20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í C-deild Alþingistíðinda. (1067)

108. mál, strandferðir

Björn Kristjánsson:

Það er að eins dálítil athugasemd viðvíkjandi bréfi Þórarins- Tuliniusar, sem oft hefir verið minst á í umræðunum í dag. Það hefir verið véfengt, að hann hafi getað vitað nokkuð með vissu um rekstur strandferðanna 1912.

Orsökin til þess, að þetta bréf er komið fram, er sú, að þegar eg var staddur í Kaupmannahöfn í vor, þá laugaði mig til að grenslast eftir, hvaða reynsla væri fengin um rekstúr strandferðanna og hvernig þær hefðu borið sig yfirleitt. Það hefir nefnilega altaf klingt í eyrum okkar, að félagið hafi stórtapað á þessum lið. Alt þetta hjal þótti mér Í ósennilegt og vildi vita vissu mína í því í efni. Eg fór því á fund Tuliniusar og bað hann að gefa mér yfirlit yfir, hvað ferðirnar hefðu kostað og hvaða tekjur hefðu verið af þeim, þegar hann hafði þær með höndum. Og eg vissi, að þar fór eg til manns, sem enga ástæðu hafði til og engan hag hafði af, að segja öðruvís frá en satt var. Hann var orðinn laus allra mála við skipagöngurnar hér og því treysti eg honum manna bezt, bæði til að vita um þetta mál og líka til að segja rétt frá. Hann gaf mér, »prívat«, skýrslu um þetta, svo að ég gæti vitað, hvernig svona fyrirtæki gæti borið sig. Helztu »punktunum« úr þessari skýrslu hans skýrði eg háttv. nefnd frá á fundum hennar. Eg gat ekki fundið, að hún rengdi einn staf, sem þar stóð, en vegna þess, að mér datt það í hug, að ekki væri ósennilegt, að einhverjum mótmælum yrði hreyft, þegar til sjálfrar deildarinnar kæmi. þá símaði eg til hr. Tuliniusar, sem þá var Staddur á Akureyri, og spurði hann, hvort eg mætti ekki birta skýrslu, þá er hann hafði gefið mér. Hann kvaðst fús á að gefa það leyfi, vegna þess, að hvert orð, sem í skýrslunni stæði, væri rétt og skyldi hann mæta því hvar sem vera skyldi.

Það er dálítill skoðanamunur hjá hv. framsögum. og mér um þessar 400.000 kr. Hann sagði, að 100.000 kr. af þeim ætti að verja til millilandaferða, en 300.000 kr. til strandferða. Það er mikið rétt, að um þetta var talað á seinasta nefndarfundi. En háttv. nefnd gáir ekki að því, að til þess að félagið verði stofnað, þarf að hafa. fyrirfram það fé, sem áætlað er til þess að það geti farið millilandaferðir, en hvort það tekur að sér strandferðirnar, kemur auðvitað ekki til greina fyr en félagið er stofnað. Eg skal ekki segja um það lögfræðislega, hvort hægt er að stofna félagið, en til þess að hafa alt á því hreina, þyrfti beinlínis að taka það fram, að 100.000 kr. mætti verja til að kaupa fyrir hluti í Eimskipafélaginu til millilandaferða, hvort sem það tæki að sér strandferðirnar eða ekki.

Hann sagði, að verið væri að styrkja félagið. Já, það er rétt, en styrkurinn er bundinn slíkum skilyrðum, að vafasamt er, hvort félagið getur óhikað tekið á móti honum. Og þegar félagið mætir þessum slagbröndum frá þinginu, sem hindra að málið komist eins vel fram, þá kemur hik á menn, sem vonlegt er, og það gefur keppinautunum byr í seglin til þess að leggja í Samkepni við félagið þegar í byrjun, sem þeir mundu ekki þora, ef þingið tæki málið einhuga að sér. Það hefir ekki litla þýðingu, að sýna fullan vilja og festu í slíkum málum sem þessu.