01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í C-deild Alþingistíðinda. (1278)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Valtýr Guðmundsson:

Þetta mál er svo þýðingarmikið, að það ætti að vanda vel til þess. Það er algild regla í öllum siðuðum löndum, að vanda svo mikið til stjórnarskipunarlaga, að eigi þurfi að semja þau aftur og aftur. Í Bandaríkjunum er meira að segja svo um hnútana búið, að illmögulegt er að breyta þeim.

Eg heyrði á háttv. þm. Dal. (B.J.), að það væri hér eigi meiningin að bæta úr verstu göllunum á stjórnarakránni, sem nú er í gildi, en svo mætti alt af koma með breytingar á eftir. En þetta er í alla staði röng skoðun, því það er óholt fyrir þjóðina, að alt af sé verið að breyta þessum lögum.

Það er hvað eftir annað verið að koma með prívat-frumvörp, og menn verða skjótast frá öðrum nefndarstörfum til að sinna þessu máli. Það vinst enginn tími til að koma með breytingartiliögur, ekki einu sinni svo vel að menn fengju tíma til að lesa nefndarálitið áður en gengið var til atkvæða um málið við 2. umr. Ekki að tala um að stjórninni sé falið málið til undirbúnings. Nei, þingmenn vilja sjálfir sjá um allan undirbúning á því. En eg álít réttast að málinu sé vísað til stjórnarinnar til þess að hún undirbúi það undir næsta þing, en að það sé eigi notað eina og árið 1911 til þess að fá framgengt þingrofi. Þá var þetta mál, helgasta mál þjóðarinnar, notað til að fá kallað saman aukaþing, og eg get ekki varist því, að mér virðist eiga að nota það í sama tilgangi nú. En það er með öllu óhæfilegt, að kasta á þjóðina kostnaðinum við aukaþing og kosningar út af þessu máli og eiga von á að það gangi alls ekki fram þá.

Eg skal geta þess, að þessar breytingartillögur, sem eg hefi komið fram með, eru af litlum efnum gerðar; eg varð að skjótast frá öðrum störfum til þess að semja þær. En eg vona að þær séu ekki minna virði en aðrar breytingartillögur, sem fram hafa komið, jafnvel eigi síðri en tillögurnar frá nefndinni sjálfri. Eg sé að nefndin fer alveg í gegn um sjálfa sig; þegar hún sér, að ekki muni alt ganga að óskum sínum, kastar hún grundvallarstefnu sinni og gengur inn á grasagraut minni hlutans. Sannfæring þessara manna nær ekki lengra en til þess er þeir mæta einhverjum mótbyr. (Kristinn Daníelsson: Það er ekki til neins að berja höfðinu við steininn). Jú, það er alt af rétt að halda fram til þrautar því sem maður er sannfærður um.

Sumt af því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, var viðvíkjandi tillögum mínum. Hefði hann heldur átt að spara sér að tala um þær til þess, er hann heyrði skýringar mínar á þeim.

Eg ætlaði að minnast á eitt atriði, sem eg talaði um við 2. umr. Það er um tölu ráðherranna. Eg tók þá fram, að eg áliti langtum heppilegra að konungur ákvæði töluna, eins og er í annara þjóða lögum. Þá er bæði hægt að fjölga og fækka ráðherrunum eftir því, sem á stendur. kemur oft fyrir, að ekki er hægt að ná í þá menn í svip, sem menn helzt vildu og er þá hart að neyða menn til að skipa ráðuneytið, þar sem einn gæti til bráðabirgða gegnt 2 ráðherraembættum. Hefi eg ekki komið fram með breytingartillögu um þetta af því, að eg álít það ekki til neins.

Þá vík eg að breytingartillögum mínum.

