23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í C-deild Alþingistíðinda. (1133)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson:

Mér hefði þótt gaman að rekja feril fjárlaganefndarinnar og Stefnu hennar í tillögum hennar um fjárveitingar. En tíminn hefir ekki enst mér til þessa, og verð eg því að sleppa því. En þegar mér entist ekki tími til að rekja feril nefndarinnar, þá skilst mér líka, að henni hefir heldur ekki enst tíminn til að rekja þær götur, er greiðastar voru. Því miður get eg ekki gert þetta, sem bæði hefði getað verið til gamans og gagns. Vil eg því láta mér nægja að fara nokkrum orðum um breytingartillögurnar. Vil eg þá fyrst tala um þær. sem bornar eru fram af öðrum mönnum, og svo á eftir minnast á minar eigin.

Það er þá fyrst brtill. á þgskj. 520. Hún fer fram á, að 700 kr. verði veittar til að gera steinsteypubrú á Þverá hina syðri í Eyjafirði. Eg er eindregið m eð þessari brtill., og vil eg minna menn á, að það var fyrir mína hand vömm, að hún var ekki samþykt við 2. umr. Eg vissi ekki af því fyr en of seint þegar hún var borin upp. Bað eg þá skrifara að telja mig með þeim, sem samþyktu hana, en hann taldi sér það ekki fært. Þetta segi eg að eins svo menn skilji, því eg ekki greiddi atkvæði mitt með henni við 2. umr. Er því full ástæða fyrir mig nú að greiða atkvæði mitt með henni. Og það mun eg gera.

Breyt.till. á þgskj. 518 frá 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um lán úr viðlagasjóði, að lánin séu veitt gegn 5% vöxtum, í stað 4%. Þessari breyt.till. ætla eg að fylgja. Er það auðsætt að háttv. þm. Skagf. hefir reiknað þetta með skynsemd, og að með svona lánum er land

ið ekki að gefa neitt. Því ef landasjóður tekur lán með 41/2%, þá er hann skaðlaus að lána með þessum kjörum. Þennan reikning tel eg réttan þangað til háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) getur fært mér heim sanninn um það að hann geti reiknað það betur. — Nú, það er leiðinlegt að þingmaðurinn er ekki við. Og eg sé að svo er um fleiri, sem eg þyrfti að tala ögn við. Enn -jæja, það verður þá að hafa það.

Breyt.till. háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) á- þgskj. 502 um aukinn styrk til mótorbátsferða á Hvítá í Borgarfirði er í alla staði sanngjörn. Á Hvítá eru bátsferðir örðugar vegna útfiris og erfiðs straums. Og er ekki of mikið þó 500 kr. yrðu veittar til þeirra bátsferða í samanburði við aðrar fjárveitingar.

Þá vil eg veita mitt orðafulltingi brt. á þgr,kj. 549 frá háttv. þm. N.-Þing. (B. SV.) og 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.) um að veita 1000 kr. hvort árið til þess að afskrifa og ljósmynda skjöl í útlendum skjalasöfnum, er snerta Ísland.

Tel eg fullkomna nauðsyn á að þetta fé verði veitt. Skjalasöfn Dana hafa neitað að lána hingað skjöl, sem við verðum því að afrita þar, eða taka ljósmyndir af, sem eg tel það bezta. Annars er þetta byrjunin til töluverðra útgjalda fyrir landssjóð, svo framarlega sem Árna Magnússonar safnið verður ekki flutt hingað, og verðum við því að ljósmynda alt í því safni — ekki alt í einu, heldur smám saman, og mun því að líkindum þessi útgjaldaliður standa í mörg ár á fjárlögunum. Eg nefni þetta af því eg hygg að ekki muni mörg þing líða þangað til þetta atriði verður tekið fyrir.

