23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í C-deild Alþingistíðinda. (1131)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Þótt nú sé nokkuð liðið frá 2. umr., þá hefir fjárlaganefndin samt haft nauman tíma til að taka frumvarpið til athugunar, eina og það nú er orðið, og því síður breyt.till., sem nú eru framkomnar frá einstökum þingmönnum. Flestar breyt.till. komu ekki fram fyr en í gærkveldi, en ýmsar eru ókomnar, þar á meðal framhaldsnefndarálitið og brt. nefndarinnar. Geymi eg mér að minnast á þær þangað til þær eru komnar.

Eftir því sem mér hefir reiknast, nema hækkanir á fjárlögunum við 2. umr. samtala 254330 kr., að frádregnum lækkunum, sem nema nál. 90 þús. kr. Af þessum hækkunum stafar mikið frá nefndinni, en þó tiltölulega meira frá einstökum þingmönnum; eru þar á meðal ýmsar breyt.till., sem komu svo seint, að hvorki nefndin né deildin hafði nægan tíma til að athuga þær. Þessar hækkanir hafa þau áhrif á fjárhagaáætlunina, að komið hefir fram tekjuhalli, sem nemur rúmum 166 þúa. kr., þrátt fyrir hækkunina á tekjuáætluninni. Þannig liggur frumvarpið fyrir nú. Þó er þess ennfremur að gæta, að gengið hefir verið alveg fram hjá 13. gr. C., samgöngum á sjó. Það má búsat við því, að þar sem stjórnin hefir sett þennan lið nokkuru lægra en áður var, muni þurfa að hækka hann. Um samgöngumálin hefir nú fjallað sérstök nefnd og má búast við því, að tillögur hennar um þennan lið verði að mestu samþyktar. Þær breyt.till. eru nú fram komnar og nema hækkanirnar 71 þús. kr. og hefir fjárlaganefndin fallist á þær yfirleitt. Auk þess liggja fyrir frá einstökum þingmönnum tillögur til hækkunar á þessum lið. Loks er þess að gæta, að aðallækkunin, sem gerð var við 2. umr., stafaði af því, að menn urðu ekki ásáttir um, hvora ána ætti að brúa, Eyjafjarðará eða Jökulsá, og urðu þær lyktir á, að hvorug komst að. Hér er því naumast um sparnað að ræða, heldur að eins frest. En Ed. setur að líkindum inn aðra hvora brúna, svo þar má búast við, að bætist við tekjuhallann minat 70 þús. kr. Ef nú tekjuhallinn heldst, eins og hann er nú, og till. samgöngumálanefndarinnar verða samþyktar, sem gera má ráð fyrir og ef Ed. setur inn í fjárlögin aðra hvora brúna, þá er tekjuhallinn kominn upp í nærfelt 308 þús. kr.

Ein sparnaðartillaga liggur fyrir við 13. gr. E, um að fella burt Ingólfshöfðavitann. Mér þykir lítt sæmilegt að leggja ekkert til vitabygginga í þetta sinn; hvað sem um þetta vitastæði er að segja, þá kemur ekki til mála að setja engan vita í staðinn. Menn verða að athuga, að tekjur, sem landssjóður hefir af vitunum, nema fyllilega vitakoatnaði, þótt einn viti sé bygður á fjárhagatímabili.

Þá er tillaga um að lækka um 10–15 þús. kr. fjárveiting til aðgerðar á dómkirkjunni. Það er spurning um, hvort þetta getur talizt sparnaðartillaga,

með því að viðgerðin er talin bráðnauðsynleg fyrir ekki minna fé en 20 þús. krónur.

Að öðru leyti virðast menn ekki hafa mikla löngun til að spara, nema þá helzt háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.).

Þá skal eg snúa mér að hinum einsöku breyt.till. Um leið skal eg taka það fram fyrir nefndarinnar hönd, að henni þykir þessi straumur í fjáreyðsluáttina mjög óálitlegur og mun beita sér af alefli gegn honum; þótt hún hafi — mestu tilhneiging til að hallast að nokkurum þeirra, þá verður nefndin yfirleitt andstæð öllum hækkandi tillögum.

Tek eg þá breyt.till. eftir röðinni. Við 12. gr. er 1. breyt.till. á þgskj. 536. Það er að eins orðabreyting, og hirði eg ekki að stæla um hana.