Viðvíkjandi fyrstu breytingartillögu minni sagði háttv. framsögum. meiri hlutans að nefndin vildi ekki gera það að skilyrði fyrir því að maður gæti hlotið embætti hér í landi, að hann hefði rétt innborinna manna. Þetta ákvæði stendur í okkar núgildandi stjórnarskrá og hefi eg tekið það upp úr henni. Finst mér ákvæðið gott og ekki ástæða til að sleppa því, enda er sams konar ákvæði í stjórnarskrám allra landa, sem eg þekki til. Þetta ákvæði hefir einnig verið notað hér áður, t.d. þegar Péturson varð hér embættismaður, hann var aldrei skipaður, heldur að eins settur. Eg hefi því ekki komið með neitt nýtt í þessu efni, heldur að eins haldið fram þeim ákvæðum, sem eru í gildi. Að embættismenn hér á landi verði að fullnægja fyrirmælum gildandi laga um kunnáttu í íslenzkri tungu, álít eg rétt að sé ákveðið í stjórnarskránni, því menn geta aldrei séð hvað fyrir kann að koma.

Önnur breyt.till. mín er um, að konungur geti flutt embættismenn úr einu embætti í annað. Það er líka tekið upp úr núgildandi stjórnarakrá og því heldur ekki nýtt. Hvers vegna á að svifta konungsvaldið þessum rétti 2 Þætti mér gaman að heyra, hvernig hæstv. ráðh. Vill skýra það, ef hann þá er með því. Það hefir verið haft á móti þessu af því að þar eru nefnd eftirlaun. Hvílík höfuðsynd! Það má ekki minnast á eftirlaun embættismanna hér. Menn segja að þjóðin sé á móti þeim, en alstaðar í heiminum er verið að setja sjálfa alþýðuna á eftirlaun, og eg veit ekki betur en að hér sé hreyfing í sömu átt. Mega ekki embættismenn fá eftirlaun eins og aðrir? En ef eftirlaun verða numin úr lögum, þá fellur þetta að sjálfsögðu niður. Eg skal geta þess að þetta ákvæði í núgildandi stjórnarskrá hefir verið notað gagnvart háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), en hann kaus heldur lausn en vera fluttur. Eg tek það fram að betur hefði verið að þetta ákvæði hefði verið notað oftar. Fyrir fám árum var sýslumaður hér austur í Rangárvallasýslu kornungur maður. Hann fékk lausn frá embætti með fullum eftirlaunum alla ævi af því að hann var ekki fær um að ferðast á hestsbaki. Hefði stjórnin notað vald sitt og flutt hann til Vestmannaeyja, þar sem hann eigi hefði þurft að koma á hestsbak, hefði landasjóði sparast eftirlaunin til þessa unga manns. Nú lifir hann í öðrum löndum og brúkar peninga landssjóðs þar.

Eg held því að full ástæða sé til að halda þessu ákvæði í núgildandi lögum.

Þá kem eg að þriðju breytingartillögu minni. Hefi eg tekið upp úr núgildandi stjórnarskrá, að konungur geti rofið Alþingi, en breytt svo til að hann eigi þurfi að rjúfa báðar deildirnar, heldur að eins aðra ef hann vill. Skal eg játa að eg mundi fremur aðhyllast tillögur nefndarinnar um, að þingrof nái alls ekki til þeirra sem kosnir eru hlutbundnum kosningum.

En eg býst við, að eftir þeim anda, sem hér ríkir, muni ekkí vera tök á að fá það samþykt. Eg er sannfærður um að það er upprunalega meiningin í núgildandi stjórnarskrá, að kosningar fari fram áður en 2 mánuðir eru liðnir frá þingrofi. Svo vildi eg einnig að Alþingi yrði stefnt saman ekki síðar en 4 mánuðum eftir að það var rofið. Það getur setið að völdum gerræðisfull stjórn, sem beiti valdi sínu til að rjúfa þingið og er þá áríðandi að það geti komið sem fyrst saman til að hindra stjórnina í að vinna tjón. Ef heimilað er í stjórnarskránni að þingið komi ekki saman fyr en ári eftir þingrof, verður heimildin auðvitað notuð og getur orðið til stórtjóns. Það er því langtum öruggara að ákveðið sé að þingið skuli koma saman svo fljótt sem auðið er eftir þingrof.