Á þgskj. 544 .leggur 2. þm. G.-K. (B. Kr.) það til, að hækkaður verði skáldastyrkur Guðm. Guðmundssonar úr 1200 kr. upp í 2000 kr., eða til vara upp í 1600 kr. Vil eg mæla ið bezta með þessari breyt.till. Hefi eg ekkert skilið í því, hví Guðm. Guðmundsson skuli hafa verið settur skör lægra en hin skáldin. Ekkert skáldanna okkar er þó formfegurra en hann, ekkert frjóvsamara, og ekkert lyriskara. Og nú hefir hann fyllilega náð þeim þroska, sem hin skáldin hafa náð. Vil eg mínu máli til sönnunar nefna: Friður á jörðu og Ljósaskifti. Þó mér hugni ekki vel hið fyrra, þá er það þó vel gert, frá skáldlistarinnar sjónarmiði. Mér hugnar það ekki af því að mitt hugrenningalíf er ekki á því svæði. Það er ekkert við það athuga frá listarinnar og skáldskaparins sjónarmiði. En Ljósaskifti er verk, sem fá eða engin verk íslenzkra skálda geta tekið fram. Ef það er ætlun þingsins, að hætta að veita svona styrk, þá ætti það nú að hækka í þetta sinn, til þess að bera eins og svanurinn, sem syngur fegurst þegar hann er að bana kominn.

Ein breyt.till. er frá háttv. 1. þm. Rang. (E. J.), sem eg er á móti. Það er styrkur til kaupfélaganna Ingólfs og Heklu til þess að hafa sjálfrenninga í förum á vegunum eystra. — Það orð er bezta orðið, sem eg þekki yfir þá vagna, sem hafa hreyfivélina í sjálfum sér.

Ekki er nú svo að skilja, að eg hafi á móti samgöngubót, þeirri sem er að þessum flutningjatækjum. En við 2. umr. var eg einnig á móti því, að Sveinn Oddson fengi styrk, þann sem þá var talað um til þessa. Og það er af því, að eg álít styrkinn of háan í samanburði við ferðirnar. Það er ekki. svo litið, 5 þús. kr., og engum skilyrðum bundið. Landið gæti sjálft keypt sér ágætan vagn fyrir þetta og haldið honum í ferðum og grætt á því. Eg tala nú ekki um það, ef fyrst á að gefa Sveini fyrir einum vagni og svo þessum félögum fyrir öðrum. Það eru til Íslendingar, Sem kunna að fara með sjálfrenninga., og eg þekki einn, sem verið hefir í Stafangri og hefir skrifað mér þaðan, og vildi eg heldur vísa landssjóði á að taka hann í sína þjónustu, en að vera að gefa mönnum vagna. Flutningar þessir eiga að geta borgað sig sjálfir, og þá ætti sízt að þurfa að styrkja þá að öllu. Þeir sem hafa haft þá með höndum í sumar, hafa tekið margfalt verð við það sem tíðkast ytra, t.d. í Danmörku og Noregi. Þar borga eg 2 kr. á klukkustund fyrir vagninn allan, og get verið við 4. mann, en þessir menn taka 4 kr. af hverjum manni á þeim tíma, og hafa þá 16 kr. upp úr vagninum. Þetta ætti að geta borgað sig, jafnvel þótt það væri lækkað dálítið, og 5 þús. kr. eru ekki lengi að koma með þessu lagi. Þó að vagnar þessir séu góðir og þægilegir, þá hygg eg að kaupa megi þá »pípu« of dýrt, eins og aðrar.

