19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í C-deild Alþingistíðinda. (1041)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Jónsson:

Eg á breyt.till. á þgskj. 395, sem fer fram á að veita ungmennasambandi Íslands dálitinn styrk. Í þessu sambandi eru nú 50 félög með um 2000 meðlimum. Þessi félög eru dreifð um alla fjórðunga landsins, þótt þau séu flest í sunnlendingafjórðungi. Félagarnir eru flestir á aldrinum frá 16 til 30 ára, karlar og konur. Á fundum ræðir það áhugamál sín, og 2–300 fyrirlestra lætur það halda til alþýðufræðslu. Það hefir mikið lagt stund á að iðka íþróttir og auka útbreiðslu þeirra í landinu. Það hefir víða komið á stofn sundlaugum og látið kenna sund. Það hefir komið upp íþróttamótum, sem að öllum líkindum auka áhugann enn meir á íþróttum í landinu. Glímukenslu hefir það haldið uppi og margt fleira ótalið hefir það gert fyrir íþróttirnar. Skógræktina hefir það líka tekið upp á sína arma. Það hefir unnið að skógrækt með því að friða og girða skóglendi og með því að rækta nýgræðinginn. Auk þessa heldur sambandið úti mánaðarriti og hefir kostað útgáfu skógræktarrits, sem miklar vinsældir er að vinna sér í þessu landi og virðist ætla að gera mikið gagn.

Þetta næsta ár ætlar það sér að gefa út rit um heimilisiðnað og taka það mái að sér á sama hátt og skóggræðsluna.

Af þessu má sjá, hver áhugamál félagsins eru. Þau eru: alþýðufræðsla, líkamsmentir, skógrækt og heimilisiðnaður.

Nú ætlar það sér að fara að færa út kvíarnar og því fer það fram á aukinn styrk úr landssjóði.

Þessi styrkur, sem farið er fram á að sambandinu verði veittur, er ná samt ekki nema lítill hluti þess sem meðlimir sambandsins ætla sér að leggja til. Þeir gera sem sé ráð fyrir að leggja fimm króna nefskatt á mann, svo það sem þeir leggja fram mundi nema 10 þús. kr. í peningum, auk þess sem þeir leggja fram af vinnu, sem er mikið.

Hækkunin sem farið er fram á, mundi, þótt lítil sé, létta mjög mikið undir með að auka framkvæmdir sambandsins.

Mér finst fullkomin nauðsyn að styrkja þennan félagsskap, því allir hljóta að kannast við, hve ákjósanlegt það sé, að æskulýðurinn snúi sér með áhuga að nytsemdarmálum þjóðarinnar í stað þess að hlaupa eftir fánýtum og jafn vel oft miður hollum skemtunum. Mér finst því að þingið ætti að styðja þessa hreyfingu og veita sambandinu ríflegan styrk.

Mér skildist á háttv. framsögum. fjárlaganefndarinnar, að þótt nefndin í heild sinni hefði ekki séð sér fært að sinna þessari beiðni, þá hefði samt meiri hluti hennar óbundnar hendur í atkvæðagreiðslu um þessa fjárveitingu. Eg vona að háttv. deild sjái, að hér er um nauðsynjamál að ræða og samþykki þessa breyt.till. mína.