28.08.1913
Neðri deild: 45. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í C-deild Alþingistíðinda. (1189)

108. mál, strandferðir

Frams.m. (Valtýr Guðmundsson):

Það hafa komið fram tvær brtill. við frumvarpið, eða réttara sagt fleiri brtill. á tveimur þingskjölum. Ina fyrstu brtill. á þgskj. 519 hefir meiri hluti nefndarinnar fallist á og hefir líka sjálfur komið með sama konar brtill. á öðru þgskj. En svo stendur á því, að þetta er ákveðið í samráði við bráðabirgðastjórn Eimskipafélags Íslands, sem hafði óskað eftir að þessi skilyrði í frv. um að tvö strandferðaskipin hefðu að minsta kosti jafnmikið farþegarúm og lestarúm og væru að minsta kosti jafnörskreið og þau strandferðaskip, sem hér voru í förum 1911–1912, yrðu feld í burtu vegna þess að það gæti álítist hentugra að annað skipið væri. aðallega farþegaskip og hitt aðallega vöruflutningaskip, sem þyrfti ekki að vera eins örskreitt eins og farþegaskipið. Þá mætti líka koma því svo fyrir, að það skip, hefði fleiri viðkomustaði heldur en hitt skipið. Þetta fyrirkomulag býst eg við að yrði fult eins hentugt og fult eins arðvænlegt eins og hitt.

Meiri hlutinn hefir og fallist á að: gera jafnframt aðra breytingu á frumv., að í niðurlagi 1. gr. sé skotið inn: Um hluttöku fyrir landssjóðs hönd í stjórn félagsins, stærð strandferðaskipanga, gerð þeirra og hraða fer eftir samningi milli, félagsins og stjórnarráðsins.

Það er að segja, í stað þess að hafa ákveðið í frumvarpinu um hraða skipanna, farþegarúm og lestarúm, þá sé stjórninni falið að annast um það í samráði við stjórn Eimskipafélagsins. En jafnframt þessu hafa stjórninni verið gefnar bendingar um það í nefndarálitinu, hvernig hún eigi að haga sér í því, skipin mættu t. d. ekki vera minni en Austri og Vestri o.s.frv. Einn nefndarmanna vildi láta taka það fram, að farþegarúm og lestarúm skipanna mættu ekki að samanlögðu vera minni en verið hefir og á sama máli voru sumir nefndarmanna í Ed. En niðurstaðan varð þó, að réttast væri að sleppa þessu. Var því slept af því að menn litu svo á, sem það gæti verið aðgengilegra fyrir félagið, að þetta væri ekki fast ákveðið, auk þess sem þetta mál væri ekki svo rannsakað nú, að hægt væri að mynda sér svo fasta skoðun um það. Taldi nefndin það ekkert varhugavert að fela stjórninni að annast um það.

Þá eru inar aðrar brtill. á þgskj. 519 frá þingm. Skagfirðinga. Þessar brtill. fara allar í þá átt, að fella burt öll ákvæði um landssjóðsútgerðina. Auk þess fer ein brtill. fram á, að lánið, sem stjórninni er heimilað að taka, sé lækkað um 50 þús. kr., úr 450,000 kr. og niður í 400,000 kr.

Nefndin hefir ekki getað fallist á þessar breyt.till. Hennar markmið var það, að strandferðirnar kæmust í innlendar hendur. Næðist ekki samkomulag við Eimskipafélagið — sem nefndin hefir reynt að styðja að, að svo miklu leyti sem í hennar valdi stóð — þá skyldi þó þar með ekki vera loku fyrir það skotið, að strandferðirnar kæmust á innlendar hendur. Og þá var það eina leiðin að landssjóður tæki að sér útgerðina, svo að hún kæmist ekki í hendur útlendra félaga.

Nefndin leggur því til að þessar brt. verði feldar, svo að hægt verði að koma strandferðunum á innlendar hendur, og það eins þó að samningar náist ekki við Eimskipafélagið.