Fjórða breytingartillaga mín er við 8. gr. Nefndin hefir þar gengið inn á frumvarpið um skipun Ed, en hefir að eins haft endaskifti á tölunum, 8 séu kosnir með hlutfallskosningu en 6 af Sameinuðu þingi. Þetta er óhafandi grautargerð. Meiri hluti nefndarinnar he8r farið í gegn um sjálfan sig og fallið frá grundvallarreglu einni um að öll Ed. ætti að hvíla á öðrum grundvelli en Nd. Frá þessar grundvallarreglu get eg ekki hlaupið eins fljótt og nefndin, er ekki svo liðugur í hálssnúningunum, því eg álít hana ina einu réttu, sem nefndin mun líka gera, þó hún hafi snúist svona fljótt, bara til samkomulags. Eg fer því fram á að öll Ed, sé skipuð á annan hátt en Nd. og að jafnframt sé breytt um nöfn á deildunum og þær kallaðar málstofur eins og sjálfsagt er, þar eð þær verða í rauninni 2 þing.

Að byggja Ed. á sama grundvelli, með beinum kosningum eins og Nd., er mér vitanlega óþekt í heiminum. En þó nokkur hluti Ed. sé kosinn með hlutfallakosnigum, er grundvöllurinn þó sá sami.

En þegar verið er að semja stjórnarskrárlög, er sannarlega vert að líta í kringum sig og sjá, hvernig aðrar þjóðir, sem meiri reynslu hafa, haga þessu. En það held eg að ekki hafi verið gert. En það má gera með því að líta í Gothakalenderen þýzka eða ina ensku Statemans Yearbook. Og þá kemur í ljós, að í flestum ríkjum í Evrópu er Ed. skipuð langtum meira aristokratiskt en Nd., og jafnvel þar, sem Ed. að nafninu til hvílir á almennum kosningarrétti, þá er kosningarréttur til hennar ekki eins um land alt, heldur af ásettu ráði einmitt gerður mismunandi til þess að verulegur munur verði á þessum 2 deildum.

Eg skal til dæmis nefna, að í sumum af þeim fáu löndum, sem veitt hafa konum kosningarrétt og kjörgengi, þá nær þetta ekki jafnt til beggja deilda. Jafnvel í New Zealand, sem er svo frægt fyrir stjórnfrelsi sitt, hafa konur að eins kosningarrétt, en ekki kjörgengi, til neðri deildar og þær má heldur ekki skipa til þingaetu í efri deild. Í Suður-Ástralíu hafa konur heldur ekki kjörgengi til efri deildar, heldur að eins til neðri deildar.

Skygnist maður um heiminn, þá finnur maður ekki eitt einasta land, þar sem konungsstjórn er, hvorki í Evrópu né í öðrum heimsálfum, þar sem efri deild er bygð á almennum kosningarrétti. Annað hvort er efri deild þannig skipuð, að sætin gangi ýmist öll eða þá langflest að erfðum, eða þá að þingmenn efri deildar eru skipaðir ævilangt af konungi.

Í sjálfu fyrirmyndarlandinu Englandi, leiðarstjörnu allra þingfrjálsra landa, er efri deild, sem kunnugt er, mestmegnis skipuð lávörðum, sem fá sætin að erfðum, en auk þess byskupum og öðrum prelátum. Næstum því jafn »aristokratisk« er efri deild í Austurríki og Ungverjalandi, þótt í báðum þessum löndum sé meira blandað konungkjörnum þingmönnum, sem skipaðir eru ævilangt. Og á svipaðan hátt er efri deild skipuð á Prússlandi, Bajern, Würtenberg og í öðrum þýzkum ríkjum, á Spáni, í Portúgal og í keisaradæminu Japan. Á Ítalíu eru allir þingmenn efri deildar (»senatsins«) skipaðir af konungi ævilangt.

Annars er kosningarréttur til efri deildar, þar sem hún er þjóðkjörin, mjög frábrugðinn kosningarrétti til neðri deildar. Svo er t.d. í Rúmeníu, og eins er í rauninni í Svíþjóð, þar sem efri deild er kosin með óbeinum kosningum af inum stærri sveitastjórnarnefndum, sem mundu samsvara fjórðungaráðum eða amtsráðum hjá okkur, því þó kosningarrétturinn til þessara amtsráða, sem eg vil nefna svo, sé töluvert almennur, þá er öðru nær en að hann sé jafn fyrir alla, þar sem hver kjósandi getur haft frá 1 upp í 40 atkvæði eftir því, hve miklar tekjur hann hefir.

