20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í C-deild Alþingistíðinda. (1094)

64. mál, friðun æðarfugla

Matthías Ólafsson:

Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) hefir nú gert ýtarlega grein fyrir áliti sínu á þessu frumvarpi. Hann var að tala um ákvæðið í frumv., sem leggur sektir við því að drepa fugl af ásettu ráði og gat ekki skilið, að menn gerðu það.

Hann var að tala um að maður gæti verið sjóndapur og skotið æðarfugl á löngu færi á flugi af því að hann hefði haldið það vera einhvern annan fugl. Það gæti alveg eins komið fyrir þann mann, að hann skyti mann af því að honum sýndist það vera fugl. (Einar Jónsson: Eg hefi aldrei séð mann fljúga). En ef nú þingm. sæi einhvern tíma flugvél, þá væri mjög leiðinlegt, ef honum skyldi sýnast það hrafn og skjóta á hana. Hann gæti að öllum líkindum ekki afsakað sig með sjóndeprunni.

Við 2. gr. hafði hann það að athuga, að menn mættu ekki selja og taka æðaregg. Þetta er gert til þess að hamla því, að fuglinum fækki vegna eggjatökunnar.

Háttv. sama þingm. var meinilla við 3. greinina. Honum fanst það óhæfilegt, að mega ekki taka og éta dauða æðarfugla, sem menn fyndu. Eg get sagt háttv. þingm. það, að hann ætti helzt aldrei að taka hræ dauðra dýra, hvorki æðarfugla né annara, til átu. Bæði er nú ljótt að leggjast á náinn, og svo er ekki að vita nema einhver hafi eitrað ræflinn og ætlað að drepa bannsetta tóuna, en ekki neinn mann t. d. 1. þm. Rangv. (E. J.). Mennirnir ættu ekki að gera sig að hrædýrum nema í ýtrustu neyð.

Þó var háttv. þingm. allra verst við 9. greinina, um vandkvæðin, sem hann svo kallaði, við að koma á hjá sér æðarvarpi. Þetta er alt saman misskilningur hjá háttv. þingmanni. Vandkvæðin eru ekki á að koma á varpinu, heldur eru sett skilyrði, sem varpeigandinn verður að fullnægja til þess að fá það verndað. Það er »kunstin«.

Það var vel gert af háttv. þingmanni að vekja okkur, því að okkur var farið að syfja. En eg skal fullvissa hann um, að bann bíður aldrei tjón við það þó að frumv. Verði að lögum, því að eg veit ekki til að hann eigi heima innan um æðarfugla.