27.08.1913
Neðri deild: 44. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í C-deild Alþingistíðinda. (1174)

102. mál, einkaréttur til að vinna salt úr sjó

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Eg get verið þakklátur hæstv. ráðherra fyrir bendingar hana. Eg kannast fúslega við, að frumv. getur verið ábótavant að því er formið snertir. Sérstaklega er eg þakklátur hæstv. ráðherra fyrir bendingar hana í þá átt, að gera frumv. aðgengilegra fyrir leyfisbeiðanda. Nefndin skoðaði sig sem nokkurs konar umboðamann landssjóðsins og dró því hans taum, en hún er fús á að taka tillit til þessara bendinga, sem ganga í þá átt, að gera leyfishafanum hægara fyrir að stofna þetta fyrirtæki og reka það. Þá hygg eg að sé misskilningur hjá hæstv. ráðherra, að 5. gr. megi skilja svo, að leyfishafi eigi að gjalda skatt af öllum eignum fyrirtækisins, húsum og áhöldum. Meining okkar er sú, að hann eigi að greiða tilsvarandi gjald eftir verðmæti af öðrum efnum en salti er fyrirtæki hans framleiðir. Þau efni, er aðallega munu þar koma til greina, eru joð, súrefni og vatnaefni. Hefir leyfisbeiðandi tjáð sig fúsan að greiða tilsvarandi gjald af þessum efnum og saltinu, eftir verðmæti þeirra.

Hvað það snertir, að óþarfi sé að taka það fram í frumv., að ekki megi undanþiggja leyfishafa tollum, farmgjöldum og sköttum, þá má vel vera að svo sé. Okkur datt í hug að bera þetta saman við frumv. um járnbrautareinkaleyfið, sem hér er til meðferðar í þinginu, og vildum taka það skýrt fram, að þess háttar undanþága, sem þar er farið — fram á, kæmi hér ekki til greina.

Eg er, sem sagt, þakklátur ráðherra fyrir bendingarnar, og mun nefndin verða fús til að taka þær til íhugunar