27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í C-deild Alþingistíðinda. (1168)

37. mál, hagstofa Íslands

Bjarni Jónsson:

Það er ekki úr vegi að benda á, að háttv. 1. þingm. Rangv. sýnir sig jafnsnjallan í landmælinum sem í almennum reikningi. Honum þykir munur vera á »beinlínis«. Vér megum víst bráðlega eiga von á kenslubók í landmælingum eftir hann.

Árið 1909 tók sjálfstæðisflokkurinn, sem þá, var í meiri hluta á Alþingi, það upp í stefnuskrá sína; að koma hér upp hagstofu. Var mönnum í þeim flokki ljóst að skýrslurnar voru að ýmsu ónógar og á eftir tímanum. Síðan hefi eg haft ástæðu til að reyna, að þetta er rétt: Eg hefi oft verið beðinn um skýrslur af útlendingum, og hefi eg þá rekið mig á það, að í hagskýrslurnar vantar margt, sem í þeim ætti að vera: Auk þess er það mikill agnúi, hve seint þær koma og löngu eftir á. Ef þessu á að kippa í lag, verður það ekki með því að láta alt sitja við það sem nú er og láta skýrslurnar vera unnar í hjáverkum. Því þykir mér vænt um frumv. og tel sjálfsagt að samþykkja það. Kostnaðurinn verður sáralitlu meiri en nú nemur aukaborgunin fyrir skýrslurnar, sem nú er greidd. Með hagstofunni er það trygt, að verkið verði vel unnið og greiðlega. Mér þykir enn vænt um það, að nefndin hefir horfið að inu upphaflega ákvæði frumarpsins, sem efri deild breytti, að 2 fastir menn vinni í skrifstofunni. Við það verður vinnan í fastari skorðum heldur en með breytingu Ed., 1 maður sé fastur en 2 menn fengnir til aukavinnu. Það er vitanlegt, að laun þessara aukamanna yrðu svo lág, að þeir hlypu frá jafnskjótt sem annað betra byðist. Yrðu því tíð mannaskifti og mundi verkið leggjast mestmegnis á foratöðumanninn. Þar í móti mundu tveir slíkir fastamenn verða samhentir um að gera skýrslurnar jafngóðar sem slíkar skýrslur eru í öðrum löndum.

Eg get ekki verið hlyntur breyt.till. háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br ) á þgskj. Hagstofan hefir meira en nóg að gera þótt þessu sé ekki á hana hlaðið, enda óvíst, að hagfræðingar sé færari um þetta en hverir aðrir, t.d. lögfræðingar eða verzlunarmenn. Nú er og á ferðinni frv. um löggilta endurskoðendur svo langt á leið komið, að nefndarálitið kemur í dag. Þessi endurskoðun er hlutverk slíkra manna.

Tel ég frumvarpið ið mesta nauðsynjamál og þar með útlendum viðskiftamönnum gert greitt að kynnast hag landsins eins og hann er í raun og veru. Er það oss vammlaust, því að alt er nú í uppgangi hér og hagur landsins miklu betri en búast má við af svo fámennri þjóð. Mun hagstofa þessi verða til þess að auka viðskiftatraust og lánstraust landsins út á við.