23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í C-deild Alþingistíðinda. (1150)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Þorleifur Jónsson:

Eg er svo heppinn að vera ekki riðinn við margar brt., en eg ætla að minnast á nokkrar þær sem fyrir liggja.

þgskj. 526 er brt. um að fjárveitingin til vitans á Ingólfshöfða verði látin falla niður. Var fært fram sem ástæða fyrir því, að íslenzkir skipstjórar haldi því fram, að þessi viti sé ekki eins nauðsynlegur og viti á Meðallandstanga. Það má vel vera að nauðsynlegt sé að byggja vita á Meðallandstanga, en mér er vel kunnugt, að það er bráðnauðsynlegt að byggja vita á Ingólfshöfða. Ströndin meðfram honum er eigi síður hættuleg en Meðallandsströndin, og víða eru þar vatnsföll með stórum ósum og ilt fyrir skipbrotsmenn að komast til bæja. Það hefir líka oft og einatt komið fyrir, að skip hafa strandað á söndunum beggja megin við höfðann, Breiðamerkursandi og Skeiðarársandi.

Að vitinn sé ekki eins nauðsynlegur fyrir íslenzka botnvörpunga sem aðra, get eg eigi skilið, því að ef fiskur er þar til handa útlendingum, ætti hann eins að finnast þar handa Íslendingum. Það er líka fleiri en útlend fiskiskip, sem fara um þessar slóðir, get eg t.d. tilnefnt strandbátana og önnur milliferðaskip, er fara sunnanlands, og þar sem enginn viti er alla leið frá Dyrhólum að Vattarnesi, sjá allir, hve mikil þörf er á, að viti komi nálægt miðju þessa svæðis, einmitt fyrir farþega og flutningaskip, er fara sunnanlands. Það er því mjög nauðsynlegt að koma upp vita á Ingólfshöfða, þarf ekki langt mál til að rökstyðja það, enda hefir hæstv. ráðherra gert það. Það er ekki svo að skilja, að þetta sé mínu kjördæmi í hag, þaðan stunda menn ekki fiskveiðar á þessum slóðum, en þar eð eg er svo kunnugur á þessum stöðvum, vildi eg ekki láta því ómótmælt, að Ingólfshöfðaviti sé ónauðsynlegur, eins og sumir hafa haldið fram.

Það er ekki nokkur efi á því, að það er mikið framfaraverk að fjölga vitunum; en þar sem fjárhag landsins er þannig háttað, að ekki er hægt að byggja alla vitana í einu, verður að gera það smám saman og með því að vitinn á Ingólfshöfða er svona miklum mun ódýrari en viti á Meðallandstanga, er sjálfsagt að byggja hann fyrst.

Þá er till. á þskj. 523, um Dómkirkjuna í Rvík; eg mintist á hana við síðustu umræðu og nú hefir komið fram tillaga um lækkun á styrknum til hennar. Býst eg við að eg verði þeirri tillögu fylgjandi. Í blaði, sem hefir komið út í bænum í dag, er skýrt frá þessari fyrirhuguðu viðgerð. Vil eg með leyfi hæstv. forseta lesa aðalefni þessarar greinar hér upp. Hún hljóðar svo:

»Gólfið á að taka upp og leggja steini, laga bekkina þannig að bökin hallist meira aftur á við og þeir verði þægilegri Útgangsdyr á að gera nýjar út að Pósthústorginu og vita þær út að Oddfellowahúsinu. Enn fremur á að gera ganga niður af loftpöllunum niður í sjálfa kirkjuna, svo komist verði hjá þrengslum þeim og troðningi, er oft er í kirkjunni, er fjölment er í henni. Loks er í hyggju að selja miðstöðvarhitun í kirkjuna«.

Það má vel vera, og eg tel það víst, að þörf sé á einhverri endurbót á kirkjunni, en eg efast mjög um að þörf muni vera á svona miklu fjárframlagi, sem hér er farið frem á. Þótt það væri nú að vísu skelfing notalegt fyrir þjóðkirkjusöfnuðinn hér í Rvík, að fá miðstöðvarhitun í kirkjuna, og enn hægari og þægilegri sæti en nú eru, þá getur mér nú ekki skilist, að það kalli svo brátt að með þessi þægindi, að það ekki mætti bíða um sinn.