Ein till. frá háttv. nefnd á þgskj. 557 er þess efnis, að kosta verkfróðan aðstoðarmann til þess að mæla fyrir menn vatnsveitur, og hygg eg að það sé þarft fyrir búnaðinn, að þeir sem þess þurfa, geti fengið slíkan mann til þess að skoða þess háttar fyrir sig, og aftra því,. að lagt sé út í það sem óráðlegt er, en leiðbeina til þess sem er framkvæmanlegt. Alt slíkt ætti ætíð að vera áætlað helzt löngu áður en í fyrirtækin er ráðist, og væri gott að hafa skrá yfir staði þar sem vatnsveita á að koma, og hvernig henni á að hátta. Þótt menn gætu eigi ráðist í verkið þegar, þá fengju þó þeir sem selja og kaupa eignir hér á landi miklu réttari hugmynd um verðgildi þeirra eftir en áður, því að það hleypir stórum fram verði hvers staðar, ef hann liggur vei við vatnsveitu. Eg ætla að Eggert bóndi Eiríksson Briem hafi fyrstur hreyft þessu hér á búnaðarþingi, en það litlar undirtektir fengið. Því er það nú vel, að háttv. nefnd hefir komið því hingað, og gott er að þessi maður sé í samráði og samvinnu með landsverkfræðingnum. Hann getur þá unnið með honum að öðru, ef hann hefir lítið að gera við þetta og er það sparnaður. Eg skal ekki fara mörgum orðum um br.till. um, að færa saman styrkinn til unglingsskólanna. Það var mín till., og gleður það mig, að nefndinni hefir unnist tími til að koma henni að.

Þá kem eg að till. um húsagerð. Allir vita, hve mikils virði það er, að kunna að byggja vel og haganlega. Nú hafa flest hús á landi voru verið bygð upp á síðustu 30 árum, og hafa menn lært á því, að það er hér um bil sama sem að fleygja peningum sínum í sjóinn, að verja þeim í timburhús, sem fúna og falla á fám árum. Það hefðu þeir aldrei gert, ef þeir hefðu þá kunnað að steinsteypu, eða þorað að trúa því, að torfbæir séu betri en timburhús, og að einhver skynsemi sé í þúsund árá gömlu byggingarlagi voru, og að ekki hafi allir, sem það höfðu, verið það heimskari en þeir sem nú lifa.

Eg þekki mann, sem heitir Jóhann Franklín Kristjánsson og dvalið hefir í Noregi og numið þar húsagerð. Hann hefir góð meðmæli kennara sinna og er eljumaður mikill. Talaði eg við hann í Osló og fann, að hann er greindur maður, áhugamikill og óeigingjarn í öllu sínu æði, og ef hann fær að lifa, mun hann vinna almenningi mikið gagn. Og það er gott að háttv. nefnd hefir viljað sinna þessu, því að ekki hefði verið von á jafnmiklu fylgi, ef eg hefði flutt það einn.

Þá hefi eg það að athuga við 15. liðinn í br.till. nefndarinnar, að það væri nógu gaman að vita, hvort þessari konu hafa verið sendir þessir peningar, ef hún er dáin fyrir 3 árum. Veitingin stendur í fjárlagafrumv., og gæti verið, að þetta hefði ekki verið fullkunnugt fyrra árið, en síðara árið hefði féð átt að vera endursent.

Svo man eg nú ekki eftir fleiri br.till. frá öðrum, sem eg vildi veita orðafullting, þótt eg ef til vill kunni að greiða atkvæði með fleirum. En það yrði seint, ef hver maður vildi tala um allar brt.

Eg get verið stuttorður um br.till. við 6. lið 12. gr., því að þar er nefndin með. Þá eigum við br.till. á þgskj. 489, háttv. þm. Snæf. (H. S.) og eg, um að veita 10 þús. kr. á ári til Breiðafjarðarbátsins. Eg talaði um það við 2. umr., og vona eg, að háttv. þm. muni það, enda hefir háttv. meðflutn.m. minn líka talað um það. Eg tók þá br.till. aftur, eftir till. nefndarinnar.

Aðra br.till. á eg á þgskj. 558, ásamt háttv. þm. N.-Þing (B. Sv.), þess efnis, að breikkaður verði vegurinn í Kömbum, svo að ekki sé lífshætta að fara hann á sjálfrenningi, og hefir hv. meðflutn.m. minn talað fyrir því.

