30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í C-deild Alþingistíðinda. (1237)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Framsögum. meiri hl. (Tryggvi Bjarnason):

Í þessu frumv. er farið fram á, að stjórninni veitist heimild til að selja prestinum að Kolfreyjustað ofurlítinn blett úr landi nefndrar jarðar. Þessi blettur liggur með sjó fram og er 25 dagsláttur að stærð. Eftir því sem matsmennirnir segja, er þetta algerlega óræktað land og því fylgja engin serstök hlunnindi. Nefndin var ekki öll á einu máli um þetta. Meiri hluti hennar sá ekkert því til fyrirstöðu, að heimila sölu á þessum bletti, þar sem það virðist ekki rýra jörðina á neinn hátt, né geta orðið væntanlegum ábúendum til nokkurs skaða. Aftur á móti mundi þetta verða til þess, að þarna kæmi upp grasbýli, og Alþingi hefir áður sýnt, að það vill gera sitt til að styðja að því, að slík grasbýli myndist í landinu, enda er það eitt af aðalskilyrðunum fyrir því að fólkinu geti fjölgað í sveitunum. Meiri hluti nefndarinnar leggur því eindregið til að frumv. verði samþykt.

Að því er snertir gæði þessa landskika, þá er, eftir upplýsingum matsmannanna, nokkur hluti hans ýmist hraun og stórgrýti eða márarfen, og að eins nokkur hluti hans vel fallinn til ræktunar. Það er því ekki stórt, sem um er beðið.

Eg sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, sízt áður en eg heyri andmæli minni hlutans og annara er í móti kunna að mæla.