01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í C-deild Alþingistíðinda. (1276)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg ætla að byrja á því, sem háttv. ræðumaður endaði á, brtill. mínum. Það er öfugt við þá venju, að geyma sér það bezta þangað til seinast og byrja á því lakasta.

Við höfum 2 minni hl. menn, eg og hv. 1. þm. Eyf., sem heitir Stefán Stefánsson, en ekki Hannes Hafstein, eins og stóð í blaði hér á dögunum, leyft okkur að koma fram með varatillögu við frv. Svo stendur á henni, að háttv. meiri hluti hefir lagt það til, að tölu alþjóðkjörinna þingmanna yrði fjölgað um 2 og allra þingmanna því upp í 42. Samkvæmt þessari tillögu ginni hefir svo meiri hlutinn orðað 8. gr. En verði þessi breytingartillaga feld, þá kæmist lögunin á 8. gr. alls ekki að, nema slík tillaga sem okkar væri borin fram, og því höfum við flutt hana. Báðir erum við á móti fjölgun þingmanna. En eg hefði ekki gert þessa tölu þingmanna að neinu höfuðatriði, ef meiri hlutinn hefði ekki alt af fært sig upp á skaftið, ekki viljað neita að þingrof næði til Ed, lengt kjörtímabilið o.s.frv. Það getur, að mínu áliti, ekki verið að tala um að hafa kjörtímabilið lengra en 8 ár, og er það alt of langt, að mínata kosti ef ekki þingrof á ekki að ná til Ed. Það er meiningarlaust að láta þessa þingmenn sitja í sætum sínum 8 eða 12 ár og stritast á móti því, sem þjóðin öll vill og allir aðrir, en þessi halakleppur í Ed. Dálítið öðru máli væri að gegna, ef þingrof ætti að ná til efri deildar þingmanna. Þá gæti verið gott að hafa menn, semvanir væru þingstörfum, meðan þeir gerðu ekki neitt ilt, sem stríddi á móti vilja allra annara. Þess vegna er höfuðatriðið ekki það, hve langt kjörtímabilið er, heldur hitt, að þingrof nái líka til þessara þingmanna.

Eg vona því, að breyt.till. lútandi að þessu, sem einnig hefir komist inn á þgskj. 621, verði samþykt — að þingrof nái til allra þingmanna. Í sambandi við hana er svo önnur tillaga um það, að síðasta setningin í tillögu meiri hl. falli niður.

Um breyt.till. okkar hv. 1. þm. Eyf., sem fer fram á að stytta þann rangláta tíma, sem kjósendur eiga að bíða eftir að geta notað þann rétt, sem viðurkent er að þeir hafi, þarf ekki margt að segja. Mér fullnægir alls ekki að hann sé styttur um 5 eða 10 ár, en af tvennu illu kýs eg þó heldur það sem minna er ilt. Það er auðvitað ranglæti að setja nokkurn frest, en þó er betra að binda framkvæmd réttarins við 30 ára aldur en 40 ára. Þá þurfa menn að líkindum ekki að bíða nema einar kosningar.

Háttv. 1. þingm. Eyf. stóð hjarta nær að ákveða 35 ár og með því mun eg greiða atkvæði, ef tillagan um 30 ár verður feld. Þá þurfa menn þó ekki að bíða nema 10 ár í stað 15. Því að þessi reikningur, að 15 sé ekki nema helmingur af sjálfum sér, gildir auðvitað ekki. Það er hægt að fá alt til með því að deila tölu með öðrum tölum upp úr þessu. Það er ekki til annara en að ginna þá menn, sem lauslega líta á málið. Það liggur í augum uppi, að samkvæmt tillögum meiri hlutana, liða 15 ár, þangað til allir 25 ára menn geta notið kosningarréttar síns.

Viðvíkjandi breytingatillögum annara háttv. þingmanna skal eg geta þess, að eg er fylgjandi 2. lið brtill. á þgskj. 577, sem vill undanþiggja utanþjóðkirkjumenn, sem ekki eru í neinu trúarbragðafélagi, gjaldi, samsvarandi gjaldi til þjóðkirkjunnar. Eg talaði um þetta atriði við 2. umræðu og skal því ekki fara langt út í það nú.

Eg skal að eins viðvíkjandi þeim mótbárum, sem komu fram á móti þessu við 2. umr., að hætt væri við, að menn hlypu hópum saman úr þjóðkirkjunni, ef þessu gjaldi yrði létt af þeim, geta þess, að þeir menn, er svo tala, gera lítið úr krafti kristinnar kirkju. Og ef hún stendur ekki fastari fótum en það, að menn vilja ekki leggja á sig lítilfjörlegt gjald hennar vegna, þá er hún óþörf og má gjarnan hverfa úr sögunni.

Þá skal eg lítið eitt drepa á brtill. vinar míns, háttv. þingm. Sfjk. (V.G.).

Eg þarf ekki að vera margorður um þær, því að háttv. framsögumaður meiri hlutans hefir hrakið þær rækilega. Eg er sammála honum í því, að engin þeirra geti komið til greina.

