30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í C-deild Alþingistíðinda. (1233)

4. mál, landsreikningar

Lárus H. Bjarnason:

Hv. ráðherra vildi kenna starfskraftaleysi í stjórnarráðinu um dráttinn á landsreikningagerðinni, en þær röksemdir ráðh. eru ekki alveg vafalausar. Starfskraftarnir í stjórnarráðinu, sérstaklega á 3. skrifstofu, eru víst nógu miklir, það er að segja, mennirnir eru víst nógu margir. Annað mál er það, hvort starfsmennirnir eru allir jafngóðir. Og víst er um það, að þeir eru misjafnlega notaðir. Það er t.d. á allra vitorði, að einn starfsmaðurinn á 3. skrifstofu stjórnar ráðsins hefir fast starf annarstaðar á þeim tíma, sem hann á að vera í Stjórnarráðinu. Og þar sem aldrei hafa verið jafnmargir starfsmenn í stjórnarráðinu sem nú — þeir munu vera 6 á 3. skrifstofu — þá er það ekki of mikið sagt, þótt maður segi, að þessi röksemd ráðh. sé vafasöm.

Sérstaklega er þetta lítt frambærileg ástæða þegar litið er til þess, að reikningsgerðin sjálf er lítið verk, því að eins og eg tók fram áðan, var reikningurinn óendurskoðaður á 3. skrifatofu þegar okkur yfirskoðunarmönnum var sendur hann. In umboðslega endurskoðun stjórnarráðsins hefir oft verið nokkuð kákkend og sumir póstar í landsreikning num ekki verið endurskoðaðir. Til dæmis er nýfarið að endurskoða starfrækslureikninga landsímans. Það var í mörg ár ekki borið við að endurskoða þá umboðslega.

Hæstv. ráðh. kannaðist við, að það væri mjög óheppilegt, að gjaldheimtumenn landssjóðs skyldu skila reikningum sínum of seint, og sumir skila tekjunum of seint en hann færði þá afsökun fram fyrir því, að það kæmi af erfiðum og seinum samgöngum. Þessi stæða er mjög veigalítil, því að fyrst eru nú samgöngur allar stórbættar frá því er gjaldheimtureglugerðin varð til fyrir 40 árum, og svo koma of sein skil ósjaldan fyrir hjá þeim embættismönnum, sem eru alveg undir handarjaðri stjórnarinnar. Það eru líka nú komnir ritsímar og talsímar um mest alt landið, svo að það væri hægur vandi fyrir stjórnarráðið, að finna að misfellum s stuttum tíma. En stjórnin kvað ekki brúka nema póstferðir til þess að finna að, ef eitthvað vantar, og svo skrifa og skrifa í það óendanlega.

Í stað þess að stjórnin ætti að sekta þá sem mestir eru trassarnir og jafnvel víkja þeim frá um stundarsakir, og þá vitanlega áður en skuldasúpan er svo vaxin þeim yfir höfuð, að þeim er ómögulegt að rétta við.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri ekki sér að kenna, að ekki hefði verið haft betra eftirlit með sjóðþurðinni fyrir norðan, af því að hún hefði verið byrjuð áður en hann tók við völdum. Eg hefi nú að vísu ekki séð rannsóknarskjölin, en sagt er mér, að rótin til þeirrar sjóðþurðar sé margra ára gömul. Byrjunin til hennar varð víst skömmu eftir 1904, og þá var hæstv. núverandi ráðherra við völd. Það mun líka hafa komið fyrir, að embættismenn, sem nú eru í embættum eða á eftirlaunum, hafi sýnt af sér vanskil og standi jafnvel í óbættum sökum. Þetta verður að laga, enda er það ekki síður í þágu embættismannanna sjálfra, að eftirlitið sé sem nákvæmast. Ef eftirlitið er nógu strangt, þá verða vanskil þeim síður að fótakefli. Það er hægra fyrir þá að leiðrétta, ef eitthvað hefir farið aflaga, sé fundið að í tíma.

Hæstv. ráðherra sagði, að það væri mjög ómerkilegt atriði, þótt vitnað væri rangt í fjárlögin í landsreikningunum. Í hér um ræddum tilfellum var deila um það milli stjórnarráðsins og yfirskoðunarmanna, hvort umræddar upphæðir væru fastar eða áætlunarupphæðir. Þær voru fastar, en stjórnarráðið gerði þær að áætlunarupphæðum með rangri tilvitnun, og tók sér þannig bessaleyfi til að fara fram úr fjárveitingu Alþingis. Það er ein aðalskylda yfirskoðunarmanna að gæta þess, að stjórnin haldi fjárlögin, og sannarlega þá ekki til of mikils mælst, að stjórnin villi yfirskoðunarmönnunum ekki sýn. Það er að vísu innan handar fyrir yfirskoðunarmennina, að lesa fjárlögin saman við landsreikningana, en þá er það ekki síður innan handar fyrir embættismennina í stjórnarráðinu að fara rétt með þau. Og óneitanlega ætti stjórnarráðið að ætla yfirskoðunarmönnunum lengri tíma til endurskoðunar, ef yfirskoðunarmennirnir eiga ekki ganga út frá því, að alstaðar sé villulaust vitnað til fjárlaganna í landsreikninguum, áætlunarupphæðir gerðar að föstum upphæðum og því um líkt.

Háttvirtur sessunautur minn, framsögumaður reikningslaganefndarinnar, sagði, að við yfirskoðunarmenn gerðum of mikið úr auravillum, hélt því fram, skildist mér, að slíku mætti sleppa, en þar skjátlast honum. Góð endurskoðun athugar jafnt smávillur sem stórar, er beint skyldug til þess. Hann sagði líka, að fyrir gæti komið, að innheimtumenn gætu ómögulega gert reikningsskil á réttum tíma. Það getur verið rétt, en slíkar undantekningar réttlæta ekki vanskil að jafnaði og of mikla hlífð við gamalreynda vanskilamenn. Stjórnin verður að gæta þess, að hún fer með annara fé en ekki sitt eigið.