20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í C-deild Alþingistíðinda. (1083)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Ráðherrann (H. H,):

Háttv. þm. Rvk. (L. H. B.) kvaðst ætla að greiða þessu frumv. atkvæði, í því trausti, að sæmilega velviljuð stjórn Landsbankanum mundi finna ráð til að útvega það fé sem þyrfti. Eg fer nærri um, að þetta muni eiga að vera aðdróttun til núverandi stjórnar, að hún beri illvilja til bankans. Eg veit vel, að þessi aðdróttun er ein af brellunum, sem notaðar hafa verið í seinni tíð úr vissri átt, til þess að reyna að ófrægja mig og vekja — mótspyrnu. En eg hræðist ekki slíkt, og mun eg ekki greiða atkvæði með frv. nema eg viti, hvar á að taka peninga í þau útgjöld, sem leiða af því ef frv. verður samþykt. Það er ekki hægt að standast þau útgjöld með tómri »velvild«. Til þess þarf líka máttinn.