02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í C-deild Alþingistíðinda. (1297)

35. mál, ný nöfn manna og ættarnöfn

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson:

Það er satt, að eg á enga brtill. við þessa umr. Það kemur af því, að frumv. er nú orðið þannig útlits, að eg vil ekki óhreinka mig á að fást við það. Eg ætla að eins að tala nokkur orð yfir því að skilnaði. Það stendur Enn í frumv. þessi einkennilega málfræði, sem samþykt var við 2. umr., að föðurnafn manna séu föðurnöfnin í eignafalli með son eða -dóttir aftan við. Það er líka sagt í frumv., að ættarnöfn skuli ganga í erfðir, en í 2. gr. er sagt, að þau skuli ekkí ganga í erfðir. Svona er frumv. nú orðið, og enginn breytir. Í 3. gr. er tekið fram, að ekki þurfi að spyrja þá dauðu, hvort þeir vilji leyfa að taka upp ættarnafn. Það var verulega gert. Það er ákveðið að eigi að spyrja þá sem lifa. Þetta er vitanlega dönskusletta. (Jón Ólafsson: Nei !). Jæja, fyrst það er ekki dönskusletta, þá er verið að banna að spyrja, þá dauðu. Eg vil ekki vera að tefja tímann með því að ræða um þetta frv. Þar er alt hvað á móti öðru.

Hvað brtill. viðvíkur, þá vil eg benda á, að Jón Ólafsson heitir jafnt Jón Ólafsson þótt bók eftir hann sé þýdd- á dönsku. Íslendingar eru alt af nefndir með sínum eigin nöfnum. (Jón Ólafsson: Var Benedikt Gröndal ekki vanalega nefndur »Gröndal« ?). Hann var nefndur Benedikt Gröndal af öllum, sem vildu tala íslenzku.

Eg vona, að deildin felli þetta frv., og vil ekki halda lengri líkræðu yfir því.