23.08.1913
Neðri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í C-deild Alþingistíðinda. (1156)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Tryggvi Bjarnason:

Það hafa ýmsir sagt, að samgöngumálin á sjó séu eitthvert vandamesta málið, sem þetta þing hefir til meðferðar, og eg er vísa um, að þjóðin leggur mjög mikla áherzlu á að það verði heppilega til lykta leitt. Þegar eg Sá tillögur samgöngumálanefndarinnar og fjárlaganefndarinnar, þá gerði eg mér góðar vonir um að þetta mál fengi góðan enda hér á þinginu og að bráðabirgðastjórn Eimskipafél. myndi taka þessum tillögum tveim höndum. En hún hefir tekið þeim mjög dauflega, og 1. þm. G.-K. (B. Kr.), sem talar hennar máli hér, hefir sagt, að það sé sama sem að drepa þetta fyrirtæki í fæðingunni ef tillögur samgöngumálanefndarinnar verða samþyktar.

Mér skilst það aðallega, vera tvent, sem fyrir bráðbirgðastjórninni hefir vakað. Fyrst það, að ferðirnar myndu varla bera sig. En eftir því sem mér virtist á ræðu háttv. þm. G.-K. (B. Kr.), sem aðallega hefir talað hennar máli, þá álítur hann ekki að mikil hætta sé á tapi á ferðunum, þar sem hann tók fram, að þau félög, sem rekið hafa strandferðir að undanförnu, hefðu ekki tapað á þeim. Enda þarf enginn að halda, að það Sameinaða hefði haldið ferðunum uppi og gerði tilboð í þær enn, ef það tapaði á þeim.

Annað atriði, sem bráðabirgðastjórnin ber fyrir, er það, að það hafi ekki verið gert ráð fyrir því í útboðsskjalinu, að félagið tæki strax að sér strandferðirnar. Mér er kunnugt um, að ýmsir litu svo á, að stjórnin byggist ekki við að hafa svo mikið fé með höndum í byrjun að það væri mögulegt, að félagið tæki strandferðirnar strax, en jafnframt var litið svo á, að hún ætlaðist til að félagið tæki að sér strandferðirnar, þegar það hefði fengið nægilegt fé til að taka að sér hvorttveggja millilandaferðir og strandferðir, þannig, að gera út tvö millilandaskip og 2 strandferðaskip, og í þeirri trú skrifuðu menn sig svo fyrir hlutum í félaginu og voru ánægðir með þessa ráðstöfun. Eftir tillögum samgöngumálanefndarinnar er ætlast til að félaginu verði lagður nægilegur styrkur til að koma á ferðum með tveimur millilandaskipum með því skilyrði, að það taki að sér Strandferðirnar 1916, og sýnist það vera hægt, þar sem lagt er til að landssjóður kaupi hluti í Eimskipafélaginu fyrir 400 þús. kr. og þess utan er þegar safnað í hlutafé fullar 300 þús. kr. Sýnist því vera nægilegt fé fengið, og get eg ómögulega skilið, að félagið skuli ekki ganga að þessum boðum og taka að sér strandferðirnar umyrðalaust með 60 þús. kr. rekstursstyrk árlega. Eins og eg tók fram áðan, var bæði eg og aðrir ánægðir með að í útboðsskjalinu var gert ráð fyrir, að félagið tæki að sér strandferðirnar sem fyrst, og eg get ekki látið mér detta í hug, að nokkur maður út um land, sem hefir lofað peningum til félagsins, myndi taka loforð sitt aftur, þó að félagið tæki strandferðirnar að sér nú þegar, heldur myndu menn þá þvert á móti láta fé sitt með miklu ljúfara geði af hendi.

Það hefir verið sagt, að það myndi verða reynt með samkepni að eyðileggja félagið, og má vist búast við að svo verði. Eg get einnig hugsað mér að það yrði reynt á þann veg, að útlendingar kaupi hluti í félaginu, eða reyni að ná kaupum á þeim hlutum, sem landsmenn hafa keypt, jafnvel yfirborguðu, til þess á þann hátt að ná þeim, ef unt væri, svo að þeir gætu á þann hátt náð yfirráðum yfir því. En þetta verður bezt fyrirbygt með því, að landesjóður eigi meira en helming hlutafjárins, þá mun sú leið síður verða reynd, því þá hlýtur landssjóður alt af að hafa yfirráðin.

Svo legg eg ekki lítið upp úr því, sem háttv. þm. Sfjk. sagði, að hann hefði orðið Var við það hjá Vestur-Íslendingum, er voru hér á ferð í sumar, að þeim væri miklu ljúfara að leggja í félagið, ef landasjóður ætti mikla hluti í því. Mér getur ekki dottið í hug að trúa því, að félagið kafni í fæðingunni, þó að bráðabirgðastjórnin segi þetta, að það verði ekki stofnað ef þingið haldi fast fram tillögum samgöngumálanefndarinnar. En ef félagið kafnar í fæðingunni einungis þess vegna, þá vil eg segja, að það hafi beint aldrei verið alvara að stofna Eimskipafélag Íslands, ef það strandar á því, að það taki að sér strandferðirnar með þeim kjörum, sem hér er farið fram á. Eg mun hiklaust greiða atkvæði með tillögum samgöngumálanefndarinnar, í þeirri öruggu von, að málið fái góðan enda.