að ekki neinn einn maður — hvorki Jón Ólafsson eða annar geti gert svona orðabók úr garði, svo að nokkru gagni verði. Eg ætla þó ekki að leggja neitt á móti þessu, ef þinginu þykir höf. tryggur, þá er fjárveitingin ekki of há. En því verður að mótmæla, að Boga Melsteð verði veittur þessi 800 kr. styrkur, sem farið er fram á. Eins og eg hefi áður sagt, eru þetta ekki annað en verðlaun, sem verið er að veita honum fyrir illa samda ritgerð, þar sem Bogi með fáránlegum rökum er að reyna að sanna, að Íslendingar geti ekki lifað nema í sambandi við Dani og á styrk frá þeim.

Niðurstaðan hjá honum er fyrir fram hugsuð, og svo er verið að reyna að verja hana og er því ritgerðin öll röng og bjöguð, svo andstyggilegt er að nokkrum manni skuli hafa getað dottið önnur eins vitleysa í hug og að fara að verðlauna slíka ritsmið, sem ekki er annað en rógburður um okkur Íslendinga. Mun í Danmörku vera mikill málrófsmaður, sem hægt væri að fá til að sjá um það, þótt ekki væri farið að verðlauna Íslendingi fyrir það.

Fjárlaganefndin hefir lagt til að fella niður 600 kr. styrkinn handa Guðmundi Finnbogasyni til þess að skrifa um heimspekileg efni, en svo í staðinn að hækka laun hans sem varðar við landabókasafnið um 500 kr., eða með öðrum orðum, að lækka styrk hana um 100 kr. Þetta er ekki réttlátt. því að eins getur hann unnið að sinu starfi, sínu ævistarfi, að hann geti gefið sig við því að einhverju leyti. Er því ekki rétt að kippa burtu þessum litla styrk, sem hann hefir til þess að vinna að heimspekisstörfum vilji einhver telja það óþarft af því að hér sé annar heimspekingur, þá er því til að svara, að heimspekin er ekki og verður ekki tæmd, þó að 2 menn hafi færi á að skrifa um þau efni. Eg skil ekki annað en háttv. fjárlaganefnd taki þetta aftur við nánari athugun. Þetta er svo fráleitt.

Eg hefi áður minst á það, að eg tel ekki rétt að lækka styrk við Helga Jónsson, en um það skal eg ekki fjölyrða, af því að hann er bróðir minn. En hér er nú síðan komin bók eftir hann á ensku, og er mest um þaragróður og þörunga á Íslandi. Það er að vísu verk Carlsbergssjóðsins, að eg ætla, að bókin er komin út, en ritlaun hefir höf. fengið lítil, nema svo sem fyrir prófarkalestur. Nú geta háttv. þm. skoðað bókina og athugað fyrst, hve lengi þeir eru að lesa hana og þar næst hve lengi muni vera verið að semja hana.

Eg tek undir með háttv. 2. þm. G.-K. (gr. D.) um styrkinn til Helga Pjeturss. Annaðhvort á hann enginn að vera, eða halda sér eins og hann er. Annað hvort er maðurinn veikur og getur ekki unnið, eða hann er ekki veikur lengur, og þá er því síður ástæða til að draga af honum, sem hann hefir verið svo óheppinn, að vera eitt ár frá verki. Hann er nú í rannsóknarferð eystra, og ef menn tortryggja árangurinn af því, þá verða þeir að biða og sjá, hvað hann skrifar, þegar þaðan kemur. Þá sést hvað hann getur. En það verður ekki fyr en á næsta fjárlagaþingi, og þess vegna á nefndin að taka þetta aftur og það ekki að koma til atkvæða.

