20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í C-deild Alþingistíðinda. (1057)

108. mál, strandferðir

Ráðherrann (H. H.):

Eg stend aðallega upp til að minnast á það sem sagt hefir verið um þessa 6 flóabáta, er mér eru eignaðar tillögur um. Vildi eg skýra frá því, að eg hefi ekki komið með neina sérstaka uppástungu um þetta efni. Það sem eg hefi látið í ljós, stendur í sambandi við tilboð frá Bergenska félaginu. Hugsaði eg að það mætti nota með því móti að setja ferðirnar í samband við báta, sem flyttu vörur inn á hverja vík, annað hvort fleiri eða færri. En þetta er að eina varatillaga og getur því ekki talist mitt »prógram«. Í sambandi við þetta get eg tekið fram sem mína skoðun, að strandferðirnar muni: aldrei borga sig, ef höfð eru til þeirra stór skip, Sem fari inn á hvern vog, án tillits til þess hvort nokkuð er þar að gera eða ekkert. Norðmenn eru að hverfa frá því, að láta strandferðaskipin ganga inn á smáhafnir. Álít eg að það ætti að breyta svo til, að strandferðaskipin kæmu ekki á smáhafnirnar eða þá að minsta kosti ekki nema að þau hefðu. þangað eitthvert erindi, þegar annað hvort um fólksflutning eða vöruflutning væri að ræða, Þetta er það atriði, sem eg get kallað mína tillögu í málinu. Bergenska tilboðið og það sem etendur í sambandi við það, er til vara, ef það bregzt, sem aðallega er til ætlast, og var það skoðun mín, að það gæti aldrei skaðað, að hafa vaðið fyrir neðan sig og fleiri leiðir að vísa á, ef á þarf að halda.

Eg lýsti yfir því við 1. umr., að eg er sammála nefndinni um, að siglingarnar eigi að verða innlendar svo fljótt sem unt er, ekki einungis strandferðirnar, heldur og millilandaferðirnar. En eg get ekki álitið að við séum miklu nær í því, þótt þetta frv. nefndarinnar verði samþykt. Í fyrstu grein er landstjórninni að vísu veitt heimild til að kaupa hluti í Eimskipafélagi Íslands, en eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) tók fram, er ekki mikið í það varið meðan félagið er ekki til og engin vissa fengin um að það verði til, þar eð enn vantar yfir 100.000 kr. til þess að það geti orð ið stofnsett.

Hitt atriðið, að grípa megi til landssjóðaútgerðar, er ekki nýtt í frumvarpinu. Árið 1895 voru samþykt lög um að landssjóður mætti kaupa eða leigja gufuskip og halda því úti. Árið 1897 var samþykt að fresta framkvæmd þeirra um stundarsakir, og árið 1903 var framkvæmdinni loks frestað um óákveðinn tíma. Þessi lög eru aldrei feld úr gildi. Hvenær sem landstjórnin vill, getur hún keypt skip eftir þessum lögum; auðvitað þarf hún að sækja um féð til þingsins, en annað heldur ekki. En hvers vegna hefir þessi heimild ekki verið notuð siðan 1895? Ekki af því, að menn hafi ekki verið sömu skoðunar og nú um siglingarnar. Það hefir ávalt verið brennandi áhugi á því í landinu að siglíngarnar yrðu innlendar. En ástæðan er sú, að menn hafa verið sannfærðir um að áhættan væri of mikil, búist við svo miklum fjárhagslegum skelli, að landssjóði væri ekki fært að bera hann.

Nú vill nefndin gefa í skyn, að það sé ástæðulaus hræðsla, að landssjóður muni tapa á þessu fyrirtæki, það muni jafnvel vera stór gróðavegur. Um þær röksemdir skal eg ekkert segja annað en það, að eg er persónulega sannfærður um að þær ná engri átt. Upplýsingar, þær sem nefndin hefir fengið, eru ekki réttar. Kostnaðurinn er meiri en hún gerir ráð fyrir. Auk þess má búast við því að tekjurnar yrðu minni í byrjun en nefndin ætlast til, því landssjóður gæti orðið fyrir samkepni af hálfu þeirra félaga, sem hingað til hafa haft siglingarnar á hendi og ef til vill vildu ekki hætta strax. Þó að þetta frv. verði samþykt, get eg ímyndað mér að svo kunni að fara, að menn álíti réttast að fresta framkvæmd þess eins og fyrri daginn. Það er langt frá að eg sé á móti frv., eg get samþykt allar greinarnar, en eg álít það ekki eins mikilsvert nýmæli og hv. framsögum. Það bætir að vísu ef til vill dálítið úr skák, að eftir því sem hann sagði, á að veita stjórninni aðstoð við undirbúning málsins. En sú aðstoð verður þá að vera góð og betri en eg í augnablikinu get hugaað mér að fáanleg sé.