Þá er 13. gr. B. Þar liggja fyrir brtill. um 15 þús. kr. hækkun á fjárveitingum til vega. Vegaféð er nú eftir frumv. með mesta móti og er nefndin mótfallin því, að hækka það meira. Læt eg það nægja, sem svar gegn öllum þessum brtill. Þó skal eg geta þess viðvíkjandi brtill. á þgskj. 548, um 5000 kr. fjárveiting til að breikka veginn í kömbum og steinlíma ræsi í veginum milli Reykjavíkur og Ölfusárbrúar, að nefndin Veit ekki til þess, að fyrir liggi nokkurt álit landsverkfræðingsins um þetta; ef þessa væri brýn þörf, mundi hann hafa komið fram með ósk um að hækka féð til viðhalds flutningabrauta. Þar ætti fjárveiting til þessa heima.

Þá eru hér og brtill. um fjárveiting til tveggja brúa, og er hvorttveggja uppvakning frá 2. umr., og álit eg hæpið, að þær geti komið til atkvæða nú, því að ef mönnum helzt uppi að fara slíka krókavegi, þá eru þingsköpin að vettugi virð. Brúin á Bleikdalsá er lækkuð um 100 kr. frá því sem var við 2. umr., sem gjósarsýsla á að leggja fram, og sjá allir, að slíkt er engin teljandi efnisbreyting. Á móti þessu legst nefndin algerlega og sömuleiðis hinni brúnni, Þverá í Eyjafirði. Sama er að segja um fjárveiting til vegarins milli Grindavíkur og Keflavíkur, sem feld var við 2. umr.

Um brtill. á þgskj. 529, um fjárveiting til að ryðja akfæran veg frá Kópaskersvogi inn að Jökulsárbrú í öxarfirði, er sama að segja, að nefndin hefir ekki getað fallist á hana. Úr þessu byðgarlagi lá fyrir fjárlaganefndinni umsókn um styrk til að brúa á eina á Langanesströndum; einn maður í fjárlaganefndinni flutti hana þar, en hún féll við atkvgr. í nefndinni; samt er ekki loku fyrir það skotið, að hún komist að í Ed. Nefndin getur ekki fallist á þessa brtill. þm. N.-Þing., en verður þó að játa, að þessi brtill. á þgskj. 529 sé sanngjörnust þeirra, sem nú hefi eg nefnt.

Þá sný eg að brtill. á þgskj. 487 og 494 við 13. gr. C. Fjárlaganefndin hefir skýrt frá skoðun sinni á þessum brtill. í framhaldsnefndarálitinu, þgskj. 556, sem menn geta lesið, þegar það kemur úr prentun nú í dag. Nefndin hefir fallist á brtill. á þgskj. 487 í öllum aðalatriðunum, bæði um tilhögun og skilyrði. Nefndin lítur svo á, að rétt sé að veita stjórninni nokkurt fé til að láta rannsaka samgöngur vorar á sjó, úr því að vér ætlum oss nú að taka þær í vorar hendur. Það er leitt, hve þingið hefir átt lítinn kost á upplýsingum um sik mál. Þótt stjórnin hafi útvegað tilboðin, hefir þingið engar skýrslur haft til samanburðar, hvorki um flutningaþörf, útgerðarkostnað né annað. Sama er að segja um bátana, nema Faxaflóabátinn. Sjálfsagt er að taka ferðir þeirra með í inni fyrirhuguðu rannsókn. Því að þótt þingmennirnir séu alstaðar af landinu, hafa fæstir þekking annarstaðar en rétt í kringum sig, og enginn hefi haft næga yfirlitsþekking til að dæma um þetta mál. Þótt nú fjárlaganefndin hafi fallist á að veita fé til rannsóknar þessa máls, þá getur hún þó ekki lagt með því, að nú verði sett upp eins konar föst samgöngumálastjórn, og leggur því til, að breytt sé fyrirsögnni í 1. á þgskj. 487, þannig að fjárveitingin sé veitt til undirbúnings. Auðvitað hefir nefndin ekki á móti því, að stjórnin fái sérstaka menn til að rannsaka málið, en hún vill að eins ekki binda þingið framvegis við fastan starfsmann að svo komnu í því efni. Tilætlunin er, að ið fyrirhugaða ísl. eimskipafélag taki við öllum samgöngunum og þar með stjórn þeirra, og hefir því stjórnin tæplega þörf til slíka aðstoðarmanns, þegar það er komið á laggirnar.

Viðvíkjandi þeim ágreiningi, sem varð í samgöngumálanefndinni og kom fram í brtill. um skilyrðið fyrir styrkveitingu til Eimskipafélagains, þá er líkt ástatt í fjárlaganefndinni. Meiri hlutinn þar er sömu skoðunar og meiri hluti samgöngumálanefndarinnar, en sumir nefndarmenn eru aftur fylgjandi minni hluta hennar. Sérstakt kappsmál er þetta þó ekki, og hafa nefndarmenn nokkurn veginn óbundnar hendur, hvernig þeir greiða atkvæði.

