01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í C-deild Alþingistíðinda. (1285)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Lárus H. Bjarnason:

Eg fylgi eðlilega meiri hlutanum að flestu. Þó er það eitt atriði, sem eg get nú ekki verið meiri hlutanum samþykkur um, það atriði, sem háttv. framsögum. gerði mest úr, að 8 þingmenn efri deildar skuli kosnir hlutbundnum kosningum. Eg vildi að vísu helzt að öll efri deild Væri skipuð þingmönnum, sem væru kosnir hlutbundnum kosningum. En úr því að búið er að samþykkja Við 2. umr. að að eins 6 af þingmönnum efri deildar skuli kosnir hlutbundnum kosningum, þá kann eg ekki við að nefndin fari að raska því, sem deildin hefir samþykt, enda er með því móti minst breytt frá núverandi fyrirkomulagi og sneitt hjá því, sem kjósendum mun þykja einna víðkvæmast, röskun kjördæma og breytingu á tölu þingmanna. Hins vegar vona eg, að deildin hallist heldur að 12 ára tímabili hlutbundinna þingmanna en 8 ára.

Eg gæti heldur til samkomulags stutt að því, að færa niður kosningaraldurstakmark nýrra kjósenda úr 40 árum niður í 35, en af því að deildin er þegar búin að samþykkja 40 ára aldursmarkið, mun eg þó halda mér við það.

Annars stóð eg aðallega upp til þess að lýsa undrun minni yfir brtill. háttv. þm. Sfjk. (V. G.), sem flestar hefðu fremur átt heima á ráðgjafarþingi heldur en á löggjafarþingi, og sumar voru sprottnar af hræðslu við að nefndartillögunum mundi ekki byrja vel suður í Danmörku. Eg er nú að vísu sammála háttv. þingm. um það, að æskilegt sé að íhald verði nokkurt í efri deild, og að taka verði tillit til hins þáttar löggjafarvaldsins, h.h. konungsins. En það verður ekki síður að gæta þess um fyrra atriðið, hverju er hægt að koma fram, og um síðara atriðið, hvað þjóðinni er fyrir beztu, enda má telja víst, að konungur vilji ekki standa í ljósi þjóð sinni. Hitt er ófært, sem mér virðist bera svo mjög á í ræðum háttv. þm. og hæstv. ráðherra, bæði í fánamálinu, stjórnarakrármálinu og fleiri málum, að þora ekki að láta uppi einn vilja, fyr en fengin er vissa um að alt falli í ljúfa löð hinum megin við pollinn. Sízt fer vel á slíku hjá ráðherra, því að hann gat Vitað vilja konungs um bæði málin og getur einn komist að vilja konungs um, hvaða mál sem er.

Vík eg svo að þeim brtill. háttv. þm. Sfjk. (V.G.), sem mér er verst við, Og var upprunalega svo illa við, að eg náði ekki upp í nefið á mér, en vona að eg geti nú talað um með stillingu.

Háttv. þm. Vill halda svo kölluðum innborinnarétti sem skilyrði fyrir embættisgengi, og lögleiða hann sem skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi, og fer þar miklu lengra en danska stjórnin hefir nokkru sinni farið. Í stjórnarskránni, sem nú er tæplega 40 ára gömul, er innborinnaréttur, sem vel að merkja er ekki annað en danskur borgararéttur, að eins lögmælt skilyrði fyrir embættisgengi. Síðan hefir réttur þessi samkv. frumkvæði Íslendinga verið gerður að skilyrði bæði fyrir framfærslurétti og jafnvel rétti til að vera formaður á skipi í innanlandssiglingum. En það er komið nóg af svo góðu og sízt ástæða til að fjölga slíkum skilyrðum, allra sízt sem skilyrði fyrir kjörgengi og kosningarrétti, enda næði þm. ekki tilgangi sínum að útiloka útlendan skríl frá afskiftum af landsmálum, nema því að eins að ekki sé til danskur skríll. Hins vegar er það rétt, að það á ekki að hleypa öllum útlendingum að stjórn og löggjöf, en það á ekki að verja íslenzk áhrif með dönskum borgararétti, heldur með íslenzkum.

