01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í C-deild Alþingistíðinda. (1281)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. meiri hl. (Jón Magnússon):

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls að svo stöddu. Ég hugði, að aðrir mundu verða til þess á undan mér. Það tekur því naumast, að fara að mótmæla því sem háttv. þm. Sfjk. (V.G.) sagði um breyt.till. sínar. Eg. hefi minst á þær áður, og eg býst ekki við að neitt frekara umtal þurfi um þær til þess að þær falli.

Hann sagði fyrst, að málið væri ekki nægilega undirbúið og vildi helzt, að því væri, vísað til stjórnarinnar. Eg er ekki viss um að það hefði nokkra þýðingu, þó að svo væri gert og stjórnin legði síðan frumv. til stjórnarskrárbreytingar fyrir næsta þing. Eg býst við að svo mundi fara um það frumv. sem um gerðir þingeins 1911 og gerðir nefndarinnar nú í ár, að um það yrðu skiftar skoðanir.

Hvað það snertir, að málið sé illa undirbúið, þá vil, eg ekki viðurkenna að svo, sé. Það var mikið gert í þessu máli á þinginu 1911, og á þinginu 1912 var það lítillega til meðferðar. Á þessu þingi hefir talsvert verið reynt til að komast að þeirri niðurstöðu í málinu, sem væri vænleg til framgangs. Eg verð að mótmæla að nokkuð sé til í því, að frumv. til stjórnarskipunarlaga, sem samþykt var á þinginu 1911, hafi að eins verið gert til þess að fá aukakosningu. Eg veit ekki betur en að meiningin hafi verið sú, að reyna að fá þá breytingu samþykta á tveim þingum og síðan gerða að lögum. Ið sama mun hafa vakað fyrir mörgum nú, að rétt væri að gera sitt til, að stjórnarskrárbreytingin gengi fram. Þeim þingmönnum hlýtur að minsta kosti að vera það alvara, sem sækja það fastast að kvenfólk og vinnuhjú fái sem allra fyrst kosningarrétt. Nei, undirbúningsleysinu er ekki um að kenna. En hitt er það, að svo lítur út sem aumir hverjir vilji ekki gera neitt til þess að stjórnarskrárbreyting gangi fram. Þeir vilja, ekki víkja, í neinu frá kröfum sínum til þess Ef menn vilja að málið fái framgang, þá verða menn eins og hér stendur á, að reyna að koma sér saman um það, sem flestir geta verið nokkurn veginn ánægðir með.

Það er rangt af háttv. þm. Sfjk. (V. G.) að bregða meiri hluta nefndarinnar um, að hann fari í gegnum sjálfan sig í þessu máli, og viki frá kröfum sínum við hvað lítinn mótblástur sem er. Meiri hlutinn hefir einmitt sýnt, að hann vill vinna að málinu þannig, að það nái fram að ganga. Hann hefir sýnt það með því, að hann hefir farið svo langt sem hann hefir álítið fært, til þess að mæta þeim á miðri leið, er á annari skoðun eru en hann. Eg skil ekki, satt að segja, hvernig háttv. þm. (V.G.) hugsar sér að þetta mál geti komist áfram gegnum deildina, án þess að menn reyni að miðla eitthvað málum. Þegar meiri hlutinn sá, að ekki var hægt að koma því fram hér í deildinni, að efri deild yrði skipuð öll öðruvís en neðri deild, þá tók hann þá afstöðu, að reyna að fá meiri hluta hennar skipaðan þannig.

Það er alveg víst, að kröfur þjóðarinnar ganga í þá átt, að fá verulegar breytingar á stjórnarskránni, og það er jafnvíst að þingið getur ekki látið það bíða mjög lengi, að verða við þeim kröfum. Hv. þm. Stfjk. (V.G.) áleit, að því er mér skildist, ekki rétt að taka tillit til þeirrar öldu, sem gengur yfir landið, að afnema eftirlaun embættis manna. Það getur vel verið, að ekki sé rétt að afnema eftirlaun. En hins verður að gæta, að krafan er svo almenn, að ekki verður hægt að komast undan því að verða við henni.

Þá sagði háttv. þm. (V. G.), að í flestum löndum Evrópu væri »aristokatiskari« kosningarmáti til efri málstofunnar en til þeirrar neðri. Þetta er sjálfsagt alveg rétt hjá háttv. þm. (V.G.). En það eru líka almennar kvartanir yfir því, hvernig sú málstofan er skipuð annarstaðar. Eg hygg, að ekki sé heppilegt að gera þær breytingar, sem fara aftur á leið, ef svo má segja. Að minsta kosti býst eg ekki við að tillaga í þá átt fái mikið fylgi hér á landi.