Nefndin hefir fundið ástæðu til að hækka styrkinn til Faxaflóabátsins og Breiðafjarðarbátsins um 2000 kr. árlega til ina fyrri og 1000 kr. til ins síðari á ári. Væntir nefndin því þess, að tillögumenn brtill. um það, að hækka styrkinn til Breiðafjarðarbátsins upp í 10.000 kr., taki þá tillögu aftur og láti sér þetta lynda. Ef samkomulag verður ekki, getur það spilt fyrir þeim gullna meðalvegi.

Þá hefir komið fram brtill. frá nokkrum háttv. þm. um það, að teknar sé á fjárlögin árlega 50.000 kr. til að kaupa hluti í Eimskipafélaginu. Nefndin hefir ekki getað fallist á þessa tillögu. Það er ekkert fé fyrir hendi til þessa, sérstaklega þegar lítið er til fyrri samþyktar deildarinnar í fjármálum, að verja 100.000 kr. árlega til styrktar Landsbankanum. Um hlutakaup í Eimskipafélaginu vill nefndin láta sitja við frumv. samgöngumálanefndarinnar, sem nú er gengið til 3. umr. hér í deildinni. Þar er að visu hluttaka landssjóðs bundin því skilyrði, að félagið taki að sér strandferðirnar. Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á, að ekki megi ganga fram hjá þessu ákvæði og ástæðulaust sé að vera að styrkja félagið, ef það geti ekki eða vilji ekki taka að sér það, sem okkur er brýnust þörfin á strandferðirnar.

Þá hefir háttv. þm. Borf. (Kr. J.) lagt það til, að styrkurinn til Hvíárbátsins sé færður upp í 800 kr. Nefndin getur ekki fallist á þá tillögu, en vill fara meðalmeginn og láta styrkinn vera 600 krónur.

Þá hefi eg ekki meira um samgöngur á sjó að segja.

Þá kem eg að 13. gr., D. og E. liðnum. Háttv. 1. þm. Skgf. (Ól. Br.) hefir borið fram brtill. á þgskj. 517, sem fer fram á það, að breyting, sú sem samkvæmt tillögum fjárlaganefndarinnar var gerð við 2. umr. á liðnum um rekstrarkostnað Við símana, til hækkunar á launum 2 starfsmanna, verði færð aftur í samt lag. Þessi liður var hækkaður um 400 kr., sem var launaviðbót þeirra Gísla Jónssonar stöðvar stjóra og Smiths símaverkfræðings. Væntanlega færir háttv. þm. ástæður fyrir þessari brtill. sinni, en nefndin hefir ekki getað fallist á hana. Hún skoðar þetta eðlilega og sanngjarna hækkun, enda óviðkunnanlegt að kippa aftur að sér hendinni, þegar búið er að ákveða við 2. umr.

Þá er á þgskj. 492 brtill. frá háttv. þm. Snæf. (H. St.) um það, að veita 100 kr. árlega til leiðarljóss á Svartabakka við Stykkishólm. Þetta hefir staðið á fjárlögum áður með 75 kr. Og getur nefndin fallist á, að þetta fé sé veitt.

Þá er brtill. á þgskj. 526, frá háttv. þingm. S.-MúI. o. fl., um það, að fjárveitingin til vitabyggingar á Ingólfshöfða sé feld burt. Þessi tillaga er líklega fram komin fyrir það, að þeir álíta vitann illa settan á þessum stað og mun þá tilætlun þeirra, að háttv. Ed. lagfæri þetta á þá lund, að vitinn skuli settur í Meðallandi. Því að ekki get eg trúað því, að þeir ætlist til þess, að Suðurland fái engan vita á þessu fjárhagstímabili. Eg hefi átt tal um þetta við nokkra menn, sem vit hafa á, t. d. við kapteininn á Botniu, sem hefir farið hér um afarlengi og er flestum Íslendingum að góðu kunnur. Hann kvaðst hafa stungið upp á því fyrir löngu, að viti væri settur á þessum stað. Hann sagði, að það væri hiklaust réttast að setja fyrst vita á þeim stöðum, sem skærust lengst í sjó fram. Það væri því nauðsynlegt að setja vita á þessum stað. Hann kannaðist við það, að heppilegt væri fyrir fiskiskip að hafa vita á Meðallandi, en fyrir skip, er til landsins kæmu, væri mest þörf á vita á Ingólfshöfða. Viti á Meðallandi væri þeim skipum alls ónógur. Nefndin álítur því óhyggilegt að taka þennan lið burtu og leggur á móti brtill.