Þá get eg ekki með nokkru móti aðhylst tillögu háttv þm. um skipun nefndar til að meta lögmæti kosningar alþingismanna og kjörgengi. Það leiddi til fullkominnar umturnunar á valdi Alþingis, gerði það að ósjálfráðum valdhafa í stað þess að það er nú alls kostar sjálfrátt innan síns valdsviðs. Háttv. þm. (V.G.) skírskotaði Upprunalega til þings Bandaríkjamanna því til sönnnunar, að þetta fyrirkomulag væri gott, en þegar eg sýndi honum svart á hvítu, að Bandamenn höfðu sömu ákvæði hér að lútandi og ver og að minsta koati allar Norðurálfur, brá háttv. þm. sér til nýlenduríkja Breta, sérstaklega Kanada og taldi oss vel sama það sem þessir nýlendubúar gera hér gott af. En því get eg með engu móti játað, enda er svo langt frá því, að eg hafi sannfærst um að slíkt fyrirkomulag sé í Kanada, að eg hefi við fljótari lestur á stjórnarskrá Kanada í Posener, sem er um 30 árum yngri en Sveistrup, ekki fundið neitt ákvæði, er sanni mál háttv. þm.

Eg get heldur ekki játað því, að nokkur trygging sé fengin fyrir réttdæmi um kosningar og kjörgengi þingmanna með nefndarskipun háttv. þm. Og eg fyrir mitt leyti mundi frábiðja mér hér að lútandi dómsvald, svo sem eg gerði þegar til orða kom að fela háskólaráðinu að meta gildi skáldrita. Eg er hræddur um, að ef til vill vafasamur úrskurður Alþingis 1909 um kosningu háttv. þm. (V.G.) hafi ráðið of miklu um þessa tillögu hans. Jafn vel auvirðilegustu félög hafa rétt til þess að kveða sjálf um, hverir séu félagsmenn, og þann rétt má sannarlega ekki taka af neinu löggjafarþingi og sízt fá hann í hendur nefnd, sem væri að mestu leyti stjórnskipuð.

Ekki get eg heldur verið fylgjandi tillögum hv. þm. um óbeinar kosningar til efri deildar, enda þó að þær séu að nokkru leyti lánaðar frá grundvallarlögum Dana um kosningar til landsþingsins. Allar kosningar eiga að vera beztar spegilmyndir af vilja kjósenda, en það verða kosningar því síður, sem milliliðir eru margir milli kjósenda og fulltrúa. Það var líka rétt athugað af háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), að tillaga þm. mundi annaðhvort leiða til þess að sýslunefndir og bæjarstjórnir yrðu pólitískar eða kosningarnar að nokkru leyti ópólitískar.

Eg get verið sammála háttv. þm. um það, að kjósendaatvæði (referendum) um mál geti verið mjög aðgæzluverð og sérstaklega spilt framgangi góðra mála í bráð. En eftir öllum atvikum verð eg þó að telja rétt, að áskilja kjósendaatkvæði um sambandsmáliðið, enda er kjósendum ekkí ætlað að greiða atkvæði um einstakar greinar, heldur að játa eða neita sem heild því frv., sem undir þá væri borið.

Háttv. þm. sakaði nefndina mjög um að hafa unnið of mikið til samkomulags, en slík ásökun situr sízt á þeim manni, sem haldið hefir einna fastast fram hentistefnu hér á landi og sýnir hana í framkvæmd jafnvel í dag. Hann hefir dag lofað ýmislegt, sem hann segist þó ekki bera fram breyt.till. um af því að hann sé vonlaus um framgang þess, t.d. um tölu og skipun ráðherra og rof E.d.

Þá voru niðurlagsorð háttv. þm. ekki hvað sízt alveg óþolandi. Hann var þar að benda H.h. konunginum og jafnvel Dönum á það, hvað til bragðs mætti taka, ef Alþingi væri eigi nógu stimamjúkt, sagði, að jafnvel gæti rekið að því, að svifta yrði þá stjórnarskránni, af því að enginn ráðh erra fengist til að gegna. En fyrst er nú það, að engin hætta er á ráðherraleysi meðan háttv. þm. Sfjk. lifir. Og þar næst er það með öllu óforsvaranlegt, að þingmaður og ráðherra skuli hvað eftir annað opinberlega benda Dönum á tök gagnvari Íslendingum, svo sem gert hefir verið bæði í stjórnarskrármálinu og fánamáiinu. Þykist þeir herrar sjá betur, eiga þeir að segja til á flokksfundum og nefndarfundum, en ekki á þingfundum.

