27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í C-deild Alþingistíðinda. (1166)

37. mál, hagstofa Íslands

Framsögum. minni hl. (Einar Jónsson):

Eins og þskj. 533 ber með sér, hefir nefndin í máli þessu klofnað, en eg get samt lýst yfir því, að í henni var yfirleitt gott samkomulag, þótt eg yrði ekki samferða meiri hl. á endanum. Ástæðurnar til þess, að eg gat það ekki, hefi eg drepið á í nefndaráliti og skal ekki endurtaka þær hér, því að þær eru ekki lengi lesnar. En aðalástæða mín er sú, að eg álít, að með þessu sé verið að létta störfum á starfsmönnum stjórnarráðsins, sem eins og menn vita sitja fastir og kyrrir í sínum embættum og að með því að öll líkindi eru til þess, að sömu mennirnir verði valdir til þess starfa, sem áður hafa verið, þá verður líklega ekki mikil breyting á því, hvernig það verður af hendi leyst.

Annars heyrðist mér nú á hv. framsögum. meiri hl. (V. G.), að hann væri mér nokkurn veginn samþykkur í flestu, sem hann sagði, og eg vona, að háttv. deild álíti ekki kominn tíma til þess að stofna þessi nýju embætti. Og þess vegna leyfi eg mér að koma fram með rökstudda dagskrá, sem eg mun afhenda hæstv. forseta.

Mér hefir dottið það í hug eftir að nefndin hætti störfum sínum, að eg held, að henni hafi sést yfir að athuga dálítið orðalagið, þar sem sagt er, að þessi hagstofa eigi að standa beint undir ráðherranum, og breyting efri deildar bætir ekkert úr skák, þótt þar sé ákveðið að hún eigi að standa beinlínis undir honum, þá er það engu líkara en að ráðherrann eigi alt af að standa uppi yfir þessum starfsmönnum; með öðrum orðum; standa eða sitja á mæni hagstofunnar alla daga. Eg hygg, að betra hefði verið að orða þetta þannig, að hagstofan stæði undir eftirliti stjórnarinnar.

Eg geri mig ánægðan með breyt.till. nefndarinnar, ef frv. á að verða samþykt á annað borð, en það vil eg helzt ekki, og því ber eg fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

»Með því að deildinni þykir ekki að svo stöddu full ástæða til að stofan sérstaka hagstofu til að vinna að hagskýrslum landsins, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.