26.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í C-deild Alþingistíðinda. (1149)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Eggert Pálsson:

Eg hefi br.till. á þgskj. 495, sem eg hefi persónulega leyft mér að koma fram með, hún er sem sé ekki frá fjárlaganefndinni, heldur mér einum, Hún fer fram á að veita Kristínu Sveinbjarnardóttir 300 kr. styrk í viðbót við eftirlaun hennar. Eg verð að játa, að það sem gaf mér kjark til þess að koma með þessa breytingartill. var, að deildin hafði samþykt við 2. umræðu að veita Guðrúnu Pétursdóttir sams konar styrk. Hefði sú fjárveiting ekki verið samþykt, hefði eg sennilega ekki komið fram með þessa breyt.till. Menn verða að viðurkenna, að það stendur líkt á um þessar konur, þær eru báðar prófastsekkjur, menn þeirra voru báðir menn, sem leyst hafa störf sín í þarfir þjóðfélagsins mæta vel af hendi. Um Kjartan Einarsson má næstum segja að hann væri prófastur frá því er hann skrapp frá prestaskólaborðinu. Hygg eg, að eg þurfi ekki að vera að skýra það fyrir mönnum, hve mikils metinn hann var og hve góðs maklegur, en ekkja hans er nú fjárhagslega illa stödd. Eg verð að játa að það er dálítill mismunur á þessum konum að því leyti, að maður Guðrúnar átti um nokkur ár sæti á Alþingi, en maður þessarar aldrei. En það eitt, að maðurinn var þingmaður í nokkur ár, ætti ekki að vega svo mikið, að ekkja hana væri eingöngu eða aðallega þess vegna styrkt, og frekar en sú ekkja sem eg hefi hér borið fram. Enda er eg sannfærður um, að síra Kjartan hefir verið eins fær og ef til vill færari um að vera þingmaður en margir þeir menn, er á þingi hafa setið og getað átt þar sæti lengur en flestir aðrir, ef hann hefði að eins sjálfur viljað.

Það er líka að því að gæta, að það er efnalegur mismunur á þessum ekkjum, þessi ekkja hefir ekki nema 180 kr. eftirlaun, auk þess sem hún er efnaminni. Síra Kjartan var fremur fátækur maður. Bar margt til þess, var hann bæði gestrisinn og greiðvikinn maður og átti á hinn bóginn við mikla örðugleika að stríða, þar sem fyrri kona hana var mjög heilsulaus alla tíð. Auk þess vildi svo slysalega til, að kirkjan í Holti fauk, er nýbúið var að byggja hana og varð hann að kosta að öllu leyti úr eigin vasa að byggja hana upp aftur. Þótt hagur hana batnaði mikið síðustu árin, var þó ekki um nein veruleg efni að ræða. Eg tel það ekki nein efni, þótt eftir hann kunni að vera 4 eða 5 þús. kr. — eg skal ekki segja hvort heldur — sem eiga svo að skiftast milli konu og barna. Að vísu get eg hugsað, að menn segi, að ekkjan eigi efnaðan bróður, sem geti styrkt hana. Það er að vísu satt, en mér er kunnugt um, að hún hefir ekki hingað til þegið styrk af honum og mundi helzt kjósa að þurfa þess ekki í framtíðinni. En sýnilegt má það hverjum einum vera, að án einhvera viðbótarstyrks getur þessi kona tæplega lifað. Fyrir efnalitla konu eru 180 kr. ekkert til að lifa á, og það því síður, þar sem hún telur sér skylt að annast eða sjá um háaldraða eftirlifandi móður manns síns, sömul. barn hans kornungt og annað uppeldisbarn.

Vona eg þess vegna að þeir inir sömu Sem greiddu atkvæði með styrknum til ekkju síra Jens Pálssonar, greiði einnig atkvæði með styrkveitingu til þessarar konu.

Á þgskj. 518 er brt. frá háttv. þingm. Skagf. (Ó. Br.), minnist ég aðallega á hana vegna þess, að hún snertir mitt kjördæmi; hún er um það að hækka vexti á útlánum úr viðlagasjóði. Verð eg að segja, að ef þessi brt. nær fram að ganga, þá er það sama og að drepa fyrirtæki Rangárvallasýslu, að kaupa jörðina Stórólfshvol til þess að hún verði læknisætur, og bygt verði á henni sjúkraskýli, það er eins gott hreint og beint að neita Rangvellingum um þennan styrk og að samþykkja þessa tillögu. Áhrifin af henni, ef hún næði fram að ganga, yrðu þau, að sýslan neyddist til þess að greiða 1400 kr. á ári í afborgun og vexti af láni þessu, en það væri henni algerlega um megn. Þessi jörð, er hér um ræðir, liggur mjög haganlega fyrir læknishéraðið, en að hafa ekkert ákveðið læknissetur í héraðinu, getur komið til að þýða það sama sem héraðið verði læknislaust.

Eins og sakir standa og koma til að standa, þá er ekki hægt að koma þessu svo fyrir, að það ekki hljóti að verða mikil byrði á sýslufélaginu, með því að eg býst ekki við, að það þætti réttlátt að hækka leiguna við lækninn, svo að byrðin kæmi til að hvíla á honum. En þótt svo sé, þá skiftir það miklu máli, hversu mikil sú byrði kemur til að verða. Sjá allir, að ef tillaga fjárlaganefndarinnar nær fram að ganga, verður þetta næsta nógu mikil byrði á sýslunni, en eg býst samt við, að ef þingið stendur við að veita þetta lán með 6% vöxtum í 28 ár, komist þetta fyrirtæki bráðlega. En ef brt. háttv. þm. Skagf. verður samþ., er loku fyrir það skotið.

Vona eg því að þessi tillaga fjárlaganefndar fái að standa og að brt. háttv. þingm. Skagf. nái ekki samþykki hvað þennan lið snertir.

Hvað aðrar breytingartillögur snertir, get eg ekki verið að eyða tíma í að minnast á þær, þar sem eg er í fjárlaganefndinni og mun að sjálfsögðu fylgja tillögum hennar að mestu, en fyrir þeim hefir háttv. framsögum. fjárlaganefndar gert ýtarlega grein, bæði að því er snertir tillögur þær, sem nefndin sjálf hefir gert og undirtektir hennar undir þær brtill. sem fram eru komnar frá einstökum þingmönnum.