01.09.1913
Neðri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í C-deild Alþingistíðinda. (1288)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Valtýr Guðmundsson:

Eg verð sérstaklega að athuga ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.). Það var ekki lítill skúr, sem á dundi, þegar hann mintist á brtill. mínar. Eg skildi eiginlega ekki í því, hvernig á þessu atæði, fyr en í endalok ræðu hans. Þá sprakk blaðran. Hann var hræddur um, að einhverjir aðrir en hann yrðu til með að verða ráðherrar. En ef orð okkar beggja eru athuguð vandlega, þá kemur einmitt út það öfuga við það sem hann ætlaði að gefa í skyn. Því að eg gerði ráð fyrir því tilfelli, að enginn fengist til að vera ráðherra, en það tilfelli gat hann ekki hugsað sér. Það sem hann sagði, gat því ekki átt við mig. Það hlaut að eiga við einhvern annan.

Hann sagðist oft hafa heyrt það, að menn fyrst leita fyrir sér suður við Eyrarsund og vita, hvort hitt og þetta væri fært, en það mundi hann ekki vilja, heldur fara sinnar leiðar. En seinna í ræðunni var hann þó kominn inn á það, að vilja fylgja hentistefnunni og liðka til. Það er nú einu sinni svo, að Alþingi hefir ekki nema hálft löggjafarvald. Hitt hefir konungur. Og hvernig fór 1911, þegar átti að fara beint og hugsa ekki um, hv ort betra væri að fara krók eða keldu ?

Hann réðst mikið á tillögu mína um, að réttur innborinna manna skyldi vera settur sem skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi, því að ef það væri gert, þá væri dönskum skríl gert léttara fyrir að komast hér að. En er nokkuð betra að fá annan útlendan skríl hingað en Dani? Það hefir einmitt altaf sýnt sig, að Dönum lætur ekki vel að nota auðsuppsprettur hér á landi. Hafi þeir byrjað hér á einhverju, hefir það alt af mistekist fyrir þeim og þeir hætt við það. En ef hann vill vinna það til þess að sýna Danahatur sitt, að veita öllum þjóðum kosningarrétt og kjörgengi hér á landi, þá þykir mér hann ganga nokkuð langt. Fæðingjarétturinn er einmitt heimtaður sem skilyrði í flestöllum stjórnarskrám annara landa, ef ekki öllum. Eg hefi nýlega litið á fjölda þeirra í safni sem hér er til við þingið. Þannig er það t d. í öllum brezku ríkjunum, og á öllum Norðurlöndum. Í norsku stjórnskránni er þetta ákvæði reyndar dálítið óskýrt, eins og háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) tók fram. En eg tel sjálfsagt, að þetta sama sé skilið við það.

Þá talaði háttv. þm. mikið um það, hvað það gerði Alþingi ósjálfstætt, ef það eitt hefði ekki úrskurðarvald um, hvort þingmaður væri löglega kosinn eða ekki. En mér er spurn, getur hv. þm. sannfært nokkurn mann um, að Dominion of Canada sé ósjálfstæðari en Alþingi Íslendinga. Hann vildi segja, að Senatíð í Canada hefði úrskurðarvald um, hvort þeir er þar eiga sæti, væru löglega skipaðir eða ekki. Það er að vísu rétt. En þess er að gæta, að allir þeir sem í Senatinu sitja eru stjórnkjörnir, en enginn þjóðkjörinn; en um ina þjóðkjörnu í Nd. þingsins gildir alt önnur regla. Kosning þeirra er úrskurðuð af dómara. Að það sé hneykslanlegt, eins og hann komst að orði, að bera fram slíka tillögu, það tekur út yfir alt. Þetta fyrirkomulag á sér víða stað, enda er mjög hætt við misbrúkun þingsins á þessu úrskurðarvaldi sínu og þó sérstaklega hér á landi vegna fámennisins. (Lárus H. Bjarnason: Þetta er nýlendufyrirkomulag). Það þýðir ekkert að hrópa upp með það, að lönd, þau er standa í sambandi við England, séu nýlendur. Það eru ríki með fullkominni sjálfstjórn og heita líka ríki —»states«.

