20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í C-deild Alþingistíðinda. (1078)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Hv. þingmaður Dal. taldi seðlana hafa þann galla, að þeir væru ekki gjaldgengir ytra. Eg er því nú ekki samdóma, að það sé neinn sérstakur galli á vorum seðlum, því að það er svo um hvert einasta land, að seðlar þess gilda ekki að lögum — eru ekki löggengir — í öðrum löndum. Hitt er annað mál, að t. d. brezkir seðlar eru teknir gildir mjög víða. En um smáþjóðir er ekki því að heilsa, og skozkir seðlar eru jafnvel ekki gjaldgengir í Englandi.

Þá vil eg minnast á nokkur orð, sem féllu hjá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Það, að bankinn fer fram á meira starfsfé, er mikill misskilningur að taka sem vott þess, að hann sé ósjálfbjarga. Hann getur borgað hverja skuld, sem hann er í, og þetta líka. En hann getur ekki tekið fé til þess undan nöglum starfsmanna sinna, eða upp úr gólfinu. Nei, hann verður að taka það þaðan, sem hann á það til, en það er frá skuldunautum sínum, landsmönnum sjálfum, og þetta ætti að vera nóg til þess, að sýna, hve holt það væri þeim, að geyma þetta frumv. til næsta þinga. Þá er eg hræddur um, að einhverjum sviði í S.-Þingeyjarsýslu, því að þaðan eru líka lán, sem kæmi sér illa að yrðu krafin skyndilega, en bankinn verður að segja lánum upp í tíma, til þess að geta staðið í skilum. Það verður að gæta þess, að hér eiga sýslur landsins í hlut, og kjósendur í hverjum hreppi á landinu. Bankinn getur bjargað sér, en að eins með því að draga inn til sin fé, sem hann á úti, og greiðendum kæmi væntanlega verr uppsagnir lána alment, heldur en jafnhár halli á fjárlögunum.

Þá sagði háttv. þm. Dal. að við gæfum úr viðlagasjóði. Það er nú ekki alveg rétt, þó að við t. d. lánum gegn 6% afgjaldi í 28 ár. Við eigum þó höfuðstólinn á eftir. Og svo er annað. Síðasta grein fjárlaganna hljóðar svo, að væntanlegur tekjuhalli skuli greiðast úr viðlagasjóði. Ef til þess kemur, þá þýðir það að þá verður þeim ekki veitt lán, sem heimild var til að veita það. Því að þetta er að eins heimild, en engin skylda. Það þarf ekki nema eina fjárhagstímabils virkilegan tekjuhalla til þess að þær »gjafir« — þessi lán með tiltölulega vægum kjörum — detti úr sögunni.