Enn er hér ein einkennileg tillaga. Á síðasta fjárlagaþingi voru einum ungum manni veittar 600 kr. til þess að búa sig undir að rita um íslenzka bókmentasögu. Þetta hefir hann nú gert í 2 ár, ásamt fleiru, sem hann hefir orðið að vinna til þess að lifa. Nú er lagt til að taka þess að taka þessa peninga af honum. Þetta sýnir ið sama og víðar kemur fram, að þessar 600 kr. hafa átt að vera gjöf. því að ekki getur þingið ætlast til þess að hann haldi þá þessu verki áfram, þótt hann geri það nú raunar sjálfsagt,af því að hann er eljumaður og vel að sér í íslenzkum fræðum. En engin skylda til þess getur hvílt á honum lengur, ef þannig er að farið. Þetta er alt svo stefnulaust, að ekki tekur nokkru tali. Eg hefði ekki haft mörg orð um þetta, ef síðasta þing hefði neitað honum í upphafi. En hitt nær engri átt, að byrja að veita manninum þetta og kippa því svo burt án þess að nokkur geti sagt, að hann sé ekki starfinu vaxinn. Hitt er annað mál, þótt eg hafi áður lagt til að hætta að veita sagnfræðingi nokkrum svipaðan styrk sem lengi hafði haft hann. Það kom til af því, að þegar hann fór að gefa út ritsmíðar sínar, þá þótti mér ekki svara kostnaði að styrkja hann til þeirra, úr því að eftirtekjan varð ekki meiri né betri en þetta.

Nokkrir menn hafa sótt um styrk til þess að fullkomna sig í söng og hljóð færaslætti, og er eg þeim fylgjandi, því að hér á landi er lítið um þá listina, sem mest gleði fylgir, og er það synd, því að ekki veitir af því, ef unt væri, að auka á lífsgleðina hérna. Eg held að eg hafi áður minst á það, hvað Goethe segir um þá list.

Þá vil eg minnast á Einar Jónsson. Það er farið fram á það, að landið veiti sjálfu sér 4000 kr. til þess að taka á móti gjöf frá honum og flytja hana heim. Hann er illa staddur og getur ekki varðveitt listasmíðar sínar. Það er ekki rétt hjá háttv. 1, þm. G.-K. (B. Kr.), að hann geti geymt þær allar á þessum eina stað, heldur verður hann að kaupa þeim húsnæði víðar í bænum, og í þann kostnað ganga þessar 1200 kr., sem hann hefir haft héðan. Að vísu veit eg ekki, hvort það stenzt á endum upp á eyri, en nær mun það láta. Hann er maður einkennilegur, og sumar af smiðum hans eru ekki við allra skap, af því að hann er ekki sléttur og voðfeldur í list sinni, sem margir aðrir. Nú er nauðsyn að geyma handaverk hans, og ekki getur landið, fengið það ódýrara, en gefins. En verði þessi tillaga feld nú, þá skil eg ekki að nokkur maður verði til þess að fella fjárveitinguna, sem stjórnin hefir ætlað honum, 1200 kr. á ári, þangað til þetta nær fram að ganga.

Eg þyrfti að minnast á margt, en vera má, að háttv. þm, leiðist það og árangarinn verði ekki svo sem ætlað var. Raunar hefi eg tekist á hendur að sannfæra þá um það, að bitlingarnir, sem kallaðir eru, séu ef til vill einhverjar beztu og viturlegust fjárveitingarnar. Og eg ætla, þó að enginn vilji sjá mig né heyra nú, að koma seinna, þegar þeir eru komnir til sannleikans viðurkenningar, og sækja þá um bitling til þingsins fyrir það, hve góður kennari eg hefi verið nú. Eg ætla að halda fyrata prófið núna við atkvæðagr., og eg vona, að sem flestir hv. þm. standist það.

Áður en eg þagna, ætla eg að nefna eitt enn. Það var það, að í gær fékk einn síma-starfsmaður laun sín hækkuð, og voru þau þó allgóð áður. Eg get þessa af því, að það ber vott um einhverja sérstaka stefnu gagnvart þessari stétt, einhverja sérstaka virðingu fyrir henni, sem útheimtir þó hvorki langan né dýran lærdóm né frábært hugvit. Það þykir sjálfsagt. að bæta kjör manna, sem stunda þessa atvinnugrein, en aftur á móti stendur hnífurinn í kúnni, ef eitthvað skal leggja af mörkum til annars, sem ekki er einu sinni atvinnugrein, en þó þúsund sinnum vandameira, sem enginn getur, nema afburðamenn. Eg bendi á þetta til þess að það sjáist, hvaða samkvæmni verður í atkvæðagreiðslu þeirra manna í dag, sem greiddu hinu atkvæði í gær.