Þá á eg br.till. á þgskj. 525. Þar legg eg til, að styrkurinn til Jóh. S. Kjarvals málara verði hækkaður úr 800 kr. upp í þús. kr. fyrra árið. Mér kom það á óvart og þótti leitt, að hv. deild skyldi vilja neita þessum manni um hæfilegan námsstyrk, þar sem hann mun vera sá efnilegasti, sem við eigum í þeirri grein. Meðferð hans á litum er svo ágæt, að heita má einsdæmi um mann, sem eigi hefir haft meira tækifæri en hann til þess að nema slíkt. Gott dæmi þessa er það, að þegar hann var um tíma í London fyrir nokkru, þá gerði hann þar mynd eina með vatnslitum og náði þegar í hana nákvæmlega þessum enska þjóðlega blæ, sem varla þekkist annarstaðar. Því er sem sé svo farið, að ýmsar þjóðir eiga sinn sérkennilega blæ á málverkum, sem aðrir hafa ekki. Það er því sýnilega marghæfur maður, sem nær slíku svo fljótt, og má búast við miklu af honum. Hitt eru engin undur, þó að sjá megi galla á verkum hans. Hann er að byrja að læra, og til þess sækir hann um styrk. Væri hann fullnuma orðinn, þá þyrfti hann ekki þess með, en það er sjálfsagt, að styrkja, þegar gáfurnar sjást svona tvímælalaust. En sem stendur eigum vér engan, sem málar andlistmyndir, sem að teljandi sé, en þessi maður ætlar einmitt að gera það að aðalstarfi sínu. Meðal annars hefir hann nýlega gert vangamynd af mér, og er hún alllík og vel lifandi, og ber, eins og flest frá hans hendi, auðkenni listamanns, sem kann að lífga verk sín, og þegar svo er um 3 eða 4 fyrstu vangamyndirnar hans, þá er við góðu að búast í framtíðinni. Og þessi maður ætlar að sýna oss Íslendingum það, sem vér eigum fegurst í endurminningum þjóðar vorrar og klæða það holdi og blóði. Þá eigum vér ekki lengur þær myndir í hugskoti voru eingöngu, heldur í sýnilegu gervi frá hendi góðs listamanns. Þessi viðbót, sem eg fer fram á, er ekki nema 200 kr. fyrra árið, en lítið dregur vesalan, og svo er um þennan mann, sem orðið hefir að éta kálmeti í vetur til þess að geta lifað. Það kostar ekki nema 20 kr. á mánuði, en ekki verða menn feitir af því.

Eg hverf nú frá þessu að sinni, og sný mér að styrknum til Ríkharðs Jónssonar. Þessi 2. liður br.till. minnar á þgskj. 225 er tekinn aftur, af því að hann er þar ekki réttur að formi til, en kemur inn í atkv.skrá í sama stað af öðru þgskj., þar sem miðað er við 1000 kr. síðara árið til Rómferðar. Það hefir einhvern tíma verið sagt eitthvað á þá leið um latínuna, að enn stjórni hún hálfri Evrópu úr gröfinni, drambsöm, köld og stirð. Og kunnugt er það, hve mikil áhrif hún hefir haft á bókmentir vor Íslendinga og annara þjóða siðan á miðöldum. Má vera, að vér getum komist af án grísku og latinu, en hitt er víst, að hvorki vér né aðrar þjóðir komast af án grískrar og latneskrar menningar og lista. En leifar þeirra eru, svo sem kunnugt er, hvergi fleiri saman komnar, en í Rómaborg, og því er það, að enginn listamaður má án þess vera, sér að skaðlausu, að koma þar og dvelja. Þar er þeirra fyrirheitna land og þar er alt sem dýrast er af fornlistinni, sem enn þá stendur jafnfætis því, sem hefir gert verið síðan, og hefir meira að segja drotnað svo yfir listasmekk manna á öllum öldum, að varla hefir verið annað meira að hafst, en líkja eftir henni.

