22.08.1913
Neðri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í C-deild Alþingistíðinda. (1114)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Eggert Pálsson:

Eg kann betur við að segja nokkur orð til þess að sýna afstöðu mína gagnvart frumv.

Eg áleit í þingbyrjun, að bezt væri að hreyfa engum stjórnarskrárbreytingum á þessu þingi, og sömu skoðunar voru einnig margir málsmetandi menn í mínu kjördæmi. Nú sé eg, að nefndin hefir leyst þann hnút, sem mér og öðrum hafði ekki til hugar komið, að yrði leystur að sinni; eg á við ríkisráðsákvæðið. Eg lít svo á, að ef haldið hefði verið óbreyttum grundvelli frumv. 1911, að því er þetta atriði snertir, hefði verið stofnað til deilu við konungsvaldið, sem hefði getað komið til að hafa óheillavænlegar afleiðingar, og þótti því betra að láta frumv. hvíla sig, en leggja út í svo viðsjárverða baráttu. En nú er vegur fundinn, sem eg ætla að sé framkvæmanlegur, og skil ekki annað, en konungur geti felt sig við. Þar sem nú ráðið er fram úr þessu vandkvæði, get eg greitt atkvæði með frumv. og óskað því framgangs á þinginu.

Svo að eg snúi mér að inum einstöku br.till., þá hallast eg yfirleitt að flestum br.till. meiri hlutans. Raunar eru stöku br.till., sem eg get ekki felt mig við; en svo er oftast, að einn einstakur maður verður að rýma dálítið vegna skoðana annara, ef fylgjast vilja að til að hrinda einu máli áfram. Það liggur í augum uppi, að stjórnarskrárbreyting, sem allir verða ánægðir með í hverju einstöku atriði, verður aldrei samþykt.

Um ráðherrafjölgun skal eg taka það fram, að eg felli mig vel við það, að heimilað sé að fjölga þeim með einföldum lögum; alt af getur komið fyrir að fjölga þurfi ráðherrum, en óheppilegt að til þess þurfi stjórnarskrárbreyting.

Sömuleiðis get eg felt mig við tillögur meiri hl. um kosningarrétt kvenna. Eg er kvenréttindamaður, en hygg þó, að una megi við, að konur fái kosningarréttinn smám saman, því að þótt þær fái ekki réttinn að fullu til jafns við karlmenn fyr en eftir 15 ár, þá er biðin fyrir konuna, sem lengst verður að biða kosningarréttar síns, samt sem áður ekki lengri en 71/2 ár, sem ekki getur talist svo tilfinnanlega löng bið og það því síður, sem sama lögmál er látið ná til þeirra karlmanna svo sem vinnumanna, er enn þá ekki hafa fengið kosningarréttinn.

Að því er snertir viðbótina Við 20. gr., þá get eg fyrir mitt leyti felt mig við hana. Það voru sérstaklega þeir háttv. þm. Dal. (B. J.) og þm. V.-Ísf. (M. Ól.), sem mæltu mikið á móti því, að þeir menn, sem utan þjóðkirkjunnar stæðu, en til heyrðu þó ekki neinum viðurkendum trúarbragðaflokki, skyldu gjalda tilsvarandi gjald þjóðkirkjugjaldi, til Háskólasjóðs eða einhvers styrktarsjóðs. Það skiftir auðvitað ekki miklu máli, hvert þetta gjald á að renna, en ákvæðið er sjálfsagt og má ekki öðruvís vera. Tilheyri menn einhverjum sérstökum trúarbragðaflokki, þá rennur gjaldið að sjálfsögðu þangað. En telji menn sig ekki til neins trúarbragðaflokks, þá mega menn þó ekki með neinu móti sleppa gjaldfrítt. Það yrði ekki annað en nokkurs konar verðlaun fyrir það, að vera ekki í neinum trúarbragðaflokki. En það álít eg illa viðunandi fyrir þingið, að veita slík verðlaun á meðan við höfum nokkura þjóðkirkju. Þeir sem hafa horn í síðu þjóðkirkjunnar, eiga að koma hreinlega fram, og vinna að skilnaði ríkja og kirkju með ærlegu móti, en ekki stuðla að því, að gera sambandið, meðan það er, svo, að bæði meðlimir þjóðkirkjunnar og aðrir verði þreyttir á því Afleiðingarnar af till. háttv. þm. Dal. (B. J.), ef samþyktar væru, yrðu sem sagt þær, að mönnum væri gefið undir fótinn með það, að vera ekki í neinum trúarbragðaflokki. En þær yrðu líka enn víðtækari, því að meðan ríki og kirkja er í sambandi hvort við annað, ber landinu að sjá um presta þjóðkirkjunnar og launa þeim. En eigi menn að sleppa við ákveðin gjöld, þá vex líka að sama skapi útgjaldabyrði landssjóða til þjóðkirkjunnar, því að hann þarf engu að síður að launa prestana þótt persónulega gjaldið til prestlaunasjóðsins lækki eða hverfi. Eg hygg því, að betur sé farið, að vinna að sæmilegum aðskilnaði ríkis og kirkju, en að vera að sýna svona lagaða áreitni í garð þjóðkirkjunnar, sem tillaga hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Dal. ber vott um. Eg hefi alls ekkert á móti aðskilnaði og hef aldrei haft, heldur álít jafnvel, að kirkjunni mundi betur borgið þá, en við það ástand, sem við nú búum við í kirkjulegum efnum.

Þá skal eg litið eitt drepa á eitt ákvæði háttv. meiri hluta, sem eg get ekki felt mig alla kostar við. Það er skipun efri deildar — að þm. til hennar séu allir kosnir hlutbundnum kosningum land alt. Eg sé mikla agnúa á því fyrirkomulagi, og mér dylst ekki, að það mun skapa mikla óánægju, ef breyta þarf til muna kjördæmaskipuninni, að fækka þeim þingm., sem kosnir eru í sérstökum kjördæmum, sem óhjákvæmilegt mundi verða með því fyrirkomulagi. Hina vegar kann eg heldur ekki við br.till. háttv. minni hluta, að sex þingm. skyldu kosnir hlutbundnum kosningum um land alt, en hinir kosnir af sameinuðu þingi. Mér finst þetta satt að segja nokkurs konar grautargerð. En þótt eg sé fremur mótfallinn þessu fyrirkomulagi, sem hv. meiri hluti leggur til, þá get eg samt greitt því atkv. við þessa umræðu í von um, að betri leið kunni að finnast við 3ju umræðu. T. d. gæti eg hugsað, að það yrði vinsælla að landinu yrði við hlutfallakosningar skift í fleiri en eitt kjördæmi t. d. eftir fjórðungum. Þetta er ekki nema bending, sem eg skýt fram, í þeirri von að nefndin taki hana til íhugunar og aðgæti, hvort þessi leið gæti ekki verið fult eins heppileg og sú, sem meiri hluti hennar hefir stungið upp á.

Hvað br.till. um kjörgengi dómara, sem ekki hafa umboðsstörf á hendi, anertir, þá felst eg á hana, ekki vegna þess, að eg álíti ekki yfirdómarana jafn hæfa til þingmensku og aðra — þeir hafa ef til vill, stöðu sinnar vegna, enn þá meiri skilyrði til þess en aðrir — en eg álít, að það sé rétt ágizkun hjá háttv. nefnd, að afleiðingin af þessu ákvæði yrði sú, að yfirdómurinn mundi hafa mikið meira traust almenninga, ef dómararnir ættu ekki sæti á þingi, að mineta kosti eins og flokkum í landinu er nú skift.