Þá er sparnaðartillaga frá háttv. þm. N.- Þing. (B. Sv.) á þgskj. 523, um að færa styrkinn til aðgerðar á dómkirkjunni niður í 5000 krónur, eða til vara 10.004 kr. Eg veit ekki, hvað vakað hefir fyrir háttv. þingmanni í þessu efni. Geti hann sýnt sæmilega áætlun um það, að þetta fé muni nægja, þá býst eg við, að nefndin gæti fallist á tillögu hans. En eg er hræddur um, að hann hafi ekki betri áætlanir en þær sem fyrir nefndinni lágu og sýndu ljóslega, að ekki mátti veita minna fé til aðgerðarinnar, ef hún ætti að verða sæmileg, en nefndin fór fram á. Nefndin lítur svo á, að það væri ekki sómasamlegt, að hafa kirkjuna í þeirri hættu, sem hún er nú í, og ef gert væri við hana á annað borð, þá ætti að hafa verkið almennilegt.

Þá er brtill. á þgskj. 549, frá háttv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) o. fl.. um 1000 kr. styrk til að láta afskrifa og ljósmynda skjöl, Íslandi viðkomandi, á ríkisskjalasafni Dana. Það væri skemtilegt, ef við gætum náð í slík skjöl og önnur, sem okkar sögu viðkoma, en nefndin getur ekki séð, að hægt sé að sinna sérhverju, sem skemtilegt er og gagnlegt. Fimtánda grein hækkar býsna mikið þótt þessu sé slept.

Þá eru 3 brtill. um styrk til málaranáms. Á þgskj. 542, um styrk til Júlíönu Sveinsdóttur til að ljúka námi á listaháskólanum í Khöfn, 400 kr. hvort ár. Það er sams konar fjárveiting og veitt var Kristínu Jónsdóttur við 2. umræðu, en nefndin hafði mælt á móti, eins og öllum tillögum um að styrkja menn til málaranáma. nema tillögunni um Kjarval, sem hún lét afskiftalausa. Nefndin er í þessu efni sama hugar og áður, og verður því að leggja á móti þessum brtill. Sama er að segja um brtill. á þgskj. 540. Aftur á móti er á þgskj.525, 1. lið, breyt.-till. um það, að hækka styrkinn til Kjarvals um 200 kr. Nefndin lætur þessa tillögu afskiftalausa og hefir alveg óbundnar hendur. Fyrst honum er veittur styrkur á annað borð, munar minstu um þessar 200 kr.

Þá er seinna á sama þgskj. farið fram á, að styrkurinn til Íþróttafélagsins sé hækkaður um 300 kr. á ári, og á þskj. 535 er breyt.till. um, að sá styrkur verði hækkaður um 500 kr. fyrra árið. Nefndin var í efa um, þegar þessi styrkbeiðni var fyret rædd; hvort hún ætti að taka Íþróttafélagið inn á fjárlögin. Hún var hrædd um, að það kynni að draga þann dilk á eftir sér, að þessi styrkur yrði að staðaldri á fjárlögunum — og það væri í raun og veru dálítið vafasamt, hvort mikið væri í það varið, að vekja þá hugsun hjá mönnum, að flýja strax til landssjóðs og menn vildu koma einhverju nytsamlegu í framkvæmd. Samt sem áður komst hún að þeirri niðurstöðu, sökum þess, hve vilji og starfsemi félagsins er virðingar og viðurkenningarvert, að leggja til, að því yrði veittar 500 kr., og þetta var samþykt við 2. umræðu. Eg hefi átt tal við formann Íþróttafélagsins, og var ekki annað á honum að heyra, en hann væri þinginu mjög þakklátur og ánægður með þennan styrk. Nefndin álítur því ekki, að ástæða sé til að hækka þennan lið og verður því að leggja á móti breytingartillögunni.

þgskj. 555 fer háttv. þm. Dal. (B. J.) fram á það, að Ríkharði Jónssyni, sem veittar voru til náms við 2. umr. 1000 kr., verði í viðbót veittar aðrar 1000 kr. til Rómaferðar. Nefndin viðurkennir hæfileika þessa efnilega manns og vill gera sitt til að styrkja hann. Hafa nefndarmenn óbundnar hendur í þessu atriði.

Þá fer háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) á þgskj. 544 fram á það, að styrkurinn til Guðm. skálds Guðmundssonar verði hækkaður upp í 2000 kr., eða til vara 1600 kr. Nefndin hefir ekki séð ástæðu til að hækka fremur þennan skáldstyrk en aðra og leggur því á móti þessari tillögu.