Einn af fám, sem ekki hafa stælt hana beinlínis, er Einar Jónsson frá Galtafelli, sem er einkennilega sérstæður og íslenzkur í list sinni. Það skyldi því engan furða á því, þótt eg vilji bæta þessum krónum við Ríkharð í þessu skyni. Því að Rómferðir eru enn meira áríðandi fyrir list nútímana, en þær voru fyrir sálir manna á miðöldunum, og þóttu þær þó eigi óþarfar: »Tvisvar hefir hundur þinn runnið til Róms, og myndi renna ið þriðja sinn«, stendur þar.

Önnur ástæðan til þess, að veita nú þennan styrk, er líka sú, að fái maðurinn hann ekki nú, þá fær hann hann á næsta þingi, þar sem hann er svo efnilegur sem hann er og fjárveiting til hans hefir fengið svo góðar undirtektir hér á þingi. Og þá verður honum sennilega ekki áætlað minna en 1800–2000 kr., því að hann verður þó að vera þar eitt ár eða meira. Annars hefir hann engin not fararinnar. Listamenn mega ekki hegða sér eins og ferðamenn, þannig, að þeir þjóti þreyttir frá einu til annars, til þess eins, að þeir geti sagt að þeir hafi séð alt. Eins og eg hefi sagt, er það ekki annað en sparnaður, að veita manninum þessar þús. kr. nú, því að til þess níundi hann klífa þrítugan hamarinn, að láta sér það nægja, en meira fengi hann síðar. Vona eg því að þetta nái fram að ganga, þar sem nefndin hefir eigi mælt á móti því sérstaklega, en betra hefði þó verið ef hún hefði viljað fylgja því eindregið.

Þá er enn breyt.till. á þgskj. 525, 3. lið, um að hækka styrkinn til Íþróttasambands Íslands um 300 kr. á ári. Það er gert til þess, að Erlingur Pálsson geti komist utan til þess, að sjá þar aðferðir og æfingar manna í þeirri íþróttagrein, sem hann er nú fremstur í allra manna hér á landi, en það er sund.

Sundiþróttín er svo nytsöm íþrótt, að ekki verður sagt, að það sé of mikið þó að landssjóður leggi til hennar 500–600 kr. Það er að minsta kosti ekki of mikið, þegar það er borið saman við það, að konu hér í Reykjavík er veitt álíka upphæð til að kenna almenna leikfimi, og karlmanni sama upphæð í sama skyni. En samanburðurinn verður dálítið leiðinlegur, ef sundíþróttin kemst ekki í hálfkvisti við leikfimina, sem hver maður getur þó lært af sjálfum sér af sænskum leikfimisbókum. Þessa tillögu ætla eg samt að taka aftur, af því að önnur tillaga í líku skyni hefir verið borin fram, svo að eg vissi ekki af. Hún fer fram á, að styrkurinn til Íþróttasambands Íslands verði hækkaður um 500 kr., til þess að gera því bært að styrkja Erling til utanfarinnar.

