20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í C-deild Alþingistíðinda. (1051)

108. mál, strandferðir

Ólafur Briem:

Eg skal viðurkenna það, að háttv. nefnd hefir hér haft mikið og vandasamt starf með höndum. Annað mál er það, hvort henni hefir tekist að leysa fyllilega úr þeim vanda, og eg verð að segja það, að eg er hikandi í því, að samþykkja sumar af till. hennar

Eg er fullkomlega samdóma henni um aðalmarkmiðið, að koma strandferðunum á innlendar hendur, svo fljótt sem auðið er. En um aðferðina til þess er öðru máli að gegna. Eg skal nú fyrst minnast á bending hæstv. ráðh., áhrærandi strandferðirnar, sem var Sú, að millilandaskipin kæmu við á öllum helztu viðkomustöðum kringum land, og svo yrðu flóabátarnir hafðir til Þess, að sigla þaðan á smærri hafnirnar. Þá skilst mér svo, að sérstök atrandferðaskip mættu falla burt. Með því væri fyrirbygt það stórhneyksli, að tvö skip, sem bæði njóta fjárstyrka úr landssjóði, séu keppinautar, þannig, að þau elti hvort annað á röndum kringum landið og fari frá sömu stöðum á sama tíma. Eg skal nú ekki dæma um það, hvort þetta fyrirkomulag kann ekki að öðru leyti að hafa einhverja agnúa. En hina sakna eg, að ekkert skuli standa um þetta í nefndarálitinu.

Það var rétt hjá háttv. framsögum., að í nefndarálitinu eru tvær áætlanir, önnur frá háttv. nefnd, en hin frá hr. Tuliniusi. En þó að in síðarnefnda sé að nokkru leyti áætlun, þá er þar svo ógreinilega ruglað saman skýrslu og áætlun, að það verður alt saman lítt ábyggilegt að minni hyggju. Hv. nefnd vitnar þó í þetta, og má sjá, að hún hefir bygt afar-mikið á þessu, sem hún kallar »greinilegar upplýsingar«. Eg er nú ekki á því, að kalla það því nafni, því að þar er jafnvel áætlun um það sem liðið er (1912) og sem svo er bygt á fyrir ókominn tíma. Áætlun á eftir eðli sínu að snerta framtíðina, en ekki það sem reynslan er búin að sýna, og þykir mér þetta því all-undarlegt.

Eins og eg sagði áðan, er eg samþykkur markmiði frumvarpsins, og þess vegna er eg meðmæltur 1. gr. þess, um að kaupa hluti í Eimskipafélagi Íslands. Það er beinasti vegurinn til þess að koma strandferðunum á innlendar hendur, sem hingað til hefir ekki getað orðið, af því að ekkert innlent eimskipafélag var til. Nú ætti að vera opinn vegur til þess. En þar sem háttv. framsögum. sagði, að það, að engin br.tilll. væri fram komin, benti á, að einstakir þingmenn myndu samþykkja frumvarpið, eina og nefndin hefir frá því gengið, þá er það ekki þar með sagt. Eg mun samþykkja 1. gr., en ekki 3 inar næstu, um landssjóðsútgerðina. Það er gömul reynsla fyrir því, og alment viðurkend, að margt, sem stjórn lætur gera, vill verða dýrara, en það sem einstakir menn gera, sem eiga eigin hagsmuna að gæta. Og þótt eg hafi mikla trú á því, að rekstur fyrirtækja á landssjóðs reikning gæti borið sig undir vissum kringumstæðum og verið æskilegur, þá lízt mér ekki á hana eftir þessu frv.

Æskilegur gæti þannig lagaður rekstur fyrirtækja verið, einkum vegna þess, að þá væri hægt að koma á föstu skipulagi í stað reglulausrar samkepni.

Eg veit, að frjáls samkepni þykir hljómfagurt orð, en hvort það er jafnhaldgott og fast skipulag, þegar bæði er litið til reynslunnar og þess, sem búast má við í framtíðinni, — það er annað. Frjáls samkepni getur orðið að því, þegar jafnir eigast við, að sá sem er meiri máttar, geri sér allmikinn skaða til þess að geta eyðilagt hinn og náð sér niðri með stórhagnaði eftir á. Skilyrðið, sem oftast er nauðsynlegt fyrir öllum landssjóðsrekstri á fyrirtækjum, er, að hann hafi einkarétt, Svo að hann þurfi ekki að taka þátt í inni svo kölluðu frjálsu samkepni, sem svo oft tekur meiri og minni gönuskeið. Og þegar verið er að vitna í það, hve vel t. d. póstferðir og símar beri sig, þá verða menn að muna það, að þar hefir landið einmitt einkarétt. Og það væri því óeðlilegra, að landið færi að taka ríkan þátt í samkepninni um strandferðirnar, sem það stendur þar illa að vígi, sérstaklega — eins og bent var á við 1. umr. — af því, að það ræður ekki yfir millilandaferðunum, en að þær séu í sömu höndum og strandferðirnar, væri mikill hagnaður fyrir alla. Fyrir það félag, sem hefði hvorttveggja, væri það sá beini hagur, að þá væri ætíð fenginn viss flutningur handa strandferðaskipunum, með þeim flutningi. sem millilandaskipin færðu þeim. En gagnvart landsmönnum kæmi hagnaðurinn fram í því, að ekki yrðu aukin flutningsgjöld fyrir vörur til neinna staða á landinu með strandferðaskipunum, heldur yrðu þau jöfn fyrir alla.

