22.08.1913
Neðri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í C-deild Alþingistíðinda. (1117)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Háttv. framsögum. meiri hlutans (J.M.) skýrði, í hverju meiningamunur meiri og minni hlutans um 15 árin lægi. Skýrði hann þar ekki rétt frá. Hann sagði, að meiningamunurinn væri um það, hve varlega ætti að fara í það, að úthluta kosningarréttinum. Ágreiningurinn var ekki um það, heldur um það, hvort rýmkun kosningarréttarins verki í rétta átt. Ef það er hættulaust að veita öllum, konum sem körlum, sem hafa náð 25 ára aldri, kosningarrétt, því á þá að vera draga það ? Eg hefi áður tekið það fram, að það er engin hætta á ferðum, þó að allir, sem hafa rétt á að fá kosningarrétt, fái hann í einu, því þjóðin er öll jöfn að máli, ætterni, gáfnafari og allri menningu. Þessi byltingagrýla er er því á engum rökum bygð. Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) vitnaði líka í það, mínu máli til sönnunar, að það sýndi áhugaleysi kvenmanna, að engin þeirra væru hér viðstaddar til þess að hlusta á, þegar verið er að tala um kosningarrétt þeirra. Engin byltingarhætta getur stafað frá slíkum áhugalausum kjósendum.

Það hefi eg og sannfrétt, að jafnaldraður og skýr maður og hæstv. forseti deildarinnar hér hefir haldið því fram á þingmálafundi, að engin hætta væri á ferðum þó allir, konur jafnt sem karlar, fengju kosningarrétt. Nefni eg þetta til að styðja mál mitt, því það er betra að styðja mál sitt með mönnum en röksemdum.

En hvort er nú varlegar farið, að láta alla fá kosningarréttinn í einu, eða ekki?

Eg vil segja að það sé varlegar farið, að láta alla fá hann í einu. Hitt er óvarlega farið, að gera upp á milli manna og skapar það óánægju hjá þeim, sem eiga fullan rétt á að fá kosningarrétt, en fá hann ekki. Fólk, sem ekki er 40 ára, mundi verða svo sáróánægt, að ekki að eins mundu verða skærur á milli þeirra 40 ára innbyrðis, heldur og milli þeirra 40 ára og hinna, sem ekki eru 40 ára. Þá kemur óróinn, sem háttv. meiri hl. vill svo mjög varast.

Eg hefi áður haldið því fram, að meiri hlutinn næði ekki tilgangi sínum með því að hafa hlutfallskosningar um land alt. Það sem eg sagði þá, var rétt, og er það enn. Nefndi eg þá til ritstjóra og aðra byltingarmenn, sem yrðu kosnir á aðra hliðina, framsóknar og frelsis, en gamla uppgjafa embættismenn á hina.

Þá var háttv. þm. Vestm. (J. M.) að tala um það, að skoðun mín nú á þessu máli væri í mótsögn við skoðun mína á þinginu 1911, að eg teldi það engan stjóra nú, sem eg hefði talið þá. Þá verður háttv. þm. að gæta að því, að á þinginu 1911 stóð öðruvís á en nú. Í frumv. þá var bygt á 12 ára þingsetu; en nú á ekki nema 4 ára. Nú eru því teknir 2/3 af stjóranum, og því alt öðru máli að gegna nú. Þessi langi kjörtími, 12 ár, var mjög óheppilegur, því með því að hafa kjörtímann svo langan, þá sofnar þjóðin á meðan. En með tíðum kosningum er þjóðinni haldið vakandi í áhugamálum sínum. Eg gerði þá í samráði við mína kjósendur að leggja það til, að kjörtíminn væri færður niður í 4 ár. Er það nógu langur tími, ef þingið er ekki nema annaðhvort ár. (Jón Ólafsson: En ef þingið er á hverju ári?) Eg væri ekkert á móti því, þó að þingið væri á hverju ári eins og einn hv. þingm. var að gelta hér fram í. Eg væri ekkert á móti því, þótt kosið væri á hverju ári. Væri þá hægara að losna við vonda þingmenn, en nú er.

