01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í C-deild Alþingistíðinda. (1282)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Eg ætla að hafa þá góðu reglu að vera stuttorður. Eg býst við, að margir ætli sé að taka til máls enn þá, og eg stend að eins upp til þess að gefa mönnum tækifæri til að hugsa sig um. En á meðan þeir eru að því, ætla eg að víkja að ræðu háttv. þm. Sfjk. (V.G.) — ekki að henni allri, heldur aðallega að þeim atriðum sem féllu út hjá háttv. frsm. meiri hlutans (J.M.). Eg ætla að eins að nefna 1–2 atriði sem hann mintist á og eg er honum ósamdóma um. Háttv. þm. Sfjk. (V.G.) sagði, að málið væri illa undirbúið. Og það verð eg að segja, að ólíkt betur er þetta mál undirbúið en Valtýskan var forðum daga. Í því tilfelli var það sorglegt, hvað undirbúningurinn var lítill, því að annars hefðu allir séð, hvaðan hún var kynjuð og engin glæpst á henni.

Þar sem háttv. þingm. héldt því fram, að eg hefði átt að heyra ástæður sínar áður en ég fór að tala óvingjarnlega um tillögur hans, þá getur það verið rétt um eitt atriði. Hann hélt sem sé fram þeirri skoðun minni, að það ætti helzt að vera þjóðfundur sem fjallaði um sáttmála milli Íslendinga og annara þjóða. Þætti mér mikið í það varið, ef hann vildi sýna þetta í verki, en ekki einungis í orði. Eg vil helzt, að menn sýni mér trú sína af verkunum. En hvað gerir hann? Hann stingur upp á að felt verði burt ákvæðið um þjóðaratkvæði, en setur ekkert ákvæði um þjóðfund. Háttv. þm. Sfjk. (V.G.) er ekki konungur, svo það er betra að láta þetta standa í stjórnarskránni. Þar sýnir hann ekki trú sína í verkinu, og þess vegna legg eg minna upp úr því þótt hann sé á sama máli og eg um þetta. Um þennan almenna rétt innborinna manna, skal eg ekki fjölyrða. Eg veit ekki, hvort þetta orðalag er gleggra heldur en það sem áður var. (Valtýr Guðmundsson: Það er þannig orðað í gildandi stjórnarskrá.). Nú, er það svo í stjórnarskránni? Þá bið eg fyrirgefningar, en eg tók svo eftir, að orðalagið væri frá höfundinum sjálfum, og það er ekki betra fyrir það, þótt það standi í gildandi stjórnarskrá. Þessi almenni réttur innborinna manna er jafnóskiljanlegur fyrir því. Hvar er sá réttur almennur? Og hverjir eru innbornir menn? Er það máske mótsetning Við útburði ? (Valtýr Guðmundsson: Það stendur í bók, sem þm. hefir fyrir framan sig.). Það stendur ekki þar, að ekki megi breyta orðalaginu.

Hann talaði mikið um, að hvergi í öðrum löndum væru efri deildir bygðar á almennum kosningarrétti. Nú er því fyrst til að svara, að hér hagar ekki til eins og í öðrum löndum. Hér eru ekki neinar stórborgir með stórborgarskríl, heldur eru hér allir jafnir og ættu því að hafa jafnan rétt til að kjósa. Hann veit, að einn kennari Við háskóla Dana er sprottinn úr fátæktinni hér heima. Hann er af almenningsstétt eins og við erum allir, og hann má leita hér í deildinni eftir öðru og hann mun ekki finna. Eg hefi tekið það fram í mínu nefndaráliti, að þjóðin væri jöfn að gáfnafari og uppeldi, og væru þess vegna allir Íslendingar almenningur eða allir höfðingjar.

Þá er enn eitt atriði, sem eg vildi sérstaklega minnast á. Eg held, að það sé í þriðja sinni á þessu þingi, sem hann stendur upp og hótar okkur að stjórnarskráin verði tekin af okkur. Eg þakka honum fyrir það þolgæði, sem hann sýnir með að standa hér upp hvað eftir annað með þessar ógnanir, og það er skemtilegt að heyra, hvað hann talar þetta af mikilli sannfæringu. (Valtýr Guðmundsson: Annaðhvort verður þetta eða skilnaður.). Ef við fáum skilnað, þá verður það ekki almennur réttur innborinna manna, sem gefur honum þingsæti hér. Eg skil ekki, hvernig inn háttv. þm. getur leyft sér að koma aftur og aftur með þessar hótanir og hræða þingið á því, að konungur muni fremja það ofbeldisverk að taka af okkur stjórnarskrána. Stjórnin ætti að setja ofan í við manninn fyrir þetta, og hún hlýtur að hafa rétt til þess vegna móðgunar við konunginn. Þetta atriði vildi eg benda á, ekki af því að eg hafi ekki gert það áður, heldur til þess að mönnum verði það því minnisstæðara. Á hverjum fingri er hann með herskip eða afnám stjórnarskrárinnar til að ógna okkur með. Og það er annað veldi í danska ríkinu, sem ætlar að taka af okkur ómakið í fjármálum. Eg hefi heyrt, að sameinaða gufuskipafélagið ætli sér að taka af Alþingi fjárveitingarvaldið, og það er alveg hliðstætt þessu, sem háttv. þm. Sfjk. (V.G.) er að hóta um. En það er svo sem ekki í óvænt efni stefnt, því að við vitum, að við eigum þarna hauka í horni, sem vilja taka þetta lítilræði af okkur.

Að öðru leyti en þessu skal eg ekkí fara út í að svara ræðu háttv. þm. Sfjk. (V.G.), því að háttv. framsögum. meiri hlutans hefir líka hrakið það sem hann sagði, en eg vildi að eins láta menn taka vel eftir þessum hótunum hans.