29.08.1913
Neðri deild: 46. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í C-deild Alþingistíðinda. (1200)

13. mál, vörutollur

Pétur Jónsson:

Eg geri það ekki að neinu kappsmáli, að brtill. mín verði samþykt, ef aðrar brtill. verða feldar, en verði þær samþyktar, álít eg sjálfsagt að láta þessa tilfærslu milli flokka, sem frumvarpið gerir, vera bundna því skilyrði, að viðkomandi vörur verði ekki gerðar óþekkjanlegar með umbúðum. Þegar svo er, að þær eru óþekkjanlegar, má gefa þeim hvaða nafn sem er af handahófi og kemur sér þann veg undan hærri tolli, eins og eg tók fram í fyrri ræðu minni. Þetta getur ekki komið í bág við tilgang laganna, vegna þess, að í óþekkjanlegum umbúðum eru ekki aðrar vörur en þær sem þola talsvert vörugjald. Ef t. d. flutt er svo mikið af segldúk, að það varði miklu fyrir gjaldið, þá má hafa hann í sérstökum pökkum, og svo um búnum, að hann þekkist. Sama máli gegnir um netjagarn og fleira. Auðvitað er ekki tilgangurinn að lögreglustjóri hafi eftirlit með því, hvernig varan er útbúin, Mín meining er það eitt, að hún verði réttilega tekin upp á farmskrá.

Eg skal nefna nokkrar vörur til sönnunar máli mínu. T. d. er hægt að hafa »brýni« í sérstökum kössum, svo gisnum, að sjáist hvað í þeim er. Um »saum« og »ljáblöð« er öðru máli að gegna, en þau þola líka hærra gjald. Um »steðja« er það að segja, að séu þeir svo stórir, að hægt sé að hafa þá í sérstöku »collo« þá falla þeir í lægri flokk. En sé um smásteðja að ræða, þá eru þeir hafðir í umbúðum innan um annað, en þeir þola líka hærra gjald.

Svona gæti eg haldið áfram að telja margar vörur, ef þörf væri á. Og loks vil eg geta þess að eg þekki ekki mörg dæmi þess, ef þau eru nokkur, að vara, sem ber utan á sér, hverrar tegundar hún er, sé færð undir fölsku nafni eða röngu á farmskrá, enda væri það ábyrgðarhluti meiri en vörutollinum nemur. Hitt er þar á móti algengt um vörur í umbúðum, að þær eru ekki með réttu nafni á farmskrá.