Mönnum mun vera kunnugt um, hvernig efri deild er skipuð í Danmörku. Þar eru 12 deildarmenn konungkjörnir, en hinir eru kosnir af kjörmönnum og stóreignamönnum, þannig, að þeir, sem hafa 4000 kr. tekjur og þar yfir, kjósa fyrst kjörmenn með inum almennu kjósendum, en kjósa svo eftir á jafnmarga kjörmenn og inir almennu kjósendur.

Lítum svo snöggvast á þau lönd í Ameríku og Astralíu, sem heita ríki, og er atjórnað að hálfu leyti sem konungsveldi og hálfu leyti sem lýðveldi.

Í Kanada og ríkjunum í Ástralíu, er efri deild, þar sem þinginu er yfirleitt skift í deildir, annaðhvort skipuð eintómum stjórnkjörnum mönnum ævilangt, eina og t.d. í sambandsþinginu í Kanada, New-South-Wales og Queensland, en í New-Zeealand eru þeir þó ekki skipaðir nema til 7 ára í einu, eða þá, að efri deild er þjóðkjörin, en kosningarrétturinn ekki inn sami og til neðri deildar, ýmist bundinn við vissa eign, eða þá við vissa uppfræðing og mentun.

Í Victoria hafa þannig í ár (1913) 668.000 manna kosningarréttt til neðri deildar, en ekki nema 258.000 til efri deildar. Og í Suður-Átralíu hafa 224000 kosningarrétt til neðri deildar, en ekki nema 79.000 til efri deildar. Auk þess er efri deild alt af kosin til lengri tíma en neðri deild og verður aldrei rofin, þar sem ætíð má rjúfa neðri deild. Og þetta eru þó talin stjórnfrjálsustu löndin í heiminum, þar sem verkalýðurinn hefir stjórnina.

Þar sem nú reynslan sýnir, að allar þjóðir, sem hafa tvískift þing, — og óskift þing hafa gefist mjög illa, eins og t.d. í Grikklandi — hafa efri deild skipaða á öðrum grundvelli en neðri deild, virðist ekki ósennilegt, að við reynum að færa oss þá reynslu í nyt, og högum okkar skiftingu eitthvað í sömu átt.

Mér hefir dottið í hug, að við létum kjósa þingmenn efri deildar óbeinum kosningum, en á tvennan hátt. Sumpart af kjörmönnum, sem allir kjósendur kjósi, og sumpart af sýslunefndarmönnum, sem kosnir eru af hreppsbúum af kjósendum. Má gera ráð fyrir, að í sýslunefndir og bæjarstjórnir séu kosnir einhverjir beztu menn sveitanna og bæjanna, og því er meiri trygging í því, að þeir vil ji vel og viti betur en allur fjöldinn, sem þó fær nokkur áhrif gegn um sína sérstöku kjörmenn. Það verður að gá að því, að það er sjaldan, sem kosning til efri deildar kæmi fyrir; þetta mundi því ekki hafa áhrif á kosningar til sýslunefnda, og þó að þetta séu óbeinar kosningar, þá hvílir þetta samt á almennum kosningarrétti. Með þessu lagi verður tryggingin meiri fyrir því, að alt fari ekki í ólestri.

Þá vil eg ekki fallast á, að landið verði eitt kjördæmi, heldur vil eg hafa þau fjögur og verði þá þingmönnum efri deildar skift á milli þeirra eftir fólksfjölda. Þá mundi Reykjavík og aðrir bæir ráða úrslitunum, ef landið væri eitt kjördæmi. En væri því skíft í fjögur kjördæmi, eftir mannfjölda, þá mundi sveitunum verða trygð meiri áhrif en bæjunum. Ekki hefir mér dottið í hug að skifta þingmönnum efri deildar jafnt niður á fjórðungana. Eg vil, eins og eg áður hefi tekið fram, láta skifta þeim á fjórðungana eftir mannfjölda.

