08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (103)

20. mál, verkfræðingur landsins

Ráherrann (H. H.):

Verkfræðingur landsins hefir sent erindi til stjórnarráðsins, sem prentað er aftan við frumv., þar sem hann fer þess á leit, að staða hans verði gerð að sérstöku konunglegu embætti, jafnframt því sem laun hans verði hækkuð.

Síðan landsverkfræðingsstaðan var stofnuð, hafa störf, þau er verkfræðingnum hafa verið falin, stórum aukist og staðan orðið meira áríðandi.

Núverandi landsverkfræðingur hefir innleitt ýmsar endurbætur, sem að miklu gagni hafa orðið og munu verða í framtíðinni. Þannig hefir hann komið því á, að brýr eru bygðar úr sementsteypu, sem ekkert viðhald þurfa, og sömuleiðis að járnbrýr eru smíðaðar í landinu sjálfu. Hefir það orðið miklum mun ódýrara en áður, þegar þær Voru keyptar tilbúnar frá útlöndum. Eins og kunnugt er, hefir hann gert yfirlit eða áætlun yfir óunnar vegagerðir á landinu, þær er framkvæma þarf, og er tillögum stjórnarinnar í fjárlagafrumvörpum hagað eftir því “plani„. Auk þess hefir hann aðstoðað landstjórnina og verið ráðunautur hennar um ýmsar verklegar framkvæmdir. Eg verð að álíta það alveg nauðsynlegt, að svo sé um hnútana búið, að ekki sé hætta á að menn missi af jafnfærum manni fyrir það eitt, hve illa starf hans er borgað. Núverandi landsverkfræðingur hefir að vísu ekki sagt beinum orðum, að hann mundi segja af sér stöðunni, ef staða hans yrði ekki gerð að föstu embætti með eftirlaunarétti, en mér er kunnugt um, að honum standa miklu betri kjör til boða annarstaðar. Og ef hans misti við, mundi verða örðugt að fá mann með jafnmikilli Verklegri þekkingu í hans stað, sízt þann er jafna þekkingu hefir á þessu landi. Það mundi taka nýjan verkfræðing mörg ár að kynnast landinu eins vel og núverandi verkfræðingur hefir gert.

Verkfræðingalaun fara alstaðar hækkandi svo að miklu munar. Starf landsverkfræðingsins virðist mér hljóta að metast til jafns við aðalpóstmeistarastarfið og aðalsímstjórastarfið.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) getur hér séð samanburðarskýrslu um laun verkfræðinga í Noregi. Það vantar auðvitað skýrslur frá ýmsum öðrum löndum, en þetta er þó til bragðbætis. Verkfræðingalaun í Noregi eru lægri en víðast annarstasar, svo það er hægast að taka það til samanburðar við okkur fátæklingana.

Eg veit ekki, hvort nokkur ástæða er til, að nefnd verði sett í þetta mál. Tillagan um upphæð launanna er þegar komin til launalaganefndarinnar.

Að endingu vil eg leyfa mér að mæla ið bezta, með því að frumvarpið nái fram að ganga.