20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í C-deild Alþingistíðinda. (1076)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Bjarni Jónsson:

Eg er ekki maður bankafróður og ætla mér því ekki að fara að halda fyrirlestur um bankafræði, því það ætla eg þeim lærðu. Þeim lærðu ber reyndar ekki saman, en allir eru á sama máli um eitt, og það er það, að menn vantar hér fé til þess að geta ráðist í arðvænleg fyrirtæki og haldið þeim áfram. Þessir menn þurfa því að taka lán. En þegar Landsbankinn er eina stofnunin, sem þingið ræður yfir, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að bankinn sé gerður fær um að lána þessum mönnum. En til þess að bankinn geti það, þarf landssjóður að hjálpa honum til þess, því ekki geri eg mikið úr því, sem einn þingm. mintist á, að þingmennirnir fari að veita lán úr landssjóði. Eða væri það viðkunnanlegt, að við hérna færum að fara með víxla inni í þingsalnum ?

Þetta lán, sem farið er fram á að landssjóður láni bankanum, er ekki neinn styrkur til bankans, af því að hann sé svo illa staddur. Bankinn getur vel borgað lánið með því að takafé sitt úr veltu. En hér er að eins farið fram á að landið taki að sér þessa skuld, til þess að bankinn þurfi ekki að færa inn kvíarnar og hindra menn í að halda áfram fyrirtækjum, sem þeir eru byrjaðir á.

Eg tel það ekki hafa verið neitt um skör fram, þó að landssjóður veitti bankanum veltufé í seðlum, þó að bankinn hafi fengið víxil hjá landssjóði upp á svo og svo mörg hundruð þúsunda. Því það er ekki gjaldgeng vara. Eg hefi sjálfur gengið með íslenzkan seðil milli verzlana í nágrannalöndunum — að undanskilinni Danmörku — til þess að vita, hvort menn vildu taka hann. Nei, það þorði enginn. Er það kallað slíkt veltufé, — Hér er um það að ræða, að landssjóður hjálpi bankanum til þess að fá 2 milj. kr. í veltufé, og væri það ekki neitt mikið þó að landssjóður legði bankanum það til, og eftir því sem frv. er orðað, þá verða þessar 2 milí. undir eina og búið er að samþykkja frumv. — orðnar að eign, að veltufé bankans. Það er því alveg sama sem að landssjóður taki að sér þetta lán, og mundi það auka mjög lánstraust bankans. Eg held, að ekki sé of mikið gert úr þeirri nauðsyn, að útlendir bankar sjái, að Landsbankinn hafi eitthvað veltufé. Það væri magur hagur fyrir bankann að hafa ekki annað en sparisjóð. Og þótt bankinn sé ekki neitt á hausnum, þá verður hann að hafa svo mikið fé, að hann geti borgað út sparisjóðsfé. Annars gæti það farið fyrir honum eins og Bikubeu, þegar Adolf Steen stóð fyrir henni Það var gerður slíkur aðsúgur að henni, að þó að hún væri sterkrík, þá varð hún að gefast upp, þegar hún í nokkra daga var búin að útborga fé í mörgum stöðum í Kaupmannahöfn. En þá bauðst Tietgen, sem hafði komið aðsúgnum af stað, til þess að hjálpa henni. Og þegar hægt er að fara svona með eins sterka stofnun og Bikuben var, hvernig væri þá ekki hægt að fara með Landsbankann? Það er miklum mun tryggara, að bankinn hafi í raun og veru þessar 2 milíónir kr. í veltunni, og er sjálfsagt að landið geri þetta, sem farið er fram á. Umkvartanir manna út af peningaeklunni eru á rökum bygðar, því menn, sem hafa mikið með höndum, verða að geta snúið sér við þegar bráðan ber að, eða að öðrum kosti að verða öreigar.

Hitt skiftir minnu um vöxtuna, og vil eg ekki deila um það við háttv. 1. þm. G.- K. (B. Kr.). Læt eg þá deila um það, hann og hæstv. ráðherra, sem báðir eru bankastjórar.

En hitt get eg skilið, að ef Landsbankanum á að vera gert það að skyldu, að borga landssjóði 41/2 af hndr., þá verður það ekki stórt svæði sem bankinn getur fært eig til á. Væri það ilt, ef að það yrði þess valdandi að bankinn gæti ekki ráðið vaxtahæð í landinu, svo sem landsstofnun ber. En með þessu móti yrði hann bundinn við borð, því að hann yrði að hafa sitt upp borið; þá gæti svo farið, að afleiðingin af vaxtagræðgi landsjóðs yrði nú, að erlendir hluthafar í hinum bankanum græddu því meira fé á landsmönnum.

Einn háttv. þm. hér í deildinni, þm. S.-Þing. (P. J.), gat ekki séð, að neitt betra væri að leggja Landabankanum til þetta fé, heldur en einhverjum öðrum stofnunum. Þá duttu mér í hug tillögur fjárlaganefndarinnar og þingm. um lán úr viðlagasjóði, þar sem farið er fram á að lán verði veitt, sem ávaxtist og afborgist á 28 árum með 6% á ári. Það er að segja, að afborgað er með 2%, en 4°% eru vextir af láninu. Ef nú vextir stæðu í 6% á ári í þessi ár, þá væri þetta sama, sem að landssjóður gæfi allan höfuðstólinn. Eru þetta ekki mennirnir, sem ekki vilja setja neina styrki í skáldin, heldur að eins hugsa um, að efla og styðja hag landssjóðs. Og þessir menn vilja láta landssjóð veita svona lán, eða réttara gjöf. Það má segja um þessa menn: Þeir reikna glögt og fimara heldur en fjandinn, en fá þó ekki nokkur úrslit rétt.

Eg gæti til gamans talið saman nokkur lán úr viðlagasjóði og reiknað út, hve mikið landið gefur þar burt á ári, og hvort það jafnast ekki á við það, sem nú er verið að telja mest eftir. Og hart er það, að sparnaðarmennirnir skuli ekki vita, hvort þeir eru að lána fé eða gefa. En svo vilja þeir endilega taka 41/2% af bankanum, sem er alt of hátt, svo sem eg sýndi fyr. Hitt mætti við una, að hann borgaði 31/2% — 4 %.

Þá er till. þeirra háttv. þm. Sfjk. (V. G.) og háttv. 1. þm. S.-MÚI. (J. Ól.) um, að landssjóður fái hluta af arðinum. Þykir mér hún aðgengilegust, þótt það sé raunar skrítið, ef landssjóður á að fara að verða meðeigandi að sjálfum sér, og vona eg, að allir skilji, hvað eg á við með þessu, þar sem hann á bankann. Og veltan væri ekkert of mikil, þótt hann fengi 200 þús. kr. á ári. Og venjulega hefir hann haft bolmagn til að gegna skyldum sínum gagnvart landinu. Hitt get eg vel skilið, að stjórnin segi sem svo: Hvernig á landið að fara að því, að kljúfa þetta? Það er alt annað mál, og út í það skal eg ekki fara að sinni, fyr en eg sé, hvernig lögunum reiðir af. Þó vona eg, að varla þurfi mikið að óttast í því efni, því að niðurstaðan hefir oftast orðið betri, en ráð var fyrir gert. Þó að fjárlögin sýni einhvern halla, þá verður vonandi ekki mikið úr því, því að hann hefir enn þá aldrei komið til skila þessi 1/2 eða 3/4 milíóna króna tekjuhalli. Hann er áætlaður, en ekki verulegur, og þess vegna mun stjórnin geta lagt bankanum þetta fé til, án þess að taka nokkur ný lán.