Samkvæmt manntalinu 1. Desember 1910, voru 33.406 menn í Sunnlendingafjórðungi, sem samsvarar rúmlega 5 fulltrúum. Í Vestfirðingafjórðungi vora 21.093 menn, sem samsvarar tæpum 4 fulltrúum. Í Norðlendingafjórðungi voru 19.602 menn, sem samsvarar rúmlega 3 fulltrúum. Og í Austfirðingafjórðungi voru 11.082 menn, sem samsvarar tæplega 2 fulltrúum.

Á öllu landinu voru þá 85.183 menn, og kemur þá einn fulltrúi á hverja 6000 menn, þar sem 14X6000 eru 84.000. Hlutfallið verður þá sem næst því, sem eg hefi stungið upp á; en skyldi það breytast, hefi eg líka sett undir þann leka, með ákvæðinu um að tölum þessum megi breyta með lögum, svo að fulltrúatalan raskist ekki.

Eg hefi farið fram á, að þingmenn til efri málstofunnar yrðu kosnir með hlutfallskosningu. Þetta kemur náttúrlega ekki til greina, ef ekki yrði kosinn nema einn þingmaður.

Fyrirkomulag kosninganna vildi eg ekki ákveða í stjórnarskránni, heldur vildi eg láta ákveða það með sérstökum kosningalögum. Það getur verið spursmál um, hvort hver sýsla á að kjósa fyrir sig kjörmennina, eða allur fjórðungurinn í einu. Þessu er alt af hægt að breyta með einföldum lögum, ef það er ekki ákveðið í stjórnarskránni. Þingmenn neðri deildar vil eg að kosnir séu í einmenningskjördæmum, því að reynsla manna annarstaðar virðist sýna, að þetta sé affarasælast og sama sýnir reynslan að nokkru leyti hér. Þá yrði auðvitað nauðsynleg breyting á kjördæmaskipuninni, sem mundi mæta mótstöðu, en það ættum við ekki að setja fyrir okkur, því að þá yrði fyrirbygt, að eitt kjördæmi kysi menn, sinn úr hvorum flokki, svo að það hneyksli yrði þá fyrirbygt, að annar þingmaðurinn rifi niður það sem samþingsmaður hans bygði upp, eins og áttt hefir sér stað í fleiri en einu kjördæmi hér á landi, og það oftar en einu sinni.

Þar sem að deildirnar verða með þessu móti bygðar á afar mismunandi grundvelli, þá vil eg ekki lengur tala um deildir, heldur málstofur, efri og neðri, sem líka er talsvert veglegra heiti.

Kjörtími fyrir þingmenn neðri deildar álít eg að ekki megi verá skemri en 6 ár, meðan þing er ekki háð nema annaðhvert ár. En þingmenn efri deildar vil eg að séu kosnir til helmingi lengri tíma, til þess að fá meiri festu í deildina. Mér þykir of mikið að láta helming deildarinnar fara frá í einu, því er eg því fylgjandi, að ekki fari frá nema 1/4 eða því sem næst í einu, svo að deildin endurnýjist smátt og smátt, öll á 12 árum.

Mér datt í hug að fara fram á, að ekki mætti rjúfa efri deild, eins og nefndin vill vera láta um þá, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum. En eg þorði ekki að fara fram á það, af því að tillága sama efnis var feld við aðra umr. málsins hér í deildinni.

Í breytingartillögum mínum við 10. grein, hefi eg farið fram á, að kosningarréttur til Alþingis og þá ekki síður kjörgengi, yrði bundin við fæðingarétt eins og tíðkast annarstaðar. Svo er það t.d. í grundvallarlögum Dana, og þar fá menn þó vanalega ekki fæðingjarétt fyr en eftir 16 ára dvöl í landinu, og með sérstökum lögum.

Hugsum okkar nú, að hér fyndist gullnáma, eða aðrir dýrir málmar, svo að hingað flyktist alls konar útlendur óþjóðalýður, sem strax fengi kosningarrétt. og kjörgengi. Hann gæti þá með fjölda sínum hrifsað öll völd úr höndum okkar. Þetta kom fyrir í Transvaal. Þar vildi námafólkið hrifsa öll völdin úr höndum Búa; það var orðið langtum fjölmennara en þeir sjálfir. Það er ekki hægt að gera við því, þótt útlendingar flykkist hingað til landsins; en það er hægt að ákveða það með lögum, að þeir fái hér engin réttindi.

