30.08.1913
Neðri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í C-deild Alþingistíðinda. (1254)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Bjarni Jónsson:

Engum ætti að verða ilt af því, þótt minst sé á Grikki eða Rómverja, það gera þeir sem mælskir eru, og ekki nota jafn-algengar líkingar og eg. Hitt sakar ekki heldur, þótt minst sé á góðar og gamlar bókmentir vorar, og athugað hvað Íslendingar hétu áður, í stað þess að festa sig í vitlausum lagabálkum.

Háttv. framsögumaður meiri hlutans fór dálítið rangt með orð mín, þar sem hann hafði það eftir mér, að menn myndu ekki hafa næga þekkingu til þess, að skifta um nöfn, svo í lagi færi. Eg sagði, að margur unglingur myndi hafa svo litla þekkingu, að hann gæti það ekki. Þetta er ekki sama, og hv. þingm. myndi hafa fundið mismuninn, ef það hefði verið honum í vil. Ekki sagði eg það heldur, að forfeður vorir hefðu staðið hærra en vér í nafnagiftum, heldur hitt, að þeir hefðu þar verið fremri Rómverjum í því, að þeir hefðu haft konur í meiri metum, en tíðkaðist í rómverskum sið.

Eg gæti sparað mér að svara mörgu af því, sem háttv. þingmaður sagði, en einu hafði eg mest gaman af. Hann sagði að eiginnöfn væru laus við málið. — Eg held að eg fari orðrétt með það. — Og dæmi þess taldi hann það, að bæjanöfn hefðu verið orðin afbökuð í Noregi, áður en Ísland bygðist. Eg skil ekki að þetta sé nein sönnun. Eiginnöfn eru nefnd oftar en nokkur önnur orð í málinu, og þess vegna er ástæða til þess að fara enn gætilegar með þau. Og þegar farið er vissvítandi að leggja niður beygingar á þeim, eða gera á þeim kynvillur, þá er með því rudd braut fyrir hvers konar skekkjur aðrar í málinu. Því að þó að meiri hluti kvenna vildi nú kalla sig einhvera son og áliti að það gerði ekkert til, þá hefir það þó ruglandi áhrif, þegar öðrum megin er beygt kvenmannsnafnið, en hinum megin er þetta ósveigjanlega »sons«. Gálausleg meðferð á þessu og öðru slíku spillir tungunni.

Eitt sem háttv. þingmaður rangfærði, var það, að eg hefði sagt, að samgönguleysið hefði verndað oss Íslendinga áður og það hermdi hann rétt, en eg sagði aldrei að þess þyrfti nú við, eins og hann virtist gefa í skyn. Samgöngur eru góðar, gætu meðal annars verið til þess, að flytja úr landi ýmsa skrjóða, en þó því að eins, að þær flytji oss ekki aftur erlenda snýkjumenningu í stað vorrar mörg þúsund ára menningar.

Um endaskiftaskrárnar flutti háttv. þingmaður litiar sannanir fram. Hann kvað það mundi kosta landsbókasafnið þúsundir króna að laga sínar. En af hverju? Af því að þar hefir einn Íslendingur fengist við það alllengi, að semja spjaldskrá, sem ekki er hægt að nota. Það hefði verið nær, að byrja þar á réttu verki, en að þurfa. að lagfæra rangt. Ekki skildi hann orðið nafnfesti. Það er þó til í málinu, og er aunað en gjöf. Að gefa einhverjum eitthvað að nafnfesti, er að gefa honum það til þess að festa á honum nafnið, og gildir einu hvort sú athöfn (að festa nafnið) fer fram munnlega eða skriflega.

Það er rétt, sem einn háttv. þingm. sagði, að þurft hefði að athuga einstaka hluti í till., en til þess hafa nú háttv. þingmenn haft tíma.

Eg ætla nú ekki að tala mikið lengur, því að eg þykist vita að fleiri vilji komast að, og að þeir, sem nú eru fjarverandi, séu að taka saman ræðurnar, því að þetta er ekkert smámál eins og háttv. 1. þingmaður Rangv. vildi halda fram. Það er ekki svo lítið um það vert, hvort verið er að semja káklög um það, sem hefir mikil áhrif á siðu og menningu þjóðarinnar, og hér er sama kákið á ferðinni og í fánamálinu, þegar menn vildu ekki annað en hraunfána eða tindafána, og láta sér nægja að vera innlimaðir í orði og verki, og aldrei kunna við sig nema innan fjögra veggja þröngrar stáss-stofu. Þeir sjá ekki, hvað þeir eru að gera, er þeir lita smáum augum á það sem mikið er –og það er mikið sem þessi þjóð á af gersemum, hve ilt sem hún hefir átt en þykir hins vegar alt rusl gott, ef það kemur frá ríkari þjóðum. Slik stefna er feigðarspá hverrar þjóðar.

Þessi stefna er feigðarspá okkar Íslendinga og á ekki skilið langt líf Þjóðin er í hættu stödd, ef þeir menn eiga að ráða, sem slíkri stefnu halda fram, hvort heldur er af gáleysi eða illum vilja. Þeir eiga ekki að þolast.

Eg skal svo þagna um stund til þess að þeir menn, sem áhugamenn eru, fái tækifæri til að sýna, hvern hug þeir bera til þessa máls.