23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í C-deild Alþingistíðinda. (1140)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Kristinn Daníelsson:

Breyt.till. mínar hafa ekki haft mikinn byr hjá háttv. framsögum., fremur en allflestar aðrar brt., sem fram hafa komið við þessa umr. Þetta kann að vera eðlilegt frá sjónarmiði nefndarinnar, sem vill hafa alla varúð og gætni um fjárhag landsins og vili henni þá verða þa8 að lokum, að leggja allar brtill. undir sama hnifinn. Eg efa nú að þessi aðferð sé heppileg hjá háttv. nefnd, því að flestar eru þó tillögurnar komnar fram að brýnni þörf landsmanna. Það væri því æskilegra, að nefndin hefði getað tekið nokkuð fleiri tillögur úr, sem hún gæti fallist á og vænta má að muni þó fram ganga ýmsar. Það ætti að mega sín mikils, sem fjárlaganefndin leggur til, og , geta verið til leiðbeiningar fyrir þingmenn, þegar þeir eru í vafa, hverju þeir eigi að greiða atkvæði. Þeir munu þá helzt vilja fylgja nefndinni, en þegar þeir sjá að hún sker alt við eitt trog, þá verða þeir efablandnir um réttdæmi hennar. Hún ætti því að sýna dálitla tilhliðrunarsemi og þá væri hún því vissari um að þingmenn greiddi atkvæði tillögum hennar. Þegar eg hefi gert grein fyrir þessum tillögum, sem eg hefi komið fram með, Vona eg að bæði nefndin og háttv. framsögum. getí orðið þeim hlynt. Þær eru fjórar alls.

Fyrsta brtill. er á þgskj. 538 við Í3. gr. Hún er frá mér og háttv. samþingismanni mínum um styrk til brúargerðar á Ártúnsá á þjóðveginum á Kjalarnesi. Eg bar fram nokkuð svipaða , brtill. Við 2. umr. Háttv. framsögum. sagði, að. þetta væri sama tillaga og þá var feld, og væri hún því í rauninni, óréttmæt. En þetta er ekki rétt hjá háttv. framsm. Bæði er það, að upphæðinni er breytt — hún færð niður og sömuleiðis er það skilyrði sett fyrir styrkveitingunni, að héraðið leggi fram allan þann kostnað, sem á vantar. Verkfræðingur hefir að vísu gert kostnaðaráætlun þessu viðvíkjandi, en oft mun það reynast svo, að þessar áætlanir séu of lágar og meira fé þurfi. En nú er með brtill. loku skotið fyrir það, að um það verði sótt. Og þar sem hér er ekki að ræða um meira en 3800 kr., sem ekki á að leggja fram fyr en síðara árið, þá vona eg að háttv. deild verði ekki á móti því að leggja þetta fé fram til brúargerðar á þjóðvegi, sem landssjóður á að kosta — en héraðsbúar samt vilja leggja nokkuð á sig fyrir. Og þar sem tillagan við 2. umr. að eins féll með jöfnum atkvæðum, þá vona eg að undirtektirnar verði betri nú. Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þessa brtill.

Þá er 2. brtill. á þgskj. 539, og fer fram á fjárveitingu til Grindavíkurvegarins síðara árið. Nauðsynina á þessari fjárveitingu hefi eg sýnt fram á áður og skal ekki endurtaka það — en eg verð að ítreka það, að þessi vegur hlýtur að koma, og sveitin verður að róa að því öllum árum, að hann komi sem fyrst, þar sem þetta björgulega sjópláss verður að öðrum kosti útilokað frá öllum samgöngum, bæði á sjó og landi. Eg fór fram á dálítið hærra tillag áður, og þar sem það að eins féll með jöfnum atkvæðum og nú er slegið af kröfunum, þá vona eg að þessi brt. sé ekki borin fram ófyrirsynju.

Þá verð eg að minnast á brtill. á þgskj. 508, sem eg og nokkrir aðrir háttv. þm. höfum leyft okkar að koma fram með. Hún fer fram á það, að veittur sé 50 þús. kr. hvort árið til þess að kaupa hluti í Eimskipafélagi Íslands.

