20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í C-deild Alþingistíðinda. (1075)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Pétur Jónsson:

Eg vildi taka það fram, að þó að br.till. á þgskj. 211 sé heldur til bóta, þá er eg samt ekki fremur með málinu en áður, og ekki frekar en aðrir þingmenn, sem töluðu um málið við 1. umr.

Eg benti á það við flutningamann frumv., að það er næsta undarlegt, að 1 frumv. er ekkert ráð fyrir því gert, hvort þetta fé, sem farið er fram á að landssjóður leggi bankanum til, eigi að teljast sem eign bankans eða landssjóðs. Í greininni stendur, að landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þús. kr. á ári í 20 ár. Hvort er það lán eða gjöf? Það stendur ekkert um það. Það mætti þó ekki minna vera en að þetta stæði skýrt í frumv., og ef landssjóður á að eiga þetta fé inni í bankanum, þá einnig með hverjum skilmálum.

En það, að landssjóður fari að leggja bankanum til 100 þús. kr. á ári til þess að auka og efla veltufé bankans væri engin fjarstæða, ef landssjóður væri svo efnaður að hann gæti það. Þetta eru líka hreinustu óyndisúrræði fyrir bankann, og er ótrúlegt, að ekki megi finna betra ráð en þetta honum til viðreisnar. Þetta er beinlínis til þess að veikja traust bankans, þegar það fréttist, að hann sé svo ósjálfbjarga, að hann þurfi stórt meðlag úr landasjóði.

Það er ætlast til, að þetta sé til þess, að fullnægja betur lánsþörf landsmanna, og mörgum orðum farið um það, hve illa menn verði staddir ef Landsbankinn fái eigi þennan stuðning. En þetta er misskilningur. Lánsþörf landsmanna í heild sinni verður ekki betur fullnægt. Landssjóður hefir að undanförnu lánað fé til inna þörfustu fyrirtækja í landinu, samkvæmt heimild á fjárlögum. Ef landssjóður á nú að borga þetta í bankann árlega, nemur það fullkomlega því, sem hann hingað til hefir haft til útlána. Þau lán verða að hætta, og er því þeirri lánsþörf landsmanna fyrirmunað. Landsbankinn fullnægir henni máske í staðinn að einhverju leyti, en nokkuð mun þó ganga til víxillána af þessu fé. Nei, Landsbankinn verður að finna einhver betri ráð en þetta til að hjálpa sér. Og held eg því að það væri eins gott að draga að gera þetta til næsta þings og vita hvort að bankastjóri eða bankastjórn hefir ekki fundið nein betri ráð. Eg er ekki bankafróður maður og get því ekki bent á ráðin, eða á úrlausn þessa máls. En eg vil að eins segja, að þetta, sem nefndin hefir borið fram, er ekki neinn vegur, og þetta er á móti grundvallarreglum allra banka, þeirri reglu, að standa á sinum eigin fótum.

Landssjóður styður Landsbankann eins og vera ber með seðlaláninu eða ábyrgðinni og það sér að meinalausu. Sama er og með ábyrgðinni á bankaskuldabréfunum. Þetta hefir landssjóður getað gert sér að meinalausu, og slíkur stuðningur er sjálfsagður á meðan hann ekki rýrir lánstraust landssjóðs út á við. Í stuttu máli: allur óbeinn stuðningur af landssjóðs hálfu við Landsbankann er sjálfsagður.