Háttv. þingm. vildi gera tortryggilega tillögu mína um kjörmennina, með því að segja, að það fyrirkomulag væri tekið úr grundvallarlögum Dana. En það er alls ekki tekið úr þeim. Þar er þetta alt öðruvís. Eg hefi sett þetta saman eftir fyrirkomulagi í mörgum löndum. Þar sem eg legg til að sýslunefndarmenn séu sjálfkjörnir kjörmenn. Þá hefi eg sniðið það eftir fyrirkomuleginu í Svíþjóð, og þó er það ekki alveg eins. Af því að eg miðaði við ástandið eins og það er hér, þá vildi eg ekki taka upp fyrirkomulag neins lands óbreytt, heldur vildi eg bræða saman fyrirkomulag margra landa, eftir því sem bezt átti við hér á landi Þess vegna hefi eg lagt til, að þingmenn efri málstofunnar skuli kosnir sumpart af sérstökum kjörmönnum og sumpart af sýslunefndum og bæjarstjórnum.

Þegar hv. þm. var að telja upp alla kostina, sem stjórnast skrárbreytingin hefði í för með sér, þá taldi hann meðal annars þann kostinn, að kvenfólk og vinnuhjú fengju kosningarrétt, En í sömu andránni hélt hann því fram að það mundi verða til ógagns að þetta fólk fengi kosningarréttinn strax. Ætli það sé þá ekki dálítið vafasamt, hvort nokkurn tíma verður gagn að því? Eg hygg að þessi stefna yfirleitt, að rýmka kosningarréttinn eins og hér er farið fram á og jafn fljótt, sé mjög hættuleg.

Menn eru alt af að vitna í kröfur þjóðarinnar um stjórnarskrárbreytingu. Eg hygg aftur á móti, að það sé lítill áhugi á því máli hjá almenningi. Það sýndu meðal annars kosningarnar 1911. Þá hafði stjórnarskrármálið engin áhrif á kosninguna. Eg hygg, að þjóðin mundi vel við una, þó að stjórnarskránni yrði ekki hreyft í nánustu framtíð. En það eru praktísku málin: fjárhagsmálin, að vinnumálin og samgöngumálin, sem þjóðin hefir áhuga á að komist í gott horf. Stjórnarskráin má hennar vegna liggja á milli hluta fyrst um sinn.

Þá talaði hv. þm. um atkvæðagreiðsluna um sambandsmálið. Eg hélt því fram, að almennir kjósendur hefðu ekkert vit á að dæma um það mál. Hann sagði, að þeir gætu þó sagt já eða nei. En hvernig eiga þeir að segja já eða nei öðruvís en í blindni, ef þeir hafa ekkert vit á að dæma um einstök atriði málsins?

Þá þótti háttv. þm. undarlegt, að eg skyldi ekki hafa borið fram tillögu um að þjóðfundur fjallaði um þetta mál, úr því að eg teldi það fyrirkomulag ákjósanlegra. Eg bar ekki fram tillögu um það, af því að eg taldi það alla óþarft. Konungur getur skipað að kalla saman þjóðfund, og það er hann einn, sem á að gera það. Það er að eins eitt í því efni, sem konungur getur ekki gert án þess að leita aðstoðar þingsins. Það verður að veita fé til þjóðfundarhaldsins.

Eg hefi nú ekki borið þessar brtill. mínar fram; af því að eg væri þess fulltrúa að þær fengju allar samþykki. Mér var það ljóst, að þær komu of seint fram til þess. En eg bar þær fram af því að eg álít það skyldu hvers þingmanns, að leggja það til málanna sem hann telur bezt og heppilegast. Eg segi eins og draugurinn: Það er ekki öll nótt úti enn. Tillögur mínar verða íhugaðar og ræddar og eg býst við að það verði víðar gert en í þessum sal. Og það hefir komið fyrir að þeir síðustu hafa orðið inir fyrstu. Eg hefi lifað það, að menn hafa sannast á þær tillögur mínar, er frá leið, sem þeir vildu ekki líta við í fyrstu. Fyrir 18 árum vildi eg að Íslendingar færu að stunda fiskveiðar á eimskipum. Þá vildi enginn líta við því. Nú sjá menn að það var rétt en hve mörgum millónum landið hefir tapað á því, að sinna þessu ekki strax, verður ekki út reiknað. Eg vildi að járnbrautir væru lagðar hér á landi. Þá vildi enginn heyra það nefnt. Nú eru menn loksins farnir að sjá, að það var ekkert óráð. Eg vildi að ríkisráðsákvæðinu væri haldið fyrir utan stjórnarskrána. Þá var það talin vitleysa. Nú segja menn annað. Eg get ímyndað mér að eins fari um þessar tillögur mínar. Við skulum láta þær falla að þessu sinni — þær koma aftur.