Menn mega ekki gleyma því, að það eru kjósendurnir, sem eiga að hafa valdið og bera því ábyrgð á því, sem þm. þeirra gera. En það gætu þeir ekki, væru þingmenn kosnir til 12 eða 15 ára. Það verður því að kjósa þá oft. Og þingm. hafa þá dóminn yfir höfði sér, ef kjósendurnir eru vakandi.

Annars er yfir höfuð að tala grundvallarreglu meiri hlutans sá, að halda sem fastast við það. sem rangt var í frumv. 1911, taka einmitt það, sem eg forðaðist og taldi óviðunandi í alla staði.

Kjósendur vilja alls ekki neinar hlutfallskosningar, en vilji þingið endilega halda fast í þær, þá er það þó því að eins hægt, að br.till. mín verði samþykt, að að eins 6 af þingm. efla deildar skuli kosnir með hlutfallskosningum. Er br.till. mín það eina, sem getur bjargað málinu gegn um 2 þing. Annars eru tillögur meiri hlutans í þessu að eins afturganga frá 1911, sem var drepin þá, en nú vakin upp aftur. Svo er og t. d. um útrýmkun kosningarréttsans eftir aldri, deildaskiftingin, sem þá var í eilífum graut o. fl.

Um einstök atriði ætla eg mér ekki að þjarka í þetta skifti. Eg ætlaði að háttv. þm. Vestm. (J. M.) myndi eftir því, að manni var boðið að flytja úr embætti eða að missa það að öðrum kosti. (Jón Magnússon: Eg gerði það líka). Jæja. Annars er eg háttv. þm. sammála um það, að þegar vér Íslendingar erum að setja okkur stjórnarskipunarlög, þá varðar okkur lítið um það, hvað stendur í dönskum blöðum um það mál. (Valtýr Guðmundsson: Þau geta haft áhrif á konunginn). Ekki ætla eg að gera konungi þær getsakir, eins og þingm. gerir, að hann láti stjórnast af fleiri danskra blaða. Þó ekki sé eg neinn konungsvinur, þá tel eg það ósæmlegt að gera honum slíkar getsakir, eins og þm. Sfjk. (V. G.) gerir, ýmist að hann ætli að senda hingað herskip til að kúga okkur með hervaldi, eða það, að hann ráði ráðum sínum eftir fleipri og þvættingi danskra blaða. Þm. talaði um það, að konungi myndi ekki finnast ríkisráðsákvæðið aðgengilegt. Þetta er gripið úr lausu lofti. Eins er það in argasta heimska að segja það, að stjórnarskrá Íslendinga geti ákveðið neitt um ríkisráð Dana. Stjórnarskráin kemur undir konungsúrskurð. Og að segja það, að konungur muni neita að staðfesta hana, það eru ósæmilegar aðdróttanir í garð konungs. Þessi þingm. talar alt af eins og hann viti konungsins leyndustu hugsanir, alveg eins og hann væri ráðherra eða jarl, eða jafnvel konungurinn sjálfur. Er það alveg óþarfi að vera að reyna að skelfa okkur á þennan hátt. Konungi dettur ekki annað í hug en að samþykkja stjórnarskrána, eins og við viljum hafa hana.

Eg hugsa, að menn hafi rætt þetta mál svo sem þörf er á, og muni því stoða lítið þó eg tali lengur. Eg býst við því, að ef deildin vill aðhyllast hlutfallskosningu um land alt, að hún sjái, að það sé sjálfsagt að taka br.till. mína, að aðeins 6 þingm. efri deildar skuli kosnir með hlutfallskosningu, svo að kjördæmunum fækki ekki úr því sem nú er. Vona eg, að allir verði á einu máli um það. Skal eg svo ekki lengja umræðurnar. Eg hefi verið mjúkur í máli við alla, og vona því, að eg þurfi ekki að standa upp til að svara neinu, sem að mér kynni að verða kastað.