Til dæmis er alveg ómöguleg 2. till. hans, að konungur geti flutt mann úr einu embætti í annað og látið hann velja um, hvort hann kjósi heldur flutninginn eða verða settur á eftirlaun. Í þessu stjórnarskrárbreytingarfrumv. er verið að setja ákvæði um það, að hægt sé að afnema eftirlaun með einföldum lögum og öll þjóðin hefir heimtað þau afnumin í afarmörg ár. Það er því alveg til ónýtis að vera að setja svona ákvæði inn í stjórnarskrána.

Ekki geta tillögur hans um skifting deildanna og kosning til efri deildar í fjórðungskjördæmum og með sýslunefndum og kjörmönnum heldur komið til mála. Deildin hefir þegar sýnt það, að hún vill ekki að allir þingmenn efri deildar séu kosnir hlutbundnum kosningum um alt land. Að raska kjördæmaskipun þeirri, sem nú er, er að stofna málinu í inn mesta voða. Annars er þessi stjórnarskrárbreyting hér fram komin til þess að lagfæra helztu kórvillurnar í stjórnarskránni, svo sem setu konungkjörinna þingmanna, ríkisráðsákvæðið o.s.frv. En það sem ábótavant er inn á við, getum við alt af lagfært. Slíkar tillögur sem þessar yrðu því til að fella málið, eða þess valdar, að það gengi ekki fram nema með ærnum kostnaði og mörgum aukaþingum.

Líka virðist það all-óskynsamlegt, að ætla kjörmönnum og sýslunefndum að kjósa þingmenn. Afleiðingin yrði annað hvort sú, að alveg yrði rent blint í sjóinn með það, hverjir kosnir yrðu til þings, eða þeir einir í sýslunefndir, sem hefðu sömu skoðun í pólitík og kjósendur. Og við það yrði afarmörgum mönnum, sem nýtastir væru til þess starfa, hægt frá sýslunefndum, og væri það ilt verk.

Þá ber háttv. þm. þennan almenna rétt innborinna manna ákaflega heitt fyrir brjóstinu. Er það til þess að veikja ekki ríkistengslin um of ? Eða er það til þess að við getum orðið aðnjótandi hér á Alþingi gáfna og stjórnkænsku einhvers halanegra frá Sánkti Thomas 2 Eg er hræddur um, hvað sem því líður, að brtill. sé til einskis borin fram.

Eg er samdóma háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) um það, sem hann sagði um 10. brtill. og þarf því ekki að orðlengja um hana.

Sama máli gegnir um þá, 11., þar sem háttv. þm. stingur upp á því, að ráðherra megi gefa öðrum manni umboð til þess að »mæta« á Alþingi. Mæta hverjum ? Annað hvort hlýtur það að vera Alþingi sjálfu eða einhverjum á þinginu. Annars býst eg við að þetta sé prentvilla, því að háttv. þm. er kennari í íslenzku við háskóla Dana, og er því ósennilegt að hér sé um málvillu að ræða. »Eða jafnframt« sér? Þetta virðist vera ónauðsynlegt, nema ráðherra sé svo illa að sér í íslenzku, þótt hann hafi getað náð einhverju prófi í henni, að honum sé stirt um mál og hann þurfi að hafa einhvern Aron sér við hlíð til þess að mæta einhverju á Alþingi.

Þá er undarleg till. hans um það, að fella burtu það ákvæði, að bera skuli undir alþjóðaratkvæði hvern þann sáttmála, er gerður kynni að vera um þjóðréttarlega stöðu Íslands. Þá væri hægt að skella slíkum samningum á, án þess að kjósendur vissu nokkuð af. Þing, sem samsett væri af miður vönduðum hrossapröngurum, gæti þá lagt þann dróma á landið, sem ekki væri hægt að drepa sig úr. En fái kjósendur að greiða atkvæði um málið, þá mega þeir sjálfum sér um kenna. Eg áliti það réttara, að þjóðfundir skæri úr um slíkt, en eftir atvikum get eg þó sætt mig við þetta. Það er hangandi Damoklesarsverð yfir höfðum þingmanna.

Þá er háttv. þm. samdóma meiri hl. í því, að nauðsynlegt sé að fá eitthvert íhald, eða festu, eina og þeir kalla það, í þingið. Þeir eru hræddir um að alt muni að göflunum ganga, ef allir þm. eru kosnir í kjördæmum. Á hverju byggja þeir það ? Það hafa verið leidd rök að því, að allir kjósendur landsins eru af sama bergi brotnir, hafa notið sömu mentunar, sama uppeldís og lífskjara. Hvaða hætta stafar þá af því, þótt kjósendum sé fjölgað. Það væri helzt hér í Reykjavík, sem dálítill munur er á kjörum manna í þessu efni, en það er ekki nema örlítið brot, og atkvæði manna féllu þá jafnt á báða bóga. Líka er þess að gæta, sem eg hefi áður tekið fram, að þetta íhald kemur líka, því miður, við það, að kvenfólk fær kosningarrétt. Því að það er alkunnugt, að það er tryggara og fastheldnara við gamlar venjur en karlmenn. Þessi hræðsla, sem háttv. þm. og meiri hl. gengur með, minnir mig á söguna um manninn, sem hljóp bæ frá bæ, sveit úr sveit og land úr landi af hræðslu um það, að hann gengi með rauðskjöldóttan bolakálf í maganum.