Þá fer háttv. þm. Dal. á þgskj. 524 fram á það, að veittar verði alt að 4000 kr. til þess að þýða á þýzku og gefa út bók Einars háskólakennara Arnórssonar um réttarstöðu Íslands. Nefndin hefir ekki getað áttað sig á því, hve mikið væri í þetta borið. Þeir sem ekki hafa lesið bókina, treysta sér ekki til að mæla með breytingartillögunni. Eg fyrir mitt leyti kannast við, að eg hefi ekki vit á að dæma um slíka bók. En menn verða að vera vissir um að bókin yrði landinu ekki til neins vansa. Eg segi þetta ekki af því, að eg hafi neinn grun um neina sérstaka galla á bókinni. En mér finst athugavert að samþykkja slíka tillögu áður en menn hafa vissu sína um, að bókin sé til mikils gagns og sóma bókmentum vorum; því að um norræn söguvísindi þurfum vér að vera afar-vandir að virðingu vorri. Meiri hluti nefndarinnar leggur á móti því, að tillagan verði samþykt.

Þá vildi þingm. Dal. breyta fjárveitingunum, sem samþyktar voru við 2. umræðu, 2400 kr. fyrra árið til kaupa á höggmyndum og 2000 kr. til málverkakaupa seinna árið í 2400 kr. hvort árið til höggmyndakaupa og það skilyrði sé sett, að 5/6 hlutar fjárins gangi til þess að kaupa verk Einars Jónssonar. Nefndin hefir lagt á móti styrk til málara, en vildi bæta úr því með þessari tillögu sinni, að einhverju fé yrði varið til málverkakaupa — það væri kannske eins heppilegur styrkur málurunum og bein fjárveiting. Þess skal getið, að nefndin gekk út frá því sem gefnu, að það yrði einkum Einar Jónsson sem nyti góðs af þessu fé til höggmyndakaupa, án þess að hendur stjórnarinnar væru bundnar í því efni. Treysti hún stjórninni til að gæta allrar rétt sýni og smekkvísi í þessu og verður því að leggja á móti brtill.

Breytingartillögur við 16. gr. nema til hækkunar samtals 35000 krónum. Það er þá fyrst brtill. frá háttv. 1. þingm. Árn., um það, að styrkurinn sem ákveðinn er til rannsóknar vatnsveitu um Skeið og Flóa,. gangi að eins til rannsóknar Flóaáveitu. Nefndin hefir ekki séð ástæðu til að breyta þessu ákvæði. (Sigurður Sigurðsson: Rannsókn á Skeiðunum er lokið). Ef henni er lokið, þá gerir ekkert til, þótt þetta ákvæði standi, því að fénu verður þá ekki varið til hennar. En sé henni ekki lokið og ákvæðinu er breytt, þá er áreíðanlegt að beiðni kemur fram aftur um fé til rannsóknar þessarar á Skeiðunum — ekki elzt þar sem svo virðist, sem þessum héruðum sé það ákaflega viðkvæmt, að leggja út nokkurn eyri til þeirra framfarafyrirtækja, sem þar er lagt út 1.

Á þgskj. 527 er brtill. frá háttv. þm. N: Þing. (B. Sv.) og 1. þm. Rangv. (E. J.) um 1000 kr. styrk í viðurkenningarskyni til Þorvalds bónda Björnssonar. Þessi tillaga hefir legið fyrir Alþingi áður og var eg þá á móti henni. Sama hugar er eg enn. Eg álit það sé til lítils sóma bændastéttinni, að verið sé að setja menn af þeirri stétt í þessa grein fjárlaganna. Og ef það er ekki henni til sóma, þá er það heldur ekki manninum sjálfum til sóma. Eg mun því greiða atkvæði á móti þessari tillögu.

Þá er á þgskj. 545 brtill. frá háttv. þm. Dal. (B. J.) um atyrk til Þorv. hreppstjóra Þorvarðasonar í viðurkenningarskyni. Þessi maður hefir átt fleiri börn en flestir aðrir hér á landi, hefir komið þeim vel upp og einnig verið hreppstjóri í 40 ár. Ef honum virðist einhver sómi í þessari fjárveitingu, þá hefir nefndin ekki á móti brtill. En spursmál er, hvort ekki mætti sýna honum sóma á einhvern annan hátt viðfeldnari, því að þurfalingur er hann ekki með svo mörg mannvænleg börn uppkomin.