Þá kem eg að tillögu minni um, að Alþingi veiti alt að 4000 kr. til þess að gefa út á þýzka tungu bók Einars. háskólakennara Arnórssonar er nefnist »Réttarstaða Íslands«. Till. er á þgskj. 524. Eg heyrði ýmislegt undarlegt af munni háttv. framsögum. fjárlaganefndarinnar (P. J.) um þessa tillögu mína. Hann sagði, að fjárlaganefndin gæti ekki verið með þessari fjárveitingu. Eg varð alveg forviða á þessu, því að eg veit ekki, hvað er sjálfsagt, ef það er ekki þetta, þar sem það er ekki annað en endurveiting á styrk, sem staðið hefir í fjárlögunum í sama skyni, en komst aldrei til skila, líklega fyrir það, að handrit bókarinnar var ekki tilbúið nógu snemma. Annars er mér ekki vel kunnugt, hver ástæðan var, í raun og veru. Eg býst við, að háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) viti það betur, því að hann var þá. ráðherra. Eg undrast þess vegna, að fjárlaganefndin skuli í einum halaklepp leggja á móti þessari fjárveitingu. (Lárus H. Bjarnason: Það er ekki sagt) Jú, það var sagt, en það kann vel að vera, að það sé ekki satt, þykir mér trúlegt. Háttv. framsm. (P. J.) talaði mikið um, að menn þyrftu að vita, hvernig bókin væri úr garði gerð, og að ekkert væri í henni, sem okkur gæti orðið til skaða, áður en farið væri að veita fé til að þýða hana á útlenda tungu. Þingmenn hefðu ekki lesið bókina og gætu því ekki dæmt um hana o. s. frv. Þetta kann að vera rétt, en eg benti á, í erindi mínu til þingsins um þessa fjárveitingu, að allgóð trygging fyrir verðleikum bókarinnar væri fólgin í því, að verðlaunanefnd Jóns Sigurðssonar hefði veitt henni verðlaun. Eg hygg, að menn geti nokkurn veginn rólegir treyst Birni háskólakennara Ólsen — og það því heldur, sem hann er mótstöðumaður höfundarins í sumum atriðum, — að hann mundi ekki hafa hlaupið til að verðlauna bókina, ef hún væri eitthvert afhrak eða fjarskalega hættuleg. Annars lét eg fylgja erindi mínu bréf frá Gjelsvík háskólakennara í Oslo, sem er sjálfsagt fremstur vísindamanna á Norðurlöndum í þjóðarrétti eða stendur þar að minsta kosti jafnfætis hverjum öðrum. Hann segir í bréfi sínu, að erfitt muni vera að hrekja sannanir Einars, að Ísland sé að réttum lögum frjálst og fullvalda ríki. Eg get ekki skilið, að háttv. framsm. (P. J.) eða nefndinni þætti það ægilegt, þó að kunnugt yrði meðal erlendra þjóða, að Íslendingar væru frjáls og fullvalda þjóð að réttum lögum. Eg hygg, að það sé ekki að eins gott og nauðsynlegt, heldur muni hvert mannsbarn á landinu heimta, að þetta fái að breiðast út um heiminn, og það því fremur, sem danskir málrófsmenn skrifa langar bækur, fullar af munnskólpum, um sama efni og geta út á þýzku. Því fremur er ástæða til, að málið rétt rakið komi fyrir sjónir þýzkra manna og annara þeirra er þýzka tungu skilja. Eg nefndi í erindi mínu til þingsins, að það væri ekki lítilsverður stuðningur fyrir okkur í sjálfstæðisbaráttunni, ef við fengjum viðurkenningu vísindamanna út um heim, fyrir því, að kröfur okkar væru réttmætar, ekki að eins frá siðferðislegu sjónarmiði, heldur einnig frá sögunnar og laganna sjónarmiði. Siðferðislegan rétt til sjálfstæðis eiga allar þjóðir, en sá réttur er miklu siður viðurkendur en réttur sögunnar og laganna. Ef sá réttur okkar er sannaður, getum við átt von á orðafulltingi frá þeim er jafnvel undiroka aðrar þjóðir, t. d. Englendingum. Írland er hertekið land, og sá galli er á þjóðarréttinum enn þá, að það er talið réttmætt, að leggja undir sig lönd með því móti. Ef við bygðum kröfur okkar á náttúrlega réttinum einum, gætum við ekki átt von á stuðningi Englendinga, því að þeir mundu óttast, að Írar kæmu á hælana á okkur. En ef við gætum sýnt fram á, að við ættum fullkominn rétt til sjálfstæðis, að sögunnar og laganna dómi, þá gæti ekkert aftrað þeim frá að veita okkur sitt fulltingi, einkum þar sem skjöl frá árinu 1818 eru geymd í Lundúnum, sem sanna, að Danir tóku Ísland með engum rétti. Þeir gerðu tilraun til að semja um það, en úr þeim samningum varð ekkert. Eg hefi bent á þetta til þess að sýna fram á, hvað þeir menn eru að gera, sem vilja neita um þessa fjárveitingu. Eg vil, að hver maður undirskrifi gerðir sínar í þessu máli með nafnakalli. Eg hygg að það verði lengi í minnum haft, ef menn neita þessu. Eg fyrir mitt leyti er feginn að láta það ekki ganga til þeirra er á eftir mér lifa, að eg taki í málið eins og þeir menn gera. Eg mun hvorki hér né síðar draga úr því ámæli, er þeir menn eiga skilið, sem leggjast á móti þessu.