Háttv. þingmenn skilja víst, hvers vegna þessi tillaga er komin fram, og leyfi eg mér að vona, að þeir verði mér samdóma um nauðsynina á henni. Hún er sprottin af því, að samgöngumálanefndin hafði lagt það til, að 400 þús. kr. yrðu veittar til hlutakaupa í Eimskipafélagi Íslands. Tilætlun hennar var sú, að þetta fé væri veitt með því skilyrði, að félagið tæki að sér strandferðirnar jafnframt, og var meiningin að 300 þús. kr. gengju til þeirra, en hitt til að stofna félagið. En nú vofir ein hætta yfir, að af hvorugu geti orðið vegna þess, að félagið geti ekki skuldbundið sig til þess að taka að sér strandferðirnar fyr en það er stofnað, og til þess að geta stofnast vantar það 100 þús. kr. Meiningin með þessari brtill. er því sú, að leysa, þessar 100 þús. kr. úr þessum læðingi, skilyrðinu, að félagið taki að sér strandferðir, til þess að hægt sé að atofna félagið. Eins og ákvæðið nú er, má ekki skilja við það. Við vitum það allir, að þjóðin ætlast til þess, að þingið hlaupi undir bagga með félaginu, svo að eitthvað geti orðið úr því. Og verði þessu máli hrundið af stokkunum, þá skoða eg það vott þess, að Íslendingar séu vaknaðir og sjái það, að þeir verða að vera samtaka í því, að taka sjálfir samgöngurnar í sínar hendur og hætta að leita til annara þjóða. Og Eimskipafélagið er fyrsta lífsmarkið. Aldrei hefir verið stofnað til neins fyrirtækis hér á landi, sem átt hefir jafnmiklum og almennum vinsældum að fagna. Fullorðnir og börn, ríkir og fátækir, hafa rutt sig og rúið til þess að leggja sinn skerf til, og menn bíða þess með eftirvæntingu, að þingið láti nú einnig til sín taka, svo að þetta verði ekki eins og bóla, sem óðara hjaðnar. Og það verð eg að segja, að ekki verðum við þingmenn öfundsverðir af því að koma heim til kjósenda okkar og segja þeim, að við höfum ekkert gert fyrir þetta þjóðræknisverk, sem almenningur á Íslandi er nú að vinna.

Það má segja, að samgöngumálanefndin hafi á ytra borði tekið örlátlega undir þetta mál, en niðurstaðan hefir orðið sú, að það er hægt að efast um að henni hafi verið alvara að þetta kæmi að nokkru gagni.

Félagið getur ekki gengið að því, að taka að sér Strandferðirnar, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki komið á stofna, en bráðabirgðastjórnin hefir enga heimild til að gera slíka Samninga, sem þar að auki koma í bág við hlutaútboðsskjalið. Og þótt það væri komið á stofn, þá er alls ekki víst; að það sjái sér fært að taka að sér strandferðirnar. Því að þótt þetta sé þjóðræknisverk, þá verður það þó að hlíta almennum reglum, sem gilda um öll hlutafélög, að félagið sé rekið eftir skynsamlegum og hagsmunalegum reglum. Og þótt það sé ekki neitt beint gróðafyrirtæki, mun það ekki leggja út í það, sem gæti orðið til stórtjóns. Það eina rétta er því að bíða og sjá til, hvort hægt sé að félagið taki að sér strandferðirnar strax. En fyrst verður það að komast á fót. Og það verður með því einu móti, að Alþingi veiti þessar 50 þús. kr. til hlutakaupa hvort ár, skilyrðislaust. Samgöngumálanefndin hafði líka, eina og eg hefi tekið fram, ætlað félaginu 100 þúsund kr. til þessa, þótt niðurstaðan yrði þessi.

Til þess að gera þetta ennþá aðgengilegra, höfum við stungið upp á að skifta þessum 100. þús. kr. niður á bæði árin og eftir því sem mér hefir verið tjáð, kemur það að fullum notum. Og það má líka reiða sig á — og bráðabirgðastjórnin hefir látið það í ljós, að hún vildi stuðla að því — að félagið mun, þegar er það sér sér fært, taka að sér strandferðirnar. Og þá er alt komið í það horf, sem samgöngumálanefndin hefir hugsað sér.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þessa brtill., en vænti þess fastlega, að þingdeildin láti nú til sín taka og ráði vel fram úr þessu máli, sem allur landslýður bíður eftir með óþreyju og eftirvæntingu.

Þá verð eg að minnast á brtill. mína á þgskj. 544 við 15. gr. Þar er farið fram á að skáldlaunin til Guðmundar Guðmundssonar séu hækkuð úr 1200 kr. helzt upp í 2000 kr., en að minsta kosti upp í 1600 kr. Fyrst verið er að meta veðleika skálda okkar hér á þinginu, þá finst mér honum vera gert alt of lágt undir höfði, því að hann er í raun og sannleika eitt af okkar beztu skáldum, sem þjóðin hefir einna mesta nautn af. Og þar fer líka það tvent saman, sem er eðlilegast skilyrði fyrir slíkum fjárveitingum, hæfileikarnir og þörfin. Hann hefir enga fasta stöðu. sem geti gefið honum trygga afkomu og hæfileikana viðurkenna allir. Eg vona því, að deildin geti fallist á þessa breytingartillögu mína.

Þótt brtill, mínar séu nokkuð margar. þá eru þær svo sanngjarnar og eðlilegar, að eg vona að háttv. þingmenn geti greitt þeim öllum atkvæði.