08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (116)

16. mál, stjórn landsbókasafns

Ráðherrann (H. H.):

Þetta, sem háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) gat um, að annar þingmaður hefði sagt sér hér í deildinni í gær um landritara, að starfstími hans sé að eins tvær stundir á dag, er ágætt dæmi um það, hvað sumir menn leyfa sér að bera á borð fyrir þessa háttv. deild. Það er ekki fyrsta sinn og væntanl. ekki í síðasta skifti, sem frekleg ósannindi eru borin hér fram, meðan til eru kjördæmi, er láta sér sæma að senda á þing fulltrúa, er kunnir eru að slíku.

Sannleikurinn er sá, að landritarinn kemur að öllum jafnaði á skrifstofu sína í stjórnarráðinu þegar fyrir morgunverðartíma. Síðan er hann þar stöðugt frá kl. 12–4 síðd. og kemur aftur 1 stund um eftirmiðdaginn. En auk þess mun hann oft taka aukavinnu heim með sér.

Hér í Reykjavík mun það vera talið að vera að skrifstörfum allan daginn, þegar menn sitja við starfið bæði fyrri og síðari hluta dagsins þá tíma, er skrifstofur eru opnar, eða, efa vinnan er öll í einu lagi um hádegið, eins og sumstaðar tíðkast, þá allan þann tíma sem skrifatofunum er haldið opnum, 4–6 klukkutíma, t. d. frá kl. 10–4 e. h.