20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í C-deild Alþingistíðinda. (1084)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Kristinn Daníelsson:

— Eg stend ekki upp til þess að bæta neinum bankafróðleik inn í umræðurnar. Enda vill nú svo vel til að engan bankafróðleik þarf til að sjá, að hér þarf úr að bæta. Við vitum allir, að það er almenn krafa þjóðarinnar, að einhver ráð verði fundin nú þegar, og eg álit að þingið mundi spilla mjög trausti. Sínu meðal landamanna, ef það skildi svo við þetta mál, að engar bætur væru fundnar á því. Það þarf ekki lengra að rekja en til 1907, menn muna, hvað þá gerðist. Þá stóð líkt á og nú, og þáverandi bankastjórn sneri sér til þingsins í fjárvandræðum bankans. Þingið tók það ráðið, sem kunnugt er orðið, af þeim tveimur, er voru fyrir hendi: að fá lán eða að gefa bankanum leyfi til að selja þessi bankavaxtabréf.

Það virðist liggja í augum uppi, að þegar ákveðið var að innleysa bréfin eftir 5 ár, þá hafa menn ekki hugsað sér, að bankinn ætti að draga inn þetta veltufé. Heldur hafa menn hugsað, að á þeim tíma mundu finnast einhver ráð, sem menn höfðu þá ekki á takteinum. Það er óhætt að fullyrða, að engum hefir dottið slíkt í hug, að bankinn ætti eftir 5 ár að draga inn 2 milliónir af veltufé sínu.

Menn hafa hlotið að sjá fram á, að allir atvinnuvegir mundu aukast, og þá hafa menn hlotið að kannast við, að bankinn mundi þurfa meira en ekki minna veltufé í framtíðinni. Eg sé sem sagt ekki fram á, að þingið geti skilið við þetta mál án þess, að finna einhver ráð til að leiða það til heppilegra lykta, jafnvel þó að gripa þyrfti til sömu ráðanna og gert var 1907, að taka beinlínis lán til styrktar Landsbankanum. Mér finst það koma nokkuð undarlega fyrir að heyra talað um, að þetta sé gjöf til Landsbankans. Það er eins og þetta fé hljóti að fara forgörðum. En menn verða að gæta að því, að því fé, sem bankanum er veitt, er ekki á glæ kastað. Það verður alt af til í Landsbankanum og gefur góða vexti. Háttv. þm. S.- Þing. (P. J.) sagði, að þessi vegur væri; alls enginn vegur. Eg skil ekki, hvernig hann fer að segja slíkt, þar sem með þessu er byrjað á að forða bankanum frá að þurfa að draga inn veltufé sitt. Eg sé ekki betur, en að sömu vandræðin verði á þessu, þó að málið verði látið bíða til næsta þings. Það hefir nú beðið síðan 1907, og þá var auðvitað hugsunin sú, að á þessum fresti yrði fundin einhver ráð til að bæta úr þessu. Með því að bíða alt af og bíða, er eg hræddur um, að biðin geti orðið nokkuð löng. Eg er hræddur um, að þolinmæði þjóðarinnar og traust hennar á þinginu verði spent í ofspennu, ef henni er nú engin úrlausn gerð að sjá, vilja sinn í þessu efni, hér finst málið svo mikilsvert, að eg vildi skjóta inn þessum fáu orðum, þar sem svo fáir hafa tekið til máls.