22.08.1913
Neðri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í C-deild Alþingistíðinda. (1124)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Einar Jónsson:

Eg hefi ekki heyrt eitt einasta orð af því, sem háttv. framsögum. (B. Kr.) sagði. Eg vona því, að menn fyrirgefi mér að eg sný ekki máli mínu til þess sem hann var að tala um. Það sem kemur mér til að standa upp er það, að eg við 2. umr. þessa máls gerði enga grein fyrir atkvæði mínu. Þingm. hlýtur að hafa fundist það ein kennilegt, að eg skyldi greiða atkvæði móti því þá, því að eg hafði látið í ljós við suma þeirra, að eg óskaði eftir að starfsfé Landsbankans væri aukið eftir því sem kringumstæður leyfðu.

Á atkv. mínu stóð þannig, að eg óskaði reyndar eftir að veltufé bankans væri aukið, en eg sá ekki að landssjóður mætti missa af svo miklu fé, sem hér er um að ræða. Þegar eg sá, hvaða stefnu þingið tók í fjárlögunum, þá nefnilega að spara ekkert útgjöldin, fyrir því þótt landssjóður væri ekki ríkari en raun gefur vitni um, heldur batt honum þungan bagga með alls konar fjárveitinum, þá sá eg að það væri ekki til annars en að leika sér að vera að samþykkja þetta frumvarp. Bankanum myndi ekki koma það að haldi, þar sem peningarnir yrðu ekki til.

Líka fanst mér, að lán þau sem veitt væru úr landssjóði væru síður veitt til óþarfa en þau sem bankinn veitti, og því væri nær að lána féð beint úr landssjóði, heldur en að leggja það fyrst bankanum til og hann svo veita lánin. Munurinn á landssjóðslánum og bankalánum er sá, að landssjóðalánin eru fremur veitt til félaga og framfara-fyrirtækja, en hin fremur til einstakra manna sem minni vissa er fyrir að hafi fullgildar tryggingar eða noti féð á réttan hátt. Br.till. þær sem nú eru komnar fram bæta aftur svo mikið úr skák, að eg hygg, að eg geti greitt frumv. atkvæði við þessa umræðu málsins, og svo hygg eg að muni fara um fleiri.

Eg vildi geta eins í sambandi við það, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði við 2. umr., að lán sem veitt væru með 6% vöxtum í 20 ár væri gjöf eða styrkur, en ekki lán. Eg er nú ekki eins mikill reikningsmaður eins og háttv. þingm. þykist vera, en eg get þó reiknað 6% af t. d. 1000 kr. í 28 ár. Ef nú 1000 kr. lán væri veitt til 28 ára með 6%, þá væri eftir þessi 28 ár búið að borga af því 1620 kr. Þetta getur hver maður séð að er engin gjöf. Gerum nú ráð fyrir að landssjóður fái lán með 41/2% og láni af því 1 þús. kr. til 28 ára með 6%, þá græðir hann 420 kr. Af þessu er auðsætt, að það er engin gjöf að lána fá út með 6% vöxtum á ári, þótt það sé veitt til 28 ára.