29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í C-deild Alþingistíðinda. (1195)

13. mál, vörutollur

Björn Kristjánsson:

Að eins örfáar athugasemdir. Hér er ekki um stórt mál að ræða, svo að það er undarlegt, hversu örðugt það á uppdráttar. Eins og frumv. kom frá Ed. var það aðgengilegt, þótt ekki væri það gallar laust. Nd. á skuld á því, að hafa ekki lagfært frumv., og hún veldur því einnig, að inn í það hafa komist gallar, eins og t. d. ákvæðið um segldúkinn. Það má koma ýmsu að sem segldúk, t. d. molskinni, stubbasirzi o. fl.

Efri deild hefir bætt inn seglgarni, sem flyzt í rjúpum, og ýmist er með aðra eða eitt út af fyrir sig. Þetta er skemd á frumv., en þó ekki svo mikil, að eg álíti að það eigi að falla þess vegna. Yfirleitt er eg samþykkur breytingum Ed. Og skipa og báta tollurinn er eins og í núgildandi lögum. Háttv. framsögum. (B. J.) lagði mikla áherzlu á það, að tollur væri lagður á aðflutta báta, og sagði að ella væri stutt að samkepni útlendinga við innlendan iðnað. Þegar fljótt er á litið, má vera að mörgum verði á að líta svo á. Menn verða þó að gá að því, að fragtin er svo miklu meiri af smíðuðum bátum en af viðnum út af fyrir sig, sem í þá fer, að í því liggur nægileg vernd gagnvart samkepninni. Þess vegna er engin ástæða að breyta frumv. af þessum orsökum.

Enn fremur þykir mér það undarlegt, að Nd. vill kalla vélaolíu Vélaáburð. Eg hefi bent á það áður, að olíur eru í öllum vélaáburði, þótt misjafnlega líti út og sumt sé einna líkast hrossafeiti. Vélaolía er aðallega þrenna konar: Grænolía, sem er þykk, cylinderolía, sem er þunn, og svo þessi bræðingur, sem er líkastur hrossafeiti.

Þá hafa rær og gaddar til járnbrauta verið færðir til, og álít eg það þýðingarlítið. Eg vil hafa þetta óbreytt, eins og það kom frá Ed., og að hitt sé felt. Ekki af því að eg álíti að tillaga háttv. þm. S.-Þing. (P.J.) stefni í ranga átt, heldur álít eg hana óþarfa. Eins og nú er tel eg lögreglustjóra heimilt, þegar vörur úr fleiri en einum flokki eru í sömu umbúðum, þá að heimfæra þær undir dýrasta flokkinn. Eg er ekki hræddur um að menn muni blanda saman vörutegundum til þess að koma öllu undir ódýrari flokka. Til þess var einmitt tekið töluvert tillit, þegar lögin voru samin, að girt væri fyrir að menn gætu blandað saman vörum sinni úr hverjum tollflokki. Menn fara ekki að búa um olíu og járnvöru saman. Eg mun greiða tillögu háttv. þm. S.-Þing. (P.J.) atkvæði, svo framarlega sem farið verður að hrófla við frumv. eins og það nú er frá Ed., en ella ekki.

Háttv. framsögum. (B. J ) sagði, eins og oft heyrist klingja hér í þingsalnum, að vörutollslögin væru óþolandi óréttlæti. Það var þó sýnt skýrt fram á það í umræðum á þinginu 1912, að hvergi munaði nema 3/4–7% frá verðgildinu. En hvað segja menn þá um sykurtollinn, sem er um 60% af innkaupsverðinu? Hvað segja menn um það réttlæti ?

Eg legg mikla áherzlu á það, að þetta frumv. verði samþykt eins og það nú er, því að annars verður það verra.