Þá er á þgskj. 541 brtill. frá 1. þm. Rangv. (E. J.) um það, að hlutafélaginu Ingólfi á Eyrarbakka sé veittur styrkur til þess að halda uppi vöruflutningum á bifreið milli Eyrarbakka, Stokkaeyrar og Reykjavíkur og um Árnessýslu.

Fjárlaganefndin fór fram á sams konar fjárveiting til Sveins Oddssonar beinlínis sem tilraun, og er algerlega á móti því að farið sé að styrkja fleiri tilraunir heldur en þær, sem þegar er búið að samþykkja, frá Reykjavík austur um sveitir og á Fagradal. Nefndin hefir litið svo á, að það væri nóg að gera eina slíka tilraun í bráðina, því að það er ekki gott að segja, hvort þetta getur verið til frambúðar, nema með breytingu á vegunum, þó að þessi eina tilraun með mannflutninga hér sunnanlands í ár hafi gefist fremur vel. Hitt er ekki gott að segja, hvort nefndin hefði frekar sint þessari málaleitun eða Sveins Oddssonar, ef þessi hefði komið á undan. En það mælir helzt með Sveini, að hann hefir gert tilraunir á eigin ábyrgð og kostnað í ár, og væri því undarlegt, að hann væri ekki látinn ganga fyrir, þar sem hann hefir lagt töluvert í sölurnar.

Þgskj. 554 er till. frá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um, að breyta orðalagi 29. liðs 16. gr. Það er viðvíkjandi fjárveitingunni til eftirlits með silfurbergsnámunni í Helgustaðafjalli. Till. fer ekki fram á annað en að fjárveitingin sé fastbundin við núverandi eftirlitsmann. Jafnvel þó að fjárlaganefndinni séu ekki kunnar neinar ástæður móti því, að sami eftirlitsmaður verði framvegis og verið hefir hingað til, þá hefir hún ekki viljað binda fjárveitinguna við nafn, og getur því ekki verið með þessari tillögu.

Loks er við þessa grein br.till. á þskj. 546 frá þm. Dal. (B. J.), og veit eg nú ekki, hvað breyt.till. hans eru orðnar margar. Till. er í 2 liðum, og er fyrri liðurinn um fjárveitingu til viðskiftaráðunauts, 15000 kr. á ári, þannig sundurliðaður:

a. Laun viðskiftaráðunauts 4000 kr.

b. Ferðakostnaður . . . . . . . 2000 -

c. Skrifatofufé . . . . . . . . . . . 1000 -

d. Til aðstoðarmanna. . . . . . 8000 -

Nefndina furðaði ekki svo mjög á, að

svona till. kæmi frá viðskiftaráðunautnum, en hana furðaði hitt meira, að hann skyldi ekki fara fram á að fella burtu liðina, sem samþyktir voru við 2. umr. til verzlunarerindsreka. Það virðist vera fullmikið af því góða, að samþykkja þetta í viðbót við hitt. Nefndin hefir átt aðalþáttinn í því, að þessir 2 verzlunarerindrekar, sem búið er að samþykkja, kæmust inn í fjárlögin, og vakti það fyrir nefndinni frá upphafi, að þessir menn yrðu ekki að öllu leyti gerðir út á kostnað landssjóðs, heldur að fullum helmingi á kostnað samvinnufélaga og verzlunafélaga. Hún áleit að það væri heppilegra að fara þessa leiðina til að tryggja það, að í stöðurnar fengjust duglegir menn, sem gætu orðið að verulegu gagni, heldur en fara þá leið, sem reynd hefir verið undanfarið. En þessi tillaga viðskiftaráðunautsins virðist miða til þess, að halda áfram í sama horfinu og verið hefir. Nefndin vill alls ekki hafa skifti á þessu fyrirkomulagi og því, sem hún hefir sjálf stungið upp á. Þá er 2. liðurinn í br.till. um það, að tengja ekki fjárframlagið til Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Sláturfélags Suðurlands við nöfn þessara félaga. Eg veit ekki, hvað hefir vakað fyrir háttv. þm., en ef það er það, að hann hefir viljað færa þetta í samræmi við seinni liðinn, sem ekki er bundinn við neitt nafn, þá skal eg geta þess, um þann lið, að það kom ekki fram frá neinu sambandi eða samvinnufélagi nein beiðni um þetta, en ef fjárlaganefndin hefði fengið beiðni frá einhverju samvinnufélagi í landinu um slíkan styrk, þá er enginn vafi á því að hún hefði miklu fremur kosið að binda fjárveitinguna við nafn þess. Eg verð að halda því fram af fullum krafti, að það er in fylsta trygging fólgin í því, að það eru þessi sambönd, sem hafa málið með höndum, og væri því meiningarlaust að fella niður nöfn þessara félaga.