Það sem nauðsynlegt væri að gera, er að styrkja gólfið, svo að kirkjunni væri óhætt, að hún ekki félli þótt jarðskjálfti kæmi, og til þess hygg eg að 10 þús. mundi nægja.

Viðvíkjandi samgöngumálunum ætla eg að segja nokkur orð. Mér finst að þau séu að komast í óvænt efni hér á þinginu, og mér finst að í þeim málum sé smámunasemin látin ráða helzt til miklu. Það er eins og það sé einhver stífni, sem ráði tillögum manna hér um það mál. Eg er þess fullviss, að þjóðin er ekki þeim mönnum þakklát, sem að því vinna að láta smámunasemina ráða í þessu máli.

Nei, þjóðin óskar einmitt eftir því, að alt sem unt er, sé gert til þess að koma málinu áleiðis í góða höfn, en hún óskar ekki eftir, að það komst í það öngþveiti, sem það nú virðist ætla að komast í. Mér finst það töluverð stífni af samgöngumálanefndinni, að gera það að skilyrði fyrir því að þingið veiti inu íslenzka Eimskipafélagi nokkurn styrk, að félagið taki að sér strandferðirnar. Eg veit reyndar, að nefndinni hefir ekki gengið nema alt ið bezta til þessarar tillögu sinnar. Hún skoðar það — og það með talsverðum rétti — lífsspursmál, að strandferðir og millilandaferðir komist á sömu hendur. Þetta mundu líka allir kjósa helzt. En þegar nú að bráðabirgðastjórnin ekki álítur að hún hafi neina heimild eða neitt vald til að lofa því fyrir fram, að taka að sér strandferðirnar, þá finst mér heldur ekki rétt að neyða það til þess. Mér finst að það væri ekki ómögulegt að láta það liggja milli hluta, hver tæki að sér strandferðirnar, þangað til að félagið væri stofnað. Hins vegar býst eg við því, að félagið muni að sjálfsögðu taka að sér strandferðirnar þegar að það væri stofnað, ef að landssjóður legði því til 400 þús. kr., og eg er á því máli, að það eigi að gera það, en ekki vil eg samt láta gera það að skilyrði fyrir styrknum til þess nú. Mér finst heldur ekki nein von að bráðabirgðastjórnin geti gengið að þessum kostum, sem samgöngumálanefndin vili láta setja félaginu. Félagið er, sem kunnugt er, ekki stofnað enn. Hluthafarnir eru út um alt land og sumir í Vesturheimi. Það er því ekki gert í flýti að koma á aðalfundi, og án hans verður félagið ekki stofnað. Heldur ekki er hægt að vita, nema hluttakan í félaginu verði almennari meðal Íslendinga í Ameríku, ef Alþingi tekur nú greiðlega við málaleitun félagsins um styrk til millilandaferða. Mér finst það skylda þingsins, þar sem svo stendur á, að sýna félaginu alla þá góðvild, sem unt er.

Enn er einn vegur, sem mér hefir dottið í hug, að landssjóður skuldbindi sig til að bera allan halla, sem leiddi af útgerð strandbátanna fyrsta eða fyrstu árin. Með því móti finst mér líklegt að bráðabirgðastjórnin myndi geta gengið að þessu tilboði um styrk. Þetta yrði þá í bráðina ráð til samkomulags. Eimskipafélagið er enn sem komið er barn í reifum, sem sjálfsagt er að hjálpa til að komast á fót. Hitt er mikill ábyrgðarhluti, að setja eitthvað það á oddinn, sem gæti gert það að verkum, að barnið veslaðist upp og dæi.

Út af því sem hæstv. ráðherra hefir sagt um viðaukatillögu á þgskj. 508, þá er þess að geta, að með henni er ætlast til að landssjóður kaupi hluti hvort ár í félaginu fyrir 50 þús. kr., þótt það taki ekki að sér strandferðirnar. En fari svo, að það taki að sér strandferðirnar 1916, þá verða enn keyptir hlutir fyrir 300,000 þús. kr., svo að hluttaka landssjóðs verði þá alls 400,000. Þetta er auðskilið.

Það sem við eigum að gera, er að sýna félaginu alla þá góðvild, sem okkur er hægt. Þá mun félagið líka sýna landinu þá góðvild, að taka við strandferðunum, því að það er okkar heitasta ósk, að millilanda- og strandferðir komist hvorttveggja á sömu innlendu hendur. En það verður ekki nema þingið sýni félaginu alla lipurð og sanngirni.