19.08.1913
Neðri deild: 38. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í C-deild Alþingistíðinda. (1047)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Mér þykir vænt um að heyra, að sjávarútvegsnefndin hefir orðið fegin tillögum fjárlaganefndarinnar og hún hefir hugsað um málið, þótt hún hafi ekki tekið það til meðferðar, eða komið með tillögu um það, sem þó hefði átt betur við. Eg hefði kosið, að málið hefði verið undirbúið af henni, en sökum tímaleysis áttum við ekki kost á að ráðgast um þetta við hana.

En eg verð að halda fast við skilyrði okkar fyrir fjárveitingunni. Í fyrsta lagi af því, að við, sem fyrir kaupfélagssamböndunum stöndum, höfðum aldrei hugsað okkur annað en við legðum fram helminginn af kostnaðinum og þá auðvitað með fé, sem ekki væri fengið úr landssjóði, vegna þess, að hann hefir aldrei styrkt þessi sambönd sem slík. Raunar hefir Sláturfélag Suðurlands notið styrks úr landssjóði, en það var ekki styrkur til annars en stofnunarinnar. Sama er að segja um styrkinn til smjörbúanna, sem nú er að hverfa úr sögunni. Það var að eins styrkur til þess að geta framleitt, en ekki til að greiða fyrir sölu á afurðunum.

Hugsun okkar er sú, að koma á erindrekum, sem landsstjórnin síðar meir geti að öllu leyti tekið í þjónustu landsins. En það er mikil áhætta að leggja út í slíkt — á kostnað landsins að öllu leyti — áður en nokkur trygging er fengin fyrir því, að þeir menn, er til starfsins veljast, séu því vaxnir og áður en þeir hafa fengið alment traust manna. Nú er ætlast til þess, að stofnanirnar leggi fram helming af áhættunni, þangað til það er séð, að þessir menn komi að tilæluðum notum. Og það er vel til fallið. Þessir menn eiga ekki að hafa neitt óákveðið fyrir höndum, heldur er starfssvið þeirra alveg ákveðið, meðan þeir eru að kynna sér málin og æfa sig. Við höfum reynsluna fyrir því, hvernig það er að senda menn utan hluta úr ári, með alveg óbundnar hendur, og við þekkjum örðugleikana við það. Það kemur sjaldnast að tilætluðum notum. T. d. við saltkjötssöluna þurfum við að hafa mann að staðaldri erlendis, með fastri skrifstofu og föstum aðstoðarmönnum. En hann ætti líka að geta haft fleira með höndum, að minsta kosti með tímanum. Alt þetta á reynslan að sýna; við verðum að þukla okkur áfram og það er ekki nema sanngjarnt, að þeir menn, sem koma til að hafa aðalhagnaðinn af þessu, leggi eitthvað í áhættuna líka. Mér dettur í hug, mönnum þyki kannske nokkuð hátt að ætla þessum manni 8000 kr. — eg hafði nú stungið upp á 10,000 kr. En menn verða að gæta þess, að eigi góður maður að fást, þá verður hann að vera sæmilega launaður jafnvel þótt hann sé byrjandi. Sláturfélagið vil auðvitað engu kosta til, nema það geti sent sinn trúnaðarmann. Og hann hlýtur að verða nokkuð dýr. Hann þarf meðal annars að hafa talsvert í ferðalag, því að hann verður að fara bæði um Norðurlönd og Þýzkaland og líka heim til Íslands við og við, til að fylgjast með í því, hvernig þar stendur á og hafa tal af mönnum. Hann má heldur ekki hafa neina aðra atvinnu, sem kemur í bága við starf hans. Hagsmunir hans sjálfs mega ekki geta orðið þess valdandi að hann halli málum.

Annars er óþafi að tala mikið meira um þetta. Það hefir ekki sætt neinum mótmælum. Og háttv. þm. Ak. (M. Kr.) er mér alveg sammála í aðalatriðunum. Að eins hefir hann þá trú, að einn maður mundi ekki nægja. En það var heldur ekki annað en það, sem eg skaut fram, að ef til vill mundi einn maður nægja í bráð. En það er svo langt frá, að eg muni greiða atkvæði á móti því, að tveir menn verði sendir — enda hefir og fjárlaganefndin gert það að tillögu sinni.