21.08.1913
Neðri deild: 40. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í C-deild Alþingistíðinda. (1107)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Kristjánsson:

Eg ætla fyrst að geta þess, að á þingmálafundi í mínu kjördæmi var samþykt tillaga, um að skora á þingið að afgreiða ekki stjórnarskrármálið í frumvarpsformi á þessu þingi. Ekki fyrir það, að ef eg hefði talið framgang þess nauðsynlegan, þá hefði eg eðlilega fylgt því, þrátt fyrir þessa fundarsamþykt. En eg er ekki sannfærður um að svo mikið liggi á að afgreiða málið. Eg hygg, að það hafi vakað fyrir kjósendum í Akureyrarbæ, að það væri sjálfsögð, heilög skylda þingsins, að gera alt til þess, hve nær sem tækifæri gæfist, að leiða sambandsmálið til heppilegra úrslita. Og þá ætti að sjálfsögðu að taka upp stjórnarskrármálið í sambandi við það. Menn munu hafa litið svo á, að sambandsmálið væri ekki dautt mál og að innan skamms mundi það verða tekið upp aftur. En hvað sem því líður, þá tel eg það vel farið, að stjórnarskrármálið var tekið til meðferðar nú á þinginu.

Eg get lýst ánægju minni yfir því fyrir það, að einmitt nú við meðferð málsins, hafa þær umbætur komið fram, sem gera það langtum aðgengilegra en frumvarpið frá þinginu 1911. Málið hefir unnið það við að vera tekið upp nú, að það hefir komist í langtum viðunanlegra horf. Og eg get búist við því, að ef það yrði ekki afgreitt nú, en tekið til meðferðar á einu þinginu enn, þá fengist sá heilbrigði grundvöllur, sem nauðsynlegur er.

Um einstök atriði í nefndaráliti meiri hlutans skal eg ekki vera fjölorður. Ákvæðið um skipun efri deildar þykir mér satt að segja mjög varhugavert. Eg er hræddur um að nefndin hafi ekki komist að réttri niðurstöðu um það atriði. Eg álít það stórkostlega vafasamt, að það geti verið heppilegt, að allir 14 deildarmenn skuli kosnir hlutfallskosningum um alt land. Að sumu leyti kann þetta að geta átt við, en eg er meðal annara hræddur um, að petta fyrirkomulag hljóti að leiða til þess, að kjördæmum verði að fækka. Og það hygg eg að mundi valda þeirri óánægju um alt land, að menn geri sér það ekki fullkomlega ljóst.

Mér er ekki vel ljóst, hvernig á að ráða fram úr þessu, en þó hygg eg, að það mundi verða eðlilegast að landið væri alt eitt kjördæmi, en önnur skilyrði sett fyrir kjörgengi og kosningarrétti til efri deildarinnar en til þeirrar neðri. Eg verð að minsta kosti tregur til að greiða atkvæði með þessu fyrirkomulagi, nema eg fái að heyra tillögur manna, sem þessu eru fylgjandi, um það, hvernig kjördæmunum þá yrði hagað. (Benedikt Sveinsson: Heyr!). Það er ekki ósanngjarnt að krefjast þess af þeim háttv. þingmönnum, sem vilja halda þessu til streitu, að þeir leggi fram álit sitt um, hvernig þessu mætti haga svo, að allur þorri kjósenda gæti sætt sig við það. Að öðru leyti skal eg ekki fara frekara út í þetta ákvæði.

Þá er ríkisráðsákvæðið. Það er í sjálfu sér þýðingarmikið atriði. Þó að eg áliti það nokkuð fljótfærnislegt að breyta því 1911 eins og gert var, þá verð eg að vera þeirrar skoðunar, að nú sé afar-varhugavert að breyta því aftur í sama horfið og það var áður. Þegar krafa er gerð af minni máttar þjóð á hendur þeirri, sem hefir hann meiri, þá er óhyggilegt að falla frá henni undir eins og hún mætir einhverri mótspyrnu. Það getur skaðað aðrar síðari kröfur hennar. Sá sterkari getur sagt: Þeir hafa fallið frá kröfu einni áður, það er bezt að biða við og vera ekki alt of fljótur til að samþykkja þessar kröfur þeirra. Úr því að ríkisráðsákvæðið var einu sinni felt í burtu, þá er það mikið spursmál, hvort Við eigum að víkja frá þeirri kröfu nú og setja alt í sama horfið og áður var. Þetta er svo mikilvægt atriði, að eg hef ekki enn ráðið við mig, hvaða afstöðu eg á að taka til þessa máls. Eg hefi ekkert á móti að frumv. verði samþykt til 3 umr., og getur verið að eg greiði því atkvæði, án þess að eg vilji láta skoða það sem nokkra yfirlýsingu um að eg greiði því atkvæði út úr deildinni.

Það er engin furða þó að skiftar verði skoðanir um þetta mál, þar sem sjálfri nefndinni hefir ekki komið betur saman um það en svo, að hún hefir klofnað í marga flokka. Eg veit ekki, hvað marga, en eg tel líklegt, að þeir séu ekki færri en 5, þar sem þrír hafa skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara og einn skorist alveg úr leik. Úr því að nefndin, sem hefir átt svo góðan kost á að íhuga málið frá öllum hliðum, hefir ekki komið sér betur saman um það en þetta, þá er ekkert undarlegt þó að þingmenn yfirleitt hafi ekki áttað sig á málinu til fullnustu sem sagt, þá getur vel verið að eg greiði atkvæði með frumvarpinu til 3. umr., án þess að þar með sé sagt að eg greiði atkvæði með því út úr deildinni.