20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í C-deild Alþingistíðinda. (1079)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Pétur Jónsson:

Það er engin mótsögn, þótt eg segði að með þessu fyrirkomulagi yrði bankinn háður landssjóði. Hér er um alt annað og meira að ræða en 1907, þótt þá væri tekin ábyrgð á bankaskuldabréfunum. Það var alveg sama og þegar bankanum voru afhendir seðlarnir: landssjóður lánaði honum lánatraust sitt, og það var honum þó a. m. k. enginn skaði, og á svipaðan hátt getur hann máske stutt Landsbankann enn. Og hann getur ef til vill lagt fram eitthvert fé, en það er óvíst — og óheppilegt að skuldbinda landssjóð í því efni, því það veltur eins og að undanförnu á tekjuauka umfram áætlun. Og lánsþörfinni er engu fremur fullnægt eftir en áður, því að ef fé verður til, þá er það fé, sem ella yrði lánað landsmönnum á venjulegan hátt Þær lánveitingar eru engin venjuleg bankastörf. Mismunurinn er einkum sá, að landssjóður lánar ekki nema gegn öruggustu tryggingum, svo sem ábyrgð sýslu og sveitarfélaga, en bankinn gegn inum venjulegu. Sumt fer máske til sömu fyrirtækja, sem landssjóður lánaði til ella. En nokkuð gengi í víxillán, og þau verða ekki talin brýnni eða betri en hin.

En ekki er rétt að skilja orð mín svo, að bankinn þurfi ekki að hafa meira starfsfé, ef hann á að geta fullnægt lánsþörfinni. Þá hélt háttv. 1. þm. G.-K. að það hefði ekkert að þýða, að láta málið bíða næsta fjárlagaþings, það væri þvert á móti stórtjón. Ekki munar það nú nema 200 þús. kr., svo að ekki skil eg að bankinn þurfi að skera upp herör fyrir það. Ekki er það t. d. tekið mikið til greina, hvort hann skuldar Landmandsbankanum nokkur hundruð þúsund meira eða minna, eins og var í gamla daga, eða á þar inni upp undir 800 þús. kr. eins og var um síðustu áramót, eða ekki, og veltur þó á margfalt meiru þar.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. var eitthvað að tala um kjósendur mína, og sagði að þeim gæti sviðið. Eg er nú ekki vanur að bera þá mjög á vörunum. Eg hefi aldrei álitið mig þingmann kjósenda minna eingöngu, heldur miklu fremur alls landsis, svo að þetta var óþarfi.