28.08.1913
Neðri deild: 45. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í C-deild Alþingistíðinda. (1192)

108. mál, strandferðir

Valtýr Guðmundsson:

Það gleður mig að heyra, af athugasemdum háttv. 1. þm. Skgf. (Ó. Br.), að hann er ekki á móti því, að landssjóður taki að sér strandferðaútgerðina, heldur greinir okkur þar á, hve nær landssjóður eigi að byrja á því. Hann heldur það, hv. þm., að landssjóði standi hætta af því að taka að sér strandferðirnar 1916. Vill hann skjóta því á lengri frest. En þá verða menn að gæta að því, að þetta eru að eins heimildarlög, sem Alþingi getur breytt. Nú verður Alþingi háð 1915 og þá er tækifærið til þess að breyta þeim eða fresta þeim. Ef stjórninni þá finst ástæða til þess að það verði gert, þá getur hún borið fram frumvarp þess efnis. Því held eg að hættan sé ekki svo mikil.

Svo var það sem háttv. þm. var að tala um ólík atriði, um hluttöku landssjóðs í Eimskipafélaginu og útgerð hans upp á eigin spýtur, þá er því til að svara, að þessi atriði eru einmitt lík, því bæði eru þau um að koma strandferðunum á innlendar hendur, hvernig sem veltist.

En um athugasemd háttv. þingmanns við 2. gr. frumv., þá verð eg að viðurkenna, að hún er rétt. Og afsökunin, sem nefndin hefir í því, verður að vera sú, að menn hafa haft svo mikið að gera. Þegar menn fara þetta af einum fundinum á annan, þá hafa menn ekki áttað sig á þessu, eða ekki tekið eftir því.

Nú er því tvent til, svo að málið gangi áfram. Annað það, að frv. verði samþykt hér eins og það er og verði látið ganga til efri deildar í von um að þetta verði lagfært þar, eða þá hitt, að að hæstv. forseti vilji fresta málinu til morguns, svo að nefndinni gefist tækifæri til þess að lagfæra það. Mun þetta síðara vera bezta úrræðið, og skýt eg þess vegna undir hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki taka málið út af dagskrá og fresta því til morguns?