Þá sagði háttv. þm. (V.G.), að það gerði ekkert til þó að þeim þingmönnum fækkaði, sem kosnir væru í sérstökum kjördæmum. Að því leyti er meiri hlutinn ekki fjarri háttv. þm. (V.G.). En það hefir sýnt sig, að ekki er til neins að koma fram með það í deildinni. Og það hefir háttv. þm. (V.G.) hlotið að sjá. Eg ímynda mér ekki að það sé af því, að þingmenn séu hræddir um að þeir sjálfir nái ekkí síðar kosningu aftur, ef kjördæmunum verður fækkað. Heldur mun hitt vaka fyrir þeim, að ekkert kjördæmi í landinu vill missa sinn sérstaka þingmann. Sú ástæðan er líka réttmætari. Alþjóð manna er mjög sárt um, að missa þann rétt einn, að kjósa þingmenn út af fyrir sig í hverju kjördæmi.

Eg hefi sagt áður, að meiri hluti nefndarinnar geti ekki fallist á að ráðherrann hafi mann »sér við hlið« Eg skil ekki heldur, hvernig háttv. þm. (V.G.) hugsar sér þetta, nema ráðherrann eigi þá að hafa undirráðherra — »undersecretary«. En svo er ekki um landritarastöðuna. Það gæti náttúrlega komið til mála að gera hana þannig. En hún er það ekki nú. Þar sem háttv. þm. (V.G.) talaði um, að merkileg mál gætu verið til umræðu í báðum deildunum í einu, þá mál vel koma því þannig fyrir, að svo sé ekki. Og eg veit ekki til að nokkur hafi orðið var við það hér í þinginu, að nauðsynlegt væri að fjölga ráðherrunum fyrir þá sök eina. Háttv. þm. (V. G.) sagði við 2. umr., að mig minnir, að einum manni væri ekki fært að fylgjast með í öllum málum, sem fram koma á þinginu. En þó að ráðherrann hefði mann sér til aðstoðar, þá yrði hann jafnt eftir sem áður að fylgjast með í málunum, því að alt starf aðstoðarmannsins yrði vitanlega á ráðherrans ábyrgð.

Eg þarf ekki að fara langt út í það sem háttv. þm. Sfjk. (V.G.) sagði, að Alþingi ætti að eins að fjalla um sérmál landsins. Eg ætla að eins að láta þá skoðun mína í ljósi, að eg tel það ekki rétt. Eg álít að Alþingi hafi vald til að fjalla um öll mál landsins, bæði sérmál og sameiginleg mál. (Valtýr Guðmundsson: Eftir hvaða lögum ?)

Það er auðvitað rétt sem háttv. þm. Sfjk. (V.G.) sagði, að nýjar kosningar á öllum þingmönnum yrði að fara fram, ef stjórnarskráin gengi fram með hans till. í sér fólgnum. En eg hygg, að ekki þurfi að gera ráð fyrir því; eg býst við, að það sé fyrir fram afgert að till. hans geti ekki orðið samþykt að þessu sinni. Að svo stöddu skal eg ekki fara frekara út í það sem háttv. þingm. (V.G.) sagði. Eg hygg, að það sé óþarfi lengja umræðurnar að því leyti.

Háttv. 1. þm. Árn. (S.S.) talaði einnig um, að rétt væri að vísa málinu til stjórnarinnar, því að það væri nægilega undirbúið. Honum get eg svarað á sama hátt og háttv. þingm. Sfjk. (V.G.), að eg tel það ekki rétt. Hins vegar dettur mér ekki hún, að hafa á móti því, að stjórnin verði beðin að taka málið upp og leggja það fyrirnæsta þing, svo framarlega sem ekki verður hægt að lúka við breytingarnar á þessu þingi. En hvort það yrði til þess að málið kæmist nær því að ganga fram, það veit ég ekki. Einstaka spursmál gæti vitanlega skýrst, en ég býst fastlega við, að flest af því sem hér er mest deilt um, yrði sömu vandkvæðum bundið.

Eg ætla ekki að deila um það við hátt. þm. (S.S.) hversu hættulegt það væri að bæta 2 þingmönnum við. Eg ætla háttv. deild að skera úr því eins og öðru.

Eg ætla ekki heldur að orðlengja um gjald, það sem þeim mönnum sem ekki eru í lögmætu kirkjufélagi er ætlað að greiða til Háskólans eða til einhvers annars sjóðs. En eg tel það ekki rétt af háttv. þm. (S.S.) að æsast svo mjög út af þeirri tillögu nefndarinnar. Því verður ekki neitað, að þetta er bót á því ástandi sem nú er. Nú er mönnum gert að skyldu að greiða þetta gjald til þjóðkirkjunnar, jafn vel þó að það geti verið á móti trúarskoðunum þeirra þessi tillaga nefndarinnar fer miklu fremur í þá átt að leysa heldur en að binda. Eg skil ekki, hvernig menn fara að tala um þetta, eins og hér sé verið að leggja nýtt gjald á menn. Þetta er einmitt rýmkun frá því sem nú er.

Ef stjórnarskrárbreytingin næði fram að ganga yrði auk þess greiddur vegur fyrir ið almenna löggjavarvald til þess að leysa kirkjuna undan þjóðfélagsstjórninni.

Eg sé svo ekki ástæðu til að tala frekara um málið, nema einhver gefi ástæðu þar til.