20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í C-deild Alþingistíðinda. (1092)

64. mál, friðun æðarfugla

Guðmundur Eggerz:

Eg ætla að leyfa mér að segja örfá orð í tilefni af því, sem háttv. síðasti ræðumaður sagði. Það kom mér svo fyrir, að þessi ræða, hans líktist mjög þeirri, sem 6. konungkjörinn hélt í Efri deild um daginn í þessu sama máli. Skal eg fyrst minnast á það, sem sagt hefir verið, að það sé hert á sektarákvæðunum. Þetta er ekki rétt, því sekt fyrir brot í 1. sinn er nú að eins 10 kr., var áður 11 kr. Sekt við að selja egg var áður 10 kr., en er nú að eins 5 kr. Ákvæðin eru því að engu leyti strangari, nema því, að byssan, sem fuglinn er drepinn með, skal gerð upptæk.

Háttv. þingm. sagði, að það væri reynsla á Norðurlandi, að betra væri að taka eggin frá fuglinum, en að láta þau vera kyr í hreiðrinu. Væri undarlegt, ef náttúran færi öðruvís með æðarfuglinn en allar aðrar skepnur á jörðunni. Eg held að háttv, þm. væri nær að tala um þau mál, sem hann þekkir eitthvað til. Hann var alt af að vitna til ýmissa manna fyrir norðan, en hefir auðsjáanlega aldrei í varp komið. Eg gæti líka vitnað til ýmissa góðra varpbænda á Breiðafirði, sem telja sjálfsagt, að ekki beri að taka eitt einasta egg. Það er mikil furða, að því skuli vera haldið fram hér í þingsalnum, að æðarfuglinn muni fjölga að því skapi sem færri ungar komast á fót. Háttv. þingm. staðhæfði, að ef ungarnir væru fáir, mundu þeir verða bústnari og þyldu betur brimsjói en ef margir væru í hreiðrinu. Eg fullvissa háttv. þingm. um, að þótt eggið væri að eins eitt í hreiðrinu, mundi unginn ekki koma fleygur úr því.

Þá sagði háttv. síðasti ræðumaður, að óhæfa væri, að ekkí mætti hirða dauðan æðarfugl fór hann að hjala um hallæri. Er undarlegt, að hér skuli alt af verið að klífa á hallæri, eins og menn mundu drepast úr hungri ef ekki væri leyft að hirða dauða æðarfugla. En ef þetta ákvæði, að dauða fugla megi ekkí hirða, væri tekið úr lögunum, væri miklu erfiðara að gæta þess að þeim væri fylgt.

Vil eg benda á, að, eins og háttv. framaögum. sagði, er hér ekki lítið í húfi þar sem um friðun æðarfuglsins er að ræða. Við vitum að dúnninn er í mjög háu verði, en hins vegar eiga varpeigendur við mikla örðugleika að stríða. Æðarfuglinn á óvin, sem heitir svartbakur, og annan varg. Ef háttv. þingm. þekkir hann ekki, skal eg segja honum, að það er stór fugl, svartur á bakinu og hvítur á bringunni. Hann drepur æðarungana unnvörpum; hefi eg oft horft á það sjálfur, að hann hefir gleypt 2 og 3 í einu. Liggur í augum uppi, hvort þurfi að eyða eggjunum þegar fuglinn á svona skæðan óvin.

Vona eg að háttv. deild sé mér sammála um, að nauðsynlegt sé að eggin séu friðuð sem bezt. (Kristján Jónsson: Eg vil ekki banna eggjatökuna af því mér þykja eggin svo góð). Háttv. þm. getur ráðið sig sem kaupamann hjá varpbónda, því heimilisfólkinu er heimilt að éta eggin.