Mig minnir að háttv. framsm. (P.J.) segði það við 1. umr., að honum þætti það ekki nema eðlilegt, að þeir staðir, sem vel er í sveit komið, nytu þess, en útkjálkarnir yrðu að sætta sig við lakari kjör. Eg skoða nú þessa landssjóðsútgerð eins og nokkurs konar samvinnufélagsskap. En það er grundvöllur alls Samvinnufélagsskapar, að allir meðlimir hans skuli hafa sömu kjör, þótt þeir eigi ólíka aðstöðu. Og það getur líka vel átt sér stað án þess að skaða þá, sem betri aðstöðu eiga. Dæmi þess er það, að ef ætti að senda vörur héðan í aðra fjórðunga með hækkuðu flutningagjaldi, þá mætti vel vera, að menn vildu losast við það, með því að fá þær með með öðrum skipum og þau eru til. Þá hefðu strandferðaskipin ekki einu sinni þetta lægra flutningsgjald, og ef þau hafa of lítinn flutning, þá væri skaði að þessari hækkun fyrir báða hlutaðeigendur.

Það sýnist reyndar svo á bréfinu frá bráðabirgðastjórn Eimskipafélagsins, sem þar ríki nokkur tregða á því, að félagið taki að sér strandferðirnar, þótt þar séu höfð góð orð. En eg skil ekki í því, að á því geti staðið, ef landið leggur til svo mikið stofnfé, að félagið þurfi ekki sérstaklega að leggja á sig neinar byrðar vegna strandferðanna, og í öðru lagi tekur að sér áhættuna, þannig, að félagið ábyrgist að eins að gefa rétta reikninga. Þá ætti þetta að vera aðgengilegt fyrir félagið, því að allar líkur eru til þess, að strandferðirnar borgi sig betur í höndum félagsins en stjórnarinnar.

Í fyrsta lagi af því, að félagið hefir sjálfsagt nokkrar millilandaferðir. Og þótt bráðabirgðastjórnin segi, að ekki sé gerlegt að halda úti 2 strandferðaskipum, en ekki nema einu millilandaskipi, þá ætti ekkert að draga úr afli félagsins til millilandaferða, ef landssjóður leggur nóg fé til strandferðaskipanna.

Í öðru lagi er miklu meiri trygging fyrir því, að þekking og framkvæmd verði í lagi hjá félaginu, en stjórninni.

Þetta er ekki sagt af neinni tortrygni til hennar, heldur af því, að hún stendur þar vitanlega miklu ver að vigi, að eiga að bera ábyrgð á því, sem hana vantar þekkingu til að annast.

Eftir því sem mér skilst á áliti samgöngumálanefndarinnar, þá er þetta fyrirkomulag að eins hugsað til bráðabirgða. En það er einmitt sem bráðabirgðafyrirkomulagi, að eg er aðallega á móti því. Ef hugmyndin er sú, að landssjóður taki sjálfur að sér útgerðina, taki að sér áhættuna og tapið, sem hlýtur að verða töluvert í byrjuninni, í þeirri von, að hann mundi vinna það upp aftur er lengra léti, þá væri það fyrir sig. En ef hann á að sleppa því aftur, þegar þeir menn er með útgerðina hafa haft að sýsla, eru orðnir hygnir af skaðanum og kunna betur með alt að fara, þá er það óumflýjanlegt að landssjóður biði mikinn skaða. Þetta er það sem eg hefi aðallega á móti frumv. Jafnvel þó að eg telji æskilegt að koma fyrat þeirri hugsjón í framkvæmd, að koma skipaferðum kringum landið á innlendar hendur, þá tel eg hyggilegra að bíða við og hafa einfaldara bráðabirgðafyrirkomulag í því trausti, að Eimskipafélag Íslanda geti tekið alt að sér innan skams.