Þá á eg aðra brtill. á sama þgskj. (524) við 15. gr. 23. Þar hefir orðið prentvilla, á að standa 23 a í stað 23. Þetta hefi eg beðið hæstv. forseta að leiðrétta, og hefir hann lofað því. Það var ekki ætlun mín að fara fram á að fjárveitingin til málverkakaupa yrði feld burtu, eins og fjárlaganefndinni hefir skilist. Þessa till. hefi eg borið upp með tilliti til þess, sem eg gat um við 2. umr., að Einar Jónsson er í vandræðum með að geyma verk sín, og að landið þarf að eignast þau. Að atkvæðagreiðslan um daginn féll svo, að honum var neitað um 4000 kr. styrk til að flytja þau heim og gefa þau landinu, skildi eg svo, að landið vildi ekki þiggja þau að gjöf, heldur kaupa þau sanngjörnu verði. En til þess þarf ríflegri upphæð en einar 1200 kr. á ári — þá upphæð, er Einari Jónssyni hefir verið gefið til styrks áður. Það er ekki hægt að fá mikið af listaverkum fyrir 2400 kr.

Þá er líka að líta á það, að við eigum annan ungan og efnilegan mynd höggvara, sem við þyrftum að kaupa eitthvað af. Ef honum verða nú veittar 1000 kr. til Rómferðar, sem eg tel sjálfsagt að öllum komi saman um, þá ætti ekki illa við, að við keyptum af honum listaverk fyrir 400–800 kr. En eg tel rétt, að Einar Jónsson verði látinn sitja fyrir aðalupphæðinni. Eg tel fulla ástæðu til að binda þessa fjárveitingu við nafn, og er það þó ekki af því, að eg tortryggi stjórnina. En sá maður, sem þá fer með stjórnina, hefir sinn smekk, og við eigum ekki víst, að honum verði svo ríkt í huga að ná í einkennileg íslenzk listaverk í safn, að hann láti Einar Jónsson sitja fyrir öðrum. Hann mundi, ef til vill, kaupa það sem honum þætti sjálfum fallegast, t.d. afsteypur af verkum Alberts Þorvaldssonar. En segi bæði stjórnin og fjárlaganefndin skýrt og skorinort, að myndir Einars Jónssonar verði víst keyptar, þá hefi eg ekkert á móti því, að orðalaginu verði breytt.

Mér hefir aldrei komið til hugar að vilja fella burtu fjárveitinguna til málverkakaupa. Eg hafði hugsað mér að bera fram till um, að veittar yrðu 5000 kr. hvort árið nú á fjárlögunum til þess að kaupa fyrir listaverk. Þetta mun vera nálægt því. Það var gleymsku minni um að kenna, að eg skrifaði ekki stjórninni um þetta áður en hún samdi fjárlögin, því að það hafði og ætlað. Hafði eg fengið ýmisleg drög, sem til þess voru nauðsynleg, og er eg vísa um að stjórnin hefði þá tekið þessa fjarveitingu upp í frumv. En þetta dróst úr hömlu fyrir mér þangað til fjárlaga frumv. var fullsamið Þetta sýnir, að mér hefir ekki dottið þetta í hug núna af neinni sérstakri ástæðu, og að það var ekki ófyrirsynju að eg þakkaði fjárláganefndinni till. hennar um þetta efni. Og þeirri tillögu hennar er eg ekki að breyta, heldur er eg að fullkomna hana.

