20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í C-deild Alþingistíðinda. (1050)

108. mál, strandferðir

Valtýr Guðmundsson:

Þetta frv. mætti svo góðum undirtektum síðast hér í deildinni, að það fékk öll atkvæði til 2. umr. og engin br.till. var við það gerð. Þetta er merki þess, að háttv. deild hefir geðjast vel að því, enda fylgja samgöngumálanefndir beggja deilda því fram.

Markmiðið er að koma skipaferðunum á innlendar hendur, og eins og sjá má á frumv., hefir nefndin hugsað sér til þess tvær leiðir. Fyrri leiðin, sem ætlast er til að reynd verði, er sú, að einstaklingar — það er að segja félag taki að sér strandferðirnar. Það er sem sé skoðun margra, að það fyrirkomulag muni borga sig betur. En ef þetta tekst ekki, þá álitur nefndin að það sé ekki hættulegt, að landið taki þær sjálft að Sér, þótt búast mætti við að arðsvonin kynni að vera heldur minni með því fyrirkomulagi.

Eg vona, að háttv. þingm. hafi tekið eftir því, að í nefndarálitinu eru tvær áætlanir, önnur sem nefndin hefir gert, en hin eftir hr. Tulinius. Ef borinn er saman mánaðarkostnaðurinn Við útgerðina í þeim áætlunum, þá sést, að nefndin hefir áætlað hann miklu ríflegri, sem sé 9413,33 kr., en Tulinius, sem reiknar hann ekki nema 5730 kr. Munurinn er nær því 3,700 kr., og á 61/2 mánuði verður hann um 24000 kr. Svo varlega vildi nefndin fara til þess að vera viss um, að áætlunin verði ábyggileg og kostnaðurinn fari ekki fram úr henni. En þrátt fyrir þetta er þó niðurstaðan sú, að með líkum tekjum og að undanförnu, ætti samt að verða tekjuafgangur, samkv. áætlun nefndarinnar, 37,600 kr. á ári. Fyrningargjald er áætlað mjög ríflega, 10%, en vanalegt er að áætla það 5%, og í bréfi Hendriksens, sem mun þó heldur fara lengra en skemra í því efni, er það jafnvel ekki talið nema 5–6 %. Nefndin miðaði þar við það sem tíðkast um fiskikip og þar er síður að miða við 10 ár, en um verzlunarskip aftur á móti við 20 ár, en þá verður gjaldið helmingi minna.

Eg sé ekki ástæðu til að segja fleira, meðan engin mótmæli koma fram, heldur læt mér nægja, að vísa til nefndarálitsins.