Það var þetta, sem vakti fyrir mér, og annað ekki. Og mér er alveg óskiljanlegt það sem háttvirtur þingm. Dal. sagði — um þetta efni.

Þá kem eg að 10. breyt.till. minni við 16. grein. Þar er ákveðið, hverjir skuli úrskurða það, hvort þingmaður sé löglega kosinn eða ekki. Eg vil að nefnd sem í sitja allir dómendur landsyfirdómsins, lögfræðiprófessorar háskólans og þrír menn, er Alþingi kýs. til þess með hlutfallskosningum í Sameinuðu þingi, hafi þar úrskurðarvald.

Alþingi er ekki ævinlega réttlátur dómari í því efni, það hefir sýnt sig. Þó vil eg gefa því dálitla hlutdeild.

Sumstaðar í öðrum löndum hafa þingin engin áhrif í því efni. Til dæmis er það í Kanada, að sambandsþingið hefir ekkert um það mál að segja, og er þó það þing nokkuð stærra en Alþingi Íslendinga. Og enginn tekur til þess þar, þótt þingið sé gert ómyndugt í því efni. Þar dæma dómarar um það, hvort þingmaður sé löglega kosinn eða ekki.

Ef að vafi leikur á gildi einhvers kjörbréfs, þá velur hæstiréttur einn mann, sem sker úr því, hvort kjörbréfið skuli gilda eða ekki. Hans úrskurði má aftur skjóta undir dómstól, sem í sitja þrír dómarar.

Í Bandaríkjunum heyrir líka úrskurðarvaldið að mestu leyti undir dómara, þótt þingið hafi þar síðasta úrslitavald; en reglurnar eru þar svo flóknar, að eg nenni ekki að rekja þær hér, en læt mér nægja að vísa til bókar um stjórnarfyrirkomulag í ýmsum löndum eftir Svejstrup, IV. 10, 63. Eg hefi nú sýnt fram á, að það er ekkert einsdæmi; þó að slíkt yrði ákveðið hér. Og þegar jafn-fjölment þing, eins og þingið í Kanada, lætur sér það vel líka, að bornar séu brigður á, að það sé óhlutdrægur dómari í sínu eigin máli, þá virðist engin óhæfa að fara fram á það við Alþingi Íslendinga, það láti sér það sama lynda.

Þá kem eg að 11. brtill. minni við 17. gr., um að ráðherra megi setja umboðsmann, ekki einungis til þess að mæta fyrir sig á Alþingi, heldur einnig með sér. Það verk sem ráðherranum er nú áætlað að inna af hendi; er algerlega ókleift fyrir einn mann að vinna. Málin eru nú orðin svo margbreytt, að ógerningur er fyrir einn mann að kynna sér þau til hlítar. Það væri honum því mikill hægðarauki að mega setja mann, til þess að mæta með sér á þinginu. Hann getur heldur ekki verið á sama tíma í báðum málstofum. Hann er þm. í annari deildinni, og þarf að vera þar við atkvæðagreiðslu, og getur ekki á sama tíma mætti hinn deildinni. Þetta ætti að vera í líkingu við aðstoðarráðherra (Undersecretary) í öðrum löndum, Þannig er t.d. Baldvin Baldvinsson landi vor aðstoðarráðherra í Kanada, Þótt hann sé ekki þingmaður.

12. breyt.till. mín er við 22. gr., um það að síðasta málsgrein falli burt.

Eg álít að almennir kjósendur séu ekki færir um að dæma um einstök atriði í jafnflóknu máli eins og t.d. sambandsmálið er. Og mér virðist engin sanngirni í því að heimta, að þeir séu það. Það er líka mín sannfæring, að sambandsmálið hefði aldrei átt fyrir alþingi að koma. Ætíð þegar að kosningar fara fram, ræður það miklu um úrslit þeirra hvort þingmennirnir mundu verða með eða móti Þeirri stjórn, sem þá situr við völdin. En þegar slíku stórmáli, sem sambandsmálið er, á að ráða til lykta, mega ekki neinar deilur um önnur efni blandast inn í það. Það hefði því verið það eina rétta 1908, þegar sambandsmálið var á dagskrá, að kveðja til þjóðfundar og látá hann útkljá málið annan hvorn veginn. Þetta var gert 1851; þá var kállaður saman þjóðfundur. Reyndar Var 1867 málið lagt fyrir Alþingi, en það var þá tekið fram; að það væri þá gert einungis í þetta eina skifti.