Háttv. þm. taldi frumvarp og tillögur nefndarinnar heldur ómerkilegt. Slíku er hægt að slá fram, enda álitamál, hvað er merkilegt og hvað ómerkilegt, en samanburð við breyt.till. háttv. þm. held eg tillögur vorar þoli.

Eg ætla að leyfa mér að rekja lauslega helztu breytingarnar frá því sem nú er, og sést þá hve merkilegar eða ómerkilegar þær eru.

Það má segja, að lögfesta á eið konungs að stjórnarskránni og yfirlýsing um friðhelgi Alþingís skifti ekki mjög máli, en viðkunnanlegra er þó að hafa slíkt ákvæði í stjórnarskránni, enda lögtekin í annara landa stjórnarskrám.

Þá trúi eg ekki öðru en að margir telji úrfellingu ákvæða um innborinna rétt og eftirlaun og bannið gegn bráðabirgðalögum, þótt skilyrt sé, til töluverðra bóta.

Eða mundi afnám konungkjörinna þingmanna og hlutbundin kosning þingmanna í þeirra stað ekki mega heita fremur merkileg breyting?

Og mundi ekki sama mega segja um rýmkun kosningarréttarins, sérstaklega um kosningarrétt til handa konum, sem með tímanum fjölgar kjósendum um meira en helming. Eg þykist að vísu vita, að mörgum mun þykja of skamt farið hér, en þegar á það er lítið að snögg og mikil aukning gæti orðið til skaða og núverandi kjósendur yrðu því harðara úti um afskifti af landsmálum, sem fleiri væri hleypt að í einu, vona eg að menn sætti sig við þessa varfærni, enda nokkur ár ekki nema augnablik miðað við þjóðlífið.

Þá vona eg, að hérlendur fæðingjaréttur og heimilisvist innanlands sem skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi, þyki þjóræknum mönnum máli skifta, og nefna má og í þessu sambandi að einkadómurum er ekki ætlað kjörgengi og hefði svo átt að vera fyr.

Ekki er það heldur ómerkilegt ákvæði, að endurskoðendur skuli vera 3 og hlutfallskosnir og bærir um að skygnast, á hvaða tíma sem er, í reikningsfærslu bæði landsféhirðis og stjórnarráða veljist góðir menn í þau sæti, býst eg við ekki litlum árangri af starfi þeirra.

Í þessu sambandi má og geta þess að girt er fremur en áður fyrir gerræði stjórnarinnar með ákvæðinu um að Alþingi geti krafist aukaþingshalds.

Þá þykir mér það ekki lítils virði, að breyta megi afstöðu þjóðkirkjunnar til landsstjórnarinnar með einföldum lögum.

Nauðungar samband milli ríkis og kirkju er ekki réttlátt, því að átrúnaður manns er — eða á að vera — einkamál hans. Hitt er ekki þar með sagt, að rétt sé að vísa þjóðkirkjunni á klakann eða tæma hana óbeinlínis, eina og ýmsir eru hræddir um að verða mundi, ef fram gengi breyt.till. 577, 2 við 19. gr. Eg er nú raunur ekki svo hræddur um það, að kirkjan mundi tæmast fyrir það, en því býst eg við, að söfnuðir þjóðkirkjunnar mundu sumstaðar rýrna, ef menn gætu losnað við gjöld til hennar og þyrftu ekki að greiða neitt í þeirra stað. Það er að vísu svo, að trúlaus maður ætti að vera laus allra slíkra gjalda, en af praktískum ástæðum mun þó rétt að láta utanþjóðkirkjumenn leggja fram áviðlíka gjald til annara nytsemdastofnana.

Nú liggur ekki fyrir nein br.till. um það, að leggja þau til annarar stofnunar en háskólans, svo að eg mun greiða þegar af þeirri ástæðu vonandi atkv. með því, enda er háskólinn ungur og ekki svo efnaður, að honum veiti af þessu.

Eg skal svo ekki fara út í fleiri atriði. Eg er með tillögu meiri hlutans, nema þar sem eg hefi gert ágreining, en móti öllum breyt.till. háttv. þm. Sfjk., og vildi eg helzt að hann tæki þær allar aftur.