Þá er nú ekki mikið eftir af þessum br.till. Á þgskj. 495 er br.till. frá einum nefndarmanninum, háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.), um styrk til ekkjufrúar Kristínar Sveinbjarnardóttur frá Holti undir Eyjafjöllum, 300 kr. á ári. Nefndin getur, eftir atvikum, verið þessari tillögu meðmælt.

Þá er á þgskj. 506 tillaga frá öðrum nefndarmanni, háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), um að veita 25,000 kr. lán úr viðlagasjóði til áveitu úr Þjórsá á Skeiðin. Lánið ávaxtist með 41/2%, afborgunarlaust fyrstu 2 árin, og borgist síðan á 20 árum með jöfnum afborgunum. Nefndin hefir verið á móti því, að fara frekara í lánveitingar en orðið er, — það er orðið allálitleg upphæð, eitthvað um 140,000 kr., — en eigi að síður mun hún ekki gera þetta að neinu kappsmáli, því að það er áreiðanlega þarflegt fyrirtæki, sem hér er um að ræða.

Á þgskj. 488 fer háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) fram á, að hækka lánsheimildina til símalagninga um 10,000 kr. Hann hefir þar vafalaust fyrir augum, að Súgandafjarðarsíminn geti fengið það lán, sem óskað hefir verið. Nefndin er ekki með að bæta við þessar lánsheimildir, en mun þó ekki leggja beint á móti þessu.

Þá er enn á þgskj. 518 nokkrar br.till. frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.) um, að breyta lánskjörunum í 20. gr. Jafnvel þótt nefndin gæti fallist á að breyta lánskjörunum nokkuð, þá þykir henni hér of lagt farið, og getur ekki fallist á þessar till. eins og þær liggja fyrir. Nefndinni gafst ekki tími til að taka þetta mál til rækilegrar meðferðar, og skal eg ekki fara lengra út í það.

Þá hefi eg nú farið yfir þessar br.till., og er það leiðinlegt verk og líklega enn leiðinlegra að hlusta á. Kem eg þá loks að br.till. nefndarinnar sjálfrar á þgskj. 557. Þær eru að nokkru leyti orðabreytingar, og skal eg stuttlega gera grein fyrir þeim. Þriðji liðurinn er við 13. gr. B. (I. 2.) um, að hækka fjárveitinguna til Verkfróðra aðstoðarmanna um 2700 kr. seinna árið. Svo er mál með vexti, að fjárlaganefndin fekk í gær tillögu frá stjórnarráðinu um, að hækka þennan lið, og byggir stjórnarráðið þessa tillögu sína á erindi frá búnaðarþinginu, þar sem farið er fram á fjárveitingu til þess að hingað geti fengist vatnsvirkjafróður maður. Það hefir oft verið tilfinnanlegt, að hafa ekki slíkan mann til að standa fyrir etærri vatnsveitingafyrirtækjum og vörnum við vatnágangi, og hefir stundum þurft að fá útlenda menn til rannsókna á slíku, en þegar innlendir menn hafa verið brúkaðir, hefir mest verið leitað til verkfræðings landsins og hefir hann við það tafist frá öðrum nauðsynlegum störfum sínum. Nú hefir þetta verið borið undir verkfræðing landsins, og hefir hann komið fram með ítarlegt álitsskjal og leggur til að auka fjárveitingu til verkfræðings landsins, svo að hann geti bætt við sig verkfróðum manni, er verði honum til aðstoðar bæði í þessu augnamiði og svo við störf hans yfir höfuð. Telur hann heppilegra að sameina þetta, því að stundum sé mikið að gera við vegalagningar, en aftur stundum meira við vatnsveitingarannsóknir. Býst hann því við, að þetta verði sparlegra, og hyggur, að komast megi af með 2700 kr. á ári, 2000 kr. til aðstoðarmannsins og hitt til ferðalaga. Fjárlaganefndin felst á að taka þetta til greina, en álítur málið þó ekki svo undirbúið, að ástæða sé til að veita þessa viðbót fyr en seinna árið.

Fyrir nefndinni hafði legið beiðni frá skólastjóranum á Hvanneyri um styrk til smíðakenslu. Það var ekki við öðru að búast en að þessi beiðni kæmi fram, úr því að búið er að veita bændaskólanum á Hólum slíkan styrk, og því fremur mátti búast við þessu, þar sem skólastjórinn hefir þegar komið upp dálitlum vísi til smíðakenslu. Fjárlaganefndin hefir því fallist á að veita 600 kr. á ári í þessu skyni.