Enn á eg smábreytingartill. við 16. gr., sem eg þarf að geta um. Hún fer fram á að Þorvarði hreppstjóra Bergþórssyni að Leikskálum í Haukadal verði veittar 500 kr. fyrra árið, í viðurkenningarskyni fyrir dugnað og langa þjónustu. Háttv. framsögum. (P. J.) vildi gera þetta óvinsælt með því að kalla það gustukaveitingu. Eg get ekki fallist á þetta, því að fégjafir eru alment taldar fullkomlega sómasamlegar, hvort sem þær eru frá Alþingi eða öðrum. Efri deild ætlaði jafnvel um daginn að veita Steingrími heitnum Thorsteinsson 4000 kr. í þakklætisskyni fyrir alt hans starf í þarfir íslenzkra bókmenta, en var aftur á móti tregari til að veita honum full laun, það sem hann ætti eftir ólifað. Fégjöfin þótti henni lýsa meiri virðingu. Nú hefir Drottinn hagað því svo, að enginn þarf að naga sig í handarbökin yfir því fé, sem þessum manni var veitt. En svo að eg hverfi aftur að Þorvarði, þá get eg ekki skilið, að honum sé það til vansæmdar, sem þjóðskáldi er talið til mikillar virðingar. Líka get ég nefnt Torfa í Ólafsdal. Ellistyrkur hans er ekki annað en fégjöf fyrir mikið og þarflegt starf í þarfir fósturjarðarinnar. Og þannig gæti eg haldið áfram að telja. Vel má minna á það, að samþykt hefir verið að gefa sýslumanni einum og hreppstjóra fé fyrir að hafa flækst óvart til annara landa. Mér skilst, að það hljóti að vera ánægjulegt fyrir bændur, er sitja á þingi, að veita smáviðurkenningar ágætum búhöldum, er verið hafa bjargvættir manna, er mikið hefir legið á. Og það hefir þessi maður verið. Í bréfi mínu til þingsins vísaði eg á mann, sem getur sannað að eg fer rétt með það sem eg segi um Þorvarð gamla. Það er Halldór yfirdómari Daníelsson, sem var sýslumaður um eitt skeið í Dalasýslu og er þessum góða manni nákunnugur. Enn vil eg telja honum það til ágætis, að hann hefir alið upp 20 börn, af 25 sem hann hefir eignast. Margir synir hans eru nú búandi bændur þar í Dalasýslu. En það þarf ekki að vera, að þeir séu svo auðugir, að þeir eigi hægt með að standa straum af föður sínum. Það hefir gengið mikið af honum upp á síðkastið, því að hann er hættur að geta unnið fyrir sér og sínum með þeirri atorku, sem hann gerði áður. Auk þess var hann blindur um nokkurra ára skeið. Þessi fégjöf gæti því komið sér vel fyrir hann, auk gleðinnar, sem hann mundi hafa af viðurkenningunni. Eg vona að háttv. deildarmenn taki till. vel.

Eg held að eg verði að biðja háttv. forseta að leyfa mér að geyma síðari hluta ræðu minnar þangað til síðar. Eg á einn lítinn lið eftir, sem heitir við- skiftaráðunautur, og um hann þarf eg að segja nokkur orð.

Fundurinn hafði nú staðið í 3 klst., og var honum nú frestað þangað til kl. 5 síðd.

Klukkan 5 síðd. var fundur settur aftur og umræðum haldið áfram.