29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í C-deild Alþingistíðinda. (1194)

13. mál, vörutollur

Pétur Jónsson:

Eg játa það, að eg er nokkuð feiminn við það, að koma fram með brtill. við þetta nú, af því að eg hefi ekkert skift mér af þessu máli hingað til. En hún er fram komin vegna meðferðar þingsins á því, og þótt hún kynni að verða álitin málinu til falls, þá er það ekki mín meining að svo verði.

Það var í fyrra talinn eini kosturinn á vörutollinum, að það sé tiltölulega einfalt að innheimta hann og ekki mikil hætta á því að menn skjóti sér undan honum og á meðan flokkaskiftingin sé ekki margbrotnari en nú er, þá sé ekki örðugt að greina sundur flokkana. En nú eru fram komnar breyt.till. í báðum deildum, og virðist mér nú ætla að fara að víkja nokkuð öðruvís við. Það getur verið að hér sé ekki um mikla fjárhagslega þýðingu að ræða, að skjóta vörum úr hærra flokki og í lægra flokk. Tillaga mín gengur nú út á það, að lögin haldi sér í aðaldráttunum, eins og upphaflega var ætlast til, að flokkarnir sé svo glögt ákveðnir, að ekki þurfi sérstaka rannsókn um hverja vörusending. Með öðrum orðum: þær vörur lægri flokkanna, sem eru í umbúðum þannig löguðum, að ekki sjáist utan á, hverrar tegundar varan sé, lendi allar í 6. flokki. Það er ábyrgðarhluti fyrir skrásetjandann, að segja skakt til og akrásetja dýra vöru í lægra flokki en þar sem hún á heima, ef hún ber það sýnilega með sér, hverrar tegundar hún er. Því að ef varan tapast, þá tapar hann rétti sínum til endurgjalds að meiru eða minna leyti. Aftur á móti þegar ýmsar vörutegundir eru sendar saman í einum umbúðum, þá getur sendandi vöru talið vöruna undir þann flokk, lægst gjald er á, ef eitthvað af slíkri vöru er í kassanum. Þess vegna er réttast að heimfæra þær ekki undir inn almenna flokk, og fram á það fer tillaga mín. Sumir halda að þetta gæti náð til kornvöru, en það nær engri átt, því að alt af má vita, hvað í kornvörusekkjum er. Nokkuð öðru máli er að gegna um þungavöru, t.d. gler eða steypujárn. Nokkrar vörur undir 2. flokki eru oft í umbúðum með annari vefnaðarvöru, eins og t. d. segldúkur og strigi, enn fremur getur seglgarn, netjagarn og tvinni stundum verið í sömu umbúðunum. Raunar vita það þeir menn, sem vanir eru verzlun, að ef segl, strigi og netjagarn er flutt inn í stórum stíl, þá er hægt að hafa þær vörur í sérstökum pokum sem sýna utan á, hver varan er, og er þá enginn vandi að greina annað frá því. Saumavélaolía er oft flutt í kassa (t. d. járnvöru smærri), en kassinn heimfærður til vélaolíu og fellur þá í flokkaskifting undir lægra gjald eftir þessu frumv. En vélaolía í stærri stíl er ætíð í sérstökum umbúðum og auðþekt. Ýmislegt má telja upp svipað þessu.

Seinni hluti brtill. er ef til vill nokkuð stífur, og er eg þá fús á það, ef menn vilja, að tillagan sé borin upp í tvennu lagi.