Sambandsmálið er líka þannig vaxið, að það heyrir ekki undir starfssvið Alþingið að fjalla um það. Sambandsmálið er nefnilega sameiginlegt mál með okkur Íslendingum og Dönum; það er ekkert sérmál. Og það eru einungis sérmálin, sem Alþingi á að fjalla um.

Það á því að kalla saman þjóðfund í næsta skifti, sem sambandsmálið kemur á dagskrá; og á þeim þjóðfundi verða að eiga setu miklu fleiri menn en sæti eiga á Alþingi; — og þeir eiga ekki að vera kosnir með það fyrir augum að steypa stjórninni, eða með nokkuð á að fyrir augum, en að ráða sambandsmálinu til heppilegrá lykta.

Þá er 13. breyt.till , sem háttv. framsögum. fanst ekki vera nein ástæða fyrir. En það er þó einmitt, því að ég varð að miða við mínar eigin breyt.till., sem á undan eru gengnar, því að ef þær yrðu samþyktar, væri hún óhjákvæmileg vegna þess að þá breyttust allar kosningar.

Áður eg lýk máli mínu, skal eg geta þess, að þótt þetta mál hafi oft verið rætt, þá finnst mér það þó enn illa undirbúið, og þyrfti einu sinni að fá rækilegan undirbúning og veitti ekki af milliþinganefnd, en ekki þannig að fela það annari þingnefnd, sem færi að skjótast í það milli funda. Það væri nær en að láta það nú ganga fram í einhverri mynd, demba svo á kosningum og eiga það svo vist, að það yrði ekki samþykt á aukaþinginu næst. Þetta mál hefir aldrei verið athugað rækilega af stjórninni, heldur að eins á hlaupum hér á þingi. Mér finst menn verði að gera sér það ljóst, að þegar um helgustu og dýrmætustu mál þjóðarinnar er að ræða, þá verða þeir að vanda eig margfaldlega. Það er ekki rétt, þótt það kunni að vera hægt einhvern veginn, að liðka sig hver eftir annars skoðunum í slíkum málum, heldur á hver að standa á sínum grundvelli og berjast þar til þrautar. Hér hvílir mikil ábyrgð á mönnum, og eg veit ekki, hvað menn gera af henni, ef þeir slá af eða kasta burtu sannfæringu sinni til þess að komast að einhverri, bara einhverri, niðurstöðu.

Hvað viðvíkur ríkisráðsákvæðinu, þá er eg á sömu skoðun sem hæstv. ráðh. lét í ljósi við 2. umr., að heppilegt væri, að stjórnin fengi tækifæri til þess að tala við Hans hátign konunginn um þessa nýju leið. Hingað til hefir hún ekki fengið það; en ef þessu máli væri nú vísað til stjórnarinnar, þá væri það einmitt unnið, að henni gæfist þetta tækifæri. Eg er hræddur um, að þessi leið, sem nú er reynt að fara, muni ef til vill ekki reynast greiðfærari en sú sem reynd var 1911. En að kasta sér út í harða baráttu Við konungavaldið, álít eg ekki gerlegt fyr en í fulla hnefana; það væri ábyrgðarhluti, því að ef það væri gert, þá værum vér komnir að sama þröskuldinum sem Norðmenn og Svíar áður. Ef engin lögleg stjórn yrði fáanleg, þá er ekki nema um tvent að gera, annað hvort skilnað, láta oss sigla vorn eiginn sjó, eða þá að kippa burt stjórnarskránni. Mér er alveg sama um, hve mikið hróp er gert að þessu; fleiri vegir eru ekki til, ef þingið stendur fast fyrir á sinni skoðun og enginn ráðherra fæst. Það sjá allir, að hér er ekki nema um tvo kosti að velja, tertium non datur.