30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í C-deild Alþingistíðinda. (1236)

4. mál, landsreikningar

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg hafði ekki ætlað að taka til mála, en finst eg verða að segja nokkur orð, út at orðaskiftum háttv. þm. N.-Ísf. (S. Th.) og hæstv. ráðherra. Háttv. þm. N.-Ísf. fór fram á það, sem og er eðlilegt og sanngjarnt, að þegar gjöldin, sem innheimtumenn landssjóðs hafa með höndum, fara vaxandi, þá sé líka hækkað veðið, sem þeir setja til tryggingar á greiðslunni. Þetta er eðlileg krafa. Hv. ráðherra benti á, að þetta gæti orðið óheppilegt, því að með því móti yrði ókleift eða minsta kosti örðugt fyrir unga og efnalitla menn, að fullnægja þessum skilyrðum, og að þá veldust einungis efnamenn í þessar atöður. Það væri að vísu ilt, ef svo væri, en eg held, að þessi vandkvæði mætti forðast. Það eru sem sé til ábyrgðarfélög, sem taka ábyrgð á skilum embættismanna og gjaldkera víðsvegar um heim, þannig, að embættismenn greiða árlegt ábyrgðargjald, en félögin standa í ábyrgð gagnvart stjórninni. Í Kaupmannahöfn eru fyrir víst til 2 slík félög, og það að þau eru til, sýnir, að þau þrífast; og að þau eru tekin gild, sýnir, að þau eru örugg. Það er líka eðlilegt, að til séu tryggingarfélög fyrir vanskilum, eins og öðrum slysförum, því að það má gera upp slík tilfelli og taka meðaltal af þeim alveg eina og eldsvoðum og öðru þess háttar. Eg vildi benda á þetta af því, að mér virðist bæði krafa háttv. þingm. N.-Ísf. eðlileg og eins vandkvæðin, sem hæstv. ráðherra taldi á því að verða við henni. Eg hygg, að hér sé vegur til þess að fátækir menn þurfi ekki að láta veðféð tálma sér frá embætti. Þessi vegur gæti komið til athugunar síðarmeir.