Þá er 6. breyt.till. nefndarinnar við 14. gr. Hún fer í þá átt, að taka unglingaskólana á Núpi, Ísafirði og Seyðisfirði og skólann á Hvítárbakka, og slengja þeim saman við aðra unglingsskóla, þannig, að til þeirra allra sé veitt ein fjárhæð, og er hún hækkuð um það sem þessir fjórir skólar hafa haft samtals. Er þetta gert til að koma meiru samræmi á þessu. efni eftirleiðis. Fyrir þessu eru færðar nokkrar ástæður í framhaldsnefndarálitinu, og skal eg ekki orðlengja meira um það. Eg vona, að þeir háttv. þm., sem hlut eiga að máli fyrir hönd þessara skóla, geti fallist á þetta, því að það á hvort sem er ekki að saka þá neitt.

Viðvíkjandi 15. gr. fer nefndin fram á þá breytingu, að fé, því sem samþykt var við 2. umr. að veita til samningar handritaskrár, megi einnig verja til þess að halda áfram samningu spjaldskrár. Nefndinni hefir verið skýrt frá, að það sé nauðsynlegt að halda þessu verki áfram, og í öðru lagi, að til sé maður, sem geti leyst verkið af hendi, og vildi nefndin ekki hafa á móti því.

Þá eru 8. og 9. liður í brtill. nefndarinnar að eins til að breyta formi, og vona eg að allir fallist á að það sé til bóta. Það þurfti að færa fyrirsögnina á 16. gr. til samræmis við efnið, og að öðru leyti til að gera niðurröðun liðanna eðlilegri og heppilegri. 10. liðurinn er um að veita 2500 kr. til húsabóta á skógræktarjörðinni Vöglum. Landssjóður á þessa jörð, en skógarvörðurinn, sem þar býr, á við svo léleg húsakynni að búa og þröng, að slíkt er fádæmi. Eg hefi oft komið þangað og er þessu kunnugur, og tel eg ómögulegt fyrir manninn að haldast þar við nema umbót sé gerð á byggingunni, en óhugsanlegt að hann byggi sjálfur. Það er góður og gegn maður, sem í hlut á, og hefir hann sagt, að hann færi í burt ef hann fengi ekki betri húsakynni. Stjórnarráðið hefir lagt þessa breyt.till. fyrir fjárlaganefndina, og nefndin hefir fallist á hana.

Þá er næsti liður sömuleiðis eftir tillögu stjórnarráðsins um styrk til dýralækningabókar. Það stendur nú á samningi þessarar bókar, svo að styrkurinn, sem nú er á fjárl., verður ekki notaður fyr en eftir lok fjárhagstímabilsins. Það hefir enn fremur komið í ljós, að bókin verður miklu stærri og þar af leiðandi dýrari heldur en við hafði verið búist, og er því farið fram á 900 kr. atyrk til útgáfunnar, en þar af eru 300 kr. bara endurveiting.

Loks hefir Búnaðarfélag Íslands skorað á þing og stjórn að veita styrk til leiðbeiningar í húsagerð til sveita. Það vill nú svo til, að hér er nú til maður, sem áður var timbursmiður, en hefir dvalið 5 ár erlendis og lagt sig eftir húsagerð sérstaklega, svo að það er hægt að benda á mann, sem getur tekið þetta að sér nú þegar. Stjórnarráðið hefir farið fram á nokkru hærri fjáveitingu hvort árið í þessu skyni, en nefndin hefir leyft sér að gera það að tillögu sinni að veita 1000 kr. Það er sú minsta upphæð, sem hægt er að komast af með, og vona eg að háttv. þingmenn verði ekki á móti þessari litlu en þarflegu fjárveitingu.

Þá skal eg vekja athygli á því, að breyt.till. við 18. gr. stafar af því, að ekkjufrú Anna Johnsen er dáin fyrir 3–4 árum, og sýnist því vera tilgangslítið að veita henni styrk á fjárlögum. Eg skal geta þess, að talan 750 kr. er prentvilla, á að vera 150 kr.

Þá hefir nefndin leyft sér að koma fram með breyt.till. um, að óviss útgjöld Verði hækkuð úr 8000 kr. upp í 18000 kr. Þetta er hækkun, sem ekki verður hjá komist, og stafar hún af uppbót til Sameinaða eimskipafélagsins á kolaverðtolli.

Eg ætla svo ekki að tala fleira að sinni, og eg vona að eg þurfi ekki að taka aftur til máls, fyr en þá ef til vill í endalok umræðunnar.