30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í C-deild Alþingistíðinda. (1234)

4. mál, landsreikningar

Skúli Thoroddsen:

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) hefir nú þegar minst svo rækilega á það, sem helzt var ástæða til að taka fram af hálfu okkar endurskoðunarmanna, að eg þarf þar litlu við að bæta.

Yfirleitt verður að leggja áherzlu á það, að brýnt sé fyrir reikningshöldurum landssjóðsins, að farið sé sem nákvæmlegast eftir fyrirmælum reglugerðarinnar frá 12. febr. 1873, og ekki sízt er ástæða til þess að símastjórnin fái að sjálfsögðu áminningu um það, að haga sér sem næst fyrirmælum reglugerðarinnar, ekki síður en aðrir reikningshaldarar landssjóðsins, í stað þess að gera landssjóðnum engin skil — eða þá eigi þau skil, er teljandi séu — fyr en í Apríl eða Maí árið eftir.

Vitaskuld er það, að símastjórinn þarf einatt að fá skilagreinar úr ótal áttum, og getur þá stundum orðið dráttur á; en engu að síður ætti hann þó æ að gera sér far um — og stjórnin að, ganga þá mun ríkara eftir því en verið hefir að fara svo nærri fyrirmælum hennar, hvað reikningsskilin til landssjóðsins snertir, sem frekast er auðið.

Jafnframt mætti og benda stjórninni á það, að þegar litið er til þess, hversu mjög það fé fer vagandi, sem gjaldheimtumenn landsins hafa með höndum, einkum síðan lögin um vörutoll komu í gildi, og þegar litið er til sjóðþurðar, sem nýlega hefir átt sér stað, þá virðist ekki vanþörf á því að athugað væri, hvort ekki væri nauðsynlegt að hækkað væri veðið, sem þeir hafa sett til tryggingar. skilvísri greiðslu á gjöldum til landssjóðsins.

Þá skal eg enn fremur benda á það, að það virðist yfir höfuð vera að fara í vöxt hjá stjórninni, að fara ekki einatt svo nákvæmlega eftir ákvæðum fjárlaganna, sem skyldi og vera ætti, þar sem hún leyfir sér eigi sjaldan, að greiða meira fé úr landssjóði til hins eða þessa, en beitt hefir verið.

Hér ræðir því eigi um það, sem oft hlýtur að sjálfsögðu að geta komið fyrir, að farið sé fram úr þeim fjárveitingum, sem — eftir eðli sínu — eigi eru né geta verið annað en áætlunarupphæðir, heldur um hitt, að farið er fram úr »föstu fjárveitingunum«, er svo mætti nefna, þ.e. meira fé greitt úr landssjóði en þingið vildi veita.

Það er svo oft, að menn sjá sér ekki fært að veita nema tiltekna fjárupphæð til hins eða þessa, og þá verður fjár veitingarvaldið, eins og hver annar húsbóndi, að heimta, að sér sé hlýtt, þ.e. að eigi sé þá notað meira fé en til var ætlast.

Í þessu efni er það því afaráríðandi, að þingið hafi æ vakandi auga á gerðum stjórnarinnar.

Og þegar farið er að tíðka það svo mjög, sem nú er orðið, að grípa til peninga úr landssjóði til hins eða þessa, upp á væntanlega aukafjárveitingu, þ.e. upp á væntanlegt samþykki þingsins eftir á,, þá verður og eigi síður að hafa vakandi auga á stjórninni, því að með þessu móti má gera fjárveitingarvald þingsins æ þýðingarminna, unz það gæti enda horfið úr sögunni, þ.e. þingsins yrði þá engin þörf, ef stjórnin gæti ráðstafað fé landsins að vild sinni, eða þyrfti eigi að binda sig við fjárveitingar þingsins.

Þá ætti það og einatt að vera sjálfsagt, að í landsreikningnum sé ekki skýrt rangt frá, þegar vitnað er í fjárlögin. Yfirskoðunarmenn geta að vísu litið í fjárlögin, þ.e. borið þau saman við landareikninginn, en þeir ættu þó að geta treyst því, að stjórnin fari rétt með allar tilvitnanir til fjárlaganna. Og þó að þeim væri að vísu engin vorkunn, þ. e. gætu aflað sér vitneskju um, hvað sannast væri, þá er þó öðru máli að gegna um aðra.

En þetta, að skýrt hefir verið rangt frá efni fjárlaganna, hefir þó komið fyrir í 2 tilfellum, sem yfirskoðunarmenn hafa bent á, og leit leiðinlega út fyrir stjórninní, t. d. þar sem hún hafði veitt meira fé til kvennaskólana á Blönduósi, en lög stóðu til. Það sést ekki á landsreikningnum að svo væri, en þegar litið er í fjárlögin, sést það glögt, að heimildina vantaði, enda hefir skólinn síðan verið látinn endurborga féð. Það gat litið svo út, sem þarna væri skýrt rangt frá af ásettu ráði, til þess að dylja það, að fé hefði verið borgað úr landesjóði, sem ekki var heimilað af fjárveitingarvaldinu.

Eg skal svo ekki fara frekara út í þessa sálma, enda þegar af öðrum rækilega vikið að